Ég heiti Freydís Þóra, er 27 ára og er ný hérna á Lady.is. Ég er búsett í Reykjavík ásamt kærasta mínum, honum Þorfinni, og syni okkar Hlyni Atlasi.
Hver er ég? Það er rosa góð spurning. Ég vil meina að ég sé skemmtileg og fyndin og einstaklega klár, en fólk getur átt sína skoðun á því. Ég ætla þó að koma með nokkrar skemmtilegar staðreyndir um mig svo þið getið kynnst mér aðeins betur.
- Ég elska að vera í kringum fólk, fjölskyldu og/eða vini. Það skemmtilegasta sem ég veit er að vinna við það að skemmta fólki og skemmta mér með þeim. Sat tvö ár í stjórn í nemendafélagi þegar ég var í HÍ og lærði ótrúlega margt á því en var líka eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert.
- Ég elska að ferðast og elska útilegur. Það er smá erfitt þar sem Þorfinnur er ekki alveg á sama máli, en ég hef þó dregið hann með mér í nokkrar ferðir. Meira að segja dró ég hann með mér á camper á Vestfirðina þegar hann var handleggsbrotinn.
- Ég er algjört jójó þegar kemur á áhugamálum. Suma daga langar mig að ganga öll fjöll landsins og aðra daga að sitja heima og prjóna. Það sem mér finnst skemmtilegt er rosa margt og fer það rosalega bara eftir dögum og skapi. Ég baka, elska göngutúra, spila borðspil, prjóna, mála, elda góðan mat, lesa bækur og lengi mætti telja.
- Ég borða ekki lakkrís og kokteilsósu.
- Ég elska að vera mamma hans Hlyns Atlasar. Það er algjör forréttindi að fá að fylgjast með honum þroskast og stækka ásamt því að við foreldrarnir þroskumst og stækkum með honum. Það er svo margt sem ég hef lært og á eftir að læra af þessu hlutverki.
- Ég kem bókstaflega til dyranna eins og ég er klædd og reyni að vera ófilteruð í lífinu almennt. Set jú einstaka filtera á instagram myndirnar en það er bara til gamans gert.
Gæti örugglega haft þetta mun lengra en ætla að leyfa ykkur að kynnast mér betur í gegnum bloggið með tímanum. Takk fyrir að lesa!