Mér finnst voða gaman að skoða Instagram hjá öðrum og þá sérstaklega þeim sem hafa einhverskonar góð eða jákvæð áhrif á mig. Hvort sem það er andleg hvatning, líkamleg hvatning, fallegar myndir, jákvæðni eða kaldur raunveruleikinn.
Í dag langar mig að deila nokkrum erlendum mömmum með ykkur sem eru óléttar eða nýbúnar að eiga barn. Allar eiga það sameiginlegt að vera mjög hvetjandi og duglegar á sinn hátt. Þær eru allar mjög hreinskilnar og segja hlutina eins og þeir eru.
Emily er ólétt af barni númer tvö. Hún á stelpu fyrir sem er tveggja ára. Hún er dugleg að sýna frá hversdagslegu lífi og tekur spjall inná milli þar sem hún er ekkert að skafa af hlutunum. En hún talar oft um það hvað hefur tekið á að vera með eina tveggja ára orkumikla stelpu og hún dauðþreytt, bjúguð og sveitt á eftir henni. Hún er þjálfari og er búin að vera dugleg að sýna frá æfingum á meðgöngunni.
Malin er einnig þjálfari og er hún dugleg að sýna æfingar og hollar og góðar uppskriftir á Instagram-inu sínu. Hún var að eignast strák númer þrjú og er hún mikið að vinna með „body positivity“. Hún sýnir líkamann eins og hann er og ferlið sem líkaminn fer í gegnum á meðgöngu. Einnig á hún voðalega fallegt heimili sem hún er alltaf að dunda við og breyta.
Tískubloggarann og fatahönnuðinn Kenzu þekkja margir. Hún og maðurinn hennar eiga strák í dag en þau voru í mörg ár að reyna verða ólétt og fengu svo hjálp við það á endanum. Það er svo gaman að fylgjast með henni en ég er búin að fylgja henni í ansi mörg ár.
Desi hefur verið í uppáhaldi í mörg ár. Hún er hreinskilin og einlæg og skemmtileg týpa. Hún og maðurinn hennar hafa einnig átt erfitt með að eignast barn. Hafa upplifað missi og ólukkaðar tilraunir við að verða ólétt. Þau fá hjálp á endanum og er Desi ólétt í dag. En þau eru með Youtube síðu þar sem þau sína og segja frá öllu ferlinu, linkur á síðuna þeirra er á Instagram-inu hennar.
Ég byrjaði að fylgja Iuliu aðallega útaf æfingamyndböndunum hennar. Þegar ég var í Barcelona notaði ég myndböndin hennar mjög mikið í ræktinni. Núna gengur hún með barn númer tvö og er að sýna æfingar sem henta óléttum konum. Ef ég hefði getað æft á þessari meðgöngu hefði ég haldið áfram að fylgja æfingunum hennar. Svo er hún líka bara svo mikil dúlla.
Í lokin langar mig að hafa hana Brittany. Hún var að eignast barn númer tvö og æfði hún alla meðgönguna, enda vinnur hún við það. En hún var mjög dugleg að sýna æfingar til að styrkja grindarbotninn og grindina ásamt því að gera æfingar og teygjur til að undirbúa líkamann fyrir fæðingu. Núna er hún búin að eiga og er alltaf að sýna æfingar til að styrkja magann og grindarbotninn sem henta eftir barnsburð.
Segjum þetta gott í bili ♡
xo
Guðrún Birna