Í myndatöku á sundbolnum

Þessi færsla er ekki kostuð

Um daginn var eigandi Secret of Iceland, hún Sæunn Tamar, sem einnig er bloggari hér á Lady.is, á leiðinni á Akranes til að mynda sundbolina sína í nýju útilauginni hérna henni Guðlaugu. Þar sem ég bý hér á Skaganum hafði hún samband við mig og bauð mér að koma og hitta sig, við gætum spjallað í pottinum og svona á meðan á myndatökunni stæði.

Ég mæti að sjálfsögðu á svæðið í SECRET OF ICELAND sundbolnum mínum og Sæunn spyr mig hvort ég vilji ekki láta ljósmyndarann taka myndir af mér líka. Ég var mjög hikandi, byrjaði strax að hugsa um appelsínuhúðina mína sem myndi sjást á myndunum og þá staðreynd að ég væri amk 10 kg þyngri en hinar stelpurnar sem verið var að mynda. En Sæunn náði að tala mig til og biður ljósmyndarann að taka myndir af mér. Ég held að það hafi verið mjög ljóst að ég hef engan bakgrunn í fyrirsætustörfum, ég bara gerði það sem ljósmyndarinn stakk uppá. En vitiði hvað, eftir nokkrar myndir fór mér bara að finnast þetta smá gaman og ég fann sjálfstraustið aukast. Svo var ótrúlega gaman að fá að sjá myndirnar sem Sæunn tók á bak við tjöldin á meðan á myndatökunni stóð.

Ég var svo stolt af mér eftirá að hafa gert þetta, því ég ætlaði fyrst innilega ekki að þora því, af því að mér fannst ég ekki nógu flott! Ekki nógu flott fyrir hvað? Til að geta látið taka myndir af mér í sundbol? Maður er svo klárlega sinn versti gagnrýnandi og oft á tíðum sinn versti óvinur. Ég hefði allan daginn sagt vinkonum mínum að skella sér í myndatökuna og það síðasta sem ég hefði spáð í væri hvort þær væru með fellingar eða appelsínuhúð. En þegar kom að sjálfri mér, þá fylltist bara hugurinn af neikvæðum hugsunum um minn líkama.

Ég er búin að vinna svo mikið í sjálfri mér og varð fyrst fyrir miklum vonbrigðum með sjálfa mig að þessar hugsanir skyldu koma uppí hausinn á mér, ég hélt ég væri komin lengra en það. En eftirá að hyggja þá er ég fegin að þessar hugsanir komu upp, því ég lærði að hlusta ekki á þær og láta bara vaða samt! Ég held að maður verði aldrei kominn á þann stað að það munu aldrei koma upp neinar neikvæðar hugsanir í garð líkama síns, þetta er stöðug vinna. Alveg eins og öll önnur sambönd, þá þarf maður að rækta sambandið við sjálfan sig líka, það verður ekki bara gott að sjálfu sér.

Ég er allavega sátt með að hafa skellt mér í myndatökuna og þó svo að ég hafi ekki verið í skýjunum með allar myndirnar, þá voru alveg nokkrar sem ég var mjög ánægð með. Það er virkilega gaman að eiga svona professional myndir af sjálfum sér.

Þér gæti einnig líkað við