Indverskt brúðkaup

Eftir að ég lauk skiptinemaárinu mínu í Malasíu árið 2013 var stór draumur hjá mér að geta farið aftur út í heimsókn til fjölskyldunnar og mætt í brúðkaup hjá einhverju af fóstursystkinum mínum. Sumarið 2019 rættist loksins sá draumur þegar yngri fósturbróðir minn var að fara að gifta sig en þetta var jafnframt síðasta brúðkaupið í fjölskyldunni svo ég varð að drífa mig út.

Fjölskyldan sem ég bjó hjá er indversk og er hindúa trúar svo brúðkaupin hjá þeim eru frekar ólík þeim brúðkaupum sem að við þekkjum. Þeirra brúðkaup eru yfirleitt mjög stór og íbúrðarmikil og er margra daga veisla. Þetta byrjar allt með allskonar athafnir sem taka nokkra daga, síðan er brúðkaupið sjálft sem í þessu tilfelli var morgunbrúðkaup í hofi og síðan líkur þessu með brúðkaupsveislu bæði hjá brúðgumanum og síðan brúðinni (semsagt tvær brúðkaupsveislur). Í heildina tóku þessi veisluhöld 9 daga sem einkennast af miklum mat og samveru með ættingjum og vinum.

 

Ég fór í nokkur indversk brúðkaup á meðan ég var skiptinemi en ég sá aldrei allar athafnirnar og allt umstangið í kringum brúðkaupið fyrr en núna. Það er margt sem fólkið þarf að hugsa um fyrir svona stóran viðburð og það var mjög gaman að fá að upplifa allt ferlið.

 

 

Þér gæti einnig líkað við