Hvað er í matinn?

Hver kannast ekki við þann eilífa hausverk alla daga að ákveða hvað á að vera í matinn. Á mínu heimili erum við bara tvær fullorðnar manneskjur, en samt lendum við í þessu á hverjum degi. Hvað eigum við að hafa í matinn? Við ákváðum að prófa nýtt kerfi þar sem við skráum niður heila viku í einu og uppfærum svo alltaf á sunnudögum fyrir komandi viku og verslum þá inn annað hvort á sunnudeginum eða á mánudeginum það sem vantar fyrir þá vikuna.

Við byrjuðum á að skrifa niður allar máltíðir sem okkur datt í hug á litla miða. Ég braut svo miðana saman og setti í bolla. Svo dró dóttir mín miðana upp úr bollanum og ég skrifaði á matseðils töfluna okkar jafn óðum. Þannig erum við komnar með vikuplan. Við erum samt mjög sveigjanlegar og það reyndi strax á fyrsta daginn þegar mamma og pabbi buðu okkur í mat. Við þáðum að sjálfsögðu boðið og færðum svo máltíðirnar aðeins til í planinu. Mér finnst mjög mikilvægt að þó maður geri svona plan að það sé samt líka sveigjanleiki og maður geti hliðrað til ef manni er til dæmis boðið í mat eða einhver þarf að vinna lengur svo eitthvað sé nefnt. Að gera svona vikuplan er líka svo ótrúlega þægilegt fyrir matarinnkaup og maður getur sparað hellings pening á því að fara sjaldnar í búðina.

Þér gæti einnig líkað við