Er ekki kominn tími til að renna yfir hvað er nýtt á Netflix þessa dagana? Maður horfir alltaf mikið minna á sjónvarpið yfir sumartímann svo ég hef alls ekki verið að fylgjast neitt rosalega mikið með neinu (nema Love islands síðan það byrjaði, og þá er nú ekki mikill tími afgangs), en ég ákvað að kíkja inn á Netflix núna til að sjá hvað er nýtt og spennandi.
Katla
Íslenskir spennuþættir sem ég verð bara að mæla með. Ég er búin að horfa á þessa og mér fannst þeir rosalega góðir. Býst fastlega við annarri seríu og vona að hún verði jafn góð.
Virgin river
Þriðja serían af þessum þáttum var að detta inn á Netflix í sumar. Frekar rólegir þættir um lífið í Virgin river; ástarsögur og drama, við fáum aldrei nóg af því.
Love is blind
Þrír nýir þættir voru að detta inn í fyrstu seríuna og kallast þeir “after the alter”. Eitt af pörunum er að halda uppá tveggja ára brúðkaupsafmæli og bjóða öllum úr seríunni í partý og auðvitað er endalaust drama og skemmtilegheit.
Too hot to handle
Ný sería af Too hot to handle er mætt. Ég var búin að horfa á þá fyrstu svo ég bíð spennt eftir að finna tíma til að horfa á þessa seinni. Mér fannst þetta skemmtilegir raunveruleikaþættir með smá öðruvísi ívafi en maður er vanur. Mæli með. Ég sé að það er líka komin sería af Too hot to handle Brazil, gæti verið gaman að horfa á það líka.
Outer banks
Þessir þættir eru mjög vinsælir þessa dagana. Ég horfði á einhverja tvo þætti fyrir löngu síðan, en miðað við vinsældir þessara þátta þá þarf ég að gefa þeim annan séns. Núna eru komnar tvær seríur sem er alveg tilvalið í hámhorf.
Outlander
Þessa þætti horfði ég á fyrir löngu síðan í Sjónvarpi Símans, en kláraði aldrei, svo ég var mjög glöð að sjá að þeir eru komnir á Netflix. Þetta eru svona þættir sem maður dettur alveg inní og getur ekki hætt að horfa á. Mjööög góðir og ekki skemmir fyrir að það eru komnar fjórar seríur, svo það er nóg til að glápa á.
Murder mystery
Bíómynd með Jennifer Aniston og Adam Sandler sem ég rakst á í sumar og horfði á. Mjög skemmtileg og fyndin mynd sem ég skemmti mér konunglega yfir. Stundum er maður bara ekki alveg í gírnum til að byrja á nýrri þátta seríu, þá er tilvalið að skella sér bara á bíómynd.
Vikings
Allar sex seríurnar af Vikings eru komnar á Netflix. Meistaralega góðir þættir sem allir ættu að horfa á. Ég kláraði þrjár seríur á sínum tíma þegar þessir þættir komu út fyrst, en svo hef ég einhvernveginn aldrei komið mér í að byrja aftur, en núna fyrst þættirnir eru komnir á Netflix þá fer ég klárlega í það verkefni við fyrsta tækifæri!
Takk fyrir að lesa