Hvað er í æfingatöskunni minni?

Ég fer á æfingu næstum daglega og er ég því komin með ansi vel útbúna æfingatösku. Mér datt í hug að skrifa smá færslu um hvað er í æfingatöskunni minni.

Fyrst langar mig að nefna töskuna sem ég nota. En ég á tösku frá MFITNESS og er þetta fallegasta ræktartaska sem ég hef átt og hún er akkúrat í réttri stærð fyrir mig.

Skór. Það allra mikilvægasta í minni tösku eru æfingaskórnir. Ég æfi aðallega Crossfit og nota ég þar ÞESSA Nike Metcon skó. En eitt par af æfingaskóm er ekki nóg. Ég stunda einnig ólympískar lyftingar og til þess nota ég sér lyftingaskó, sem eru svona harðir með upphækkun undir hælnum. Ég nota ÞESSA Nike Romaloes skó fyrir lyftingarnar. Báða þessa skó verslaði ég hjá SPORTVÖRUM. Ef þið hélduð að tvenn pör af æfingaskóm væri nóg, þá skjátlaðist ykkur. Ég er með þriðju Nike skónna í æfingatöskunni minni. En það eru bara svona típískir Nike trainers, sem ég nota ef það eru lengri hlaup á æfingu. Metcon skórnir eru alveg flatir og soldið harðir í botninn og því henta þeir eiginlega ekki til þess að hlaupa. Ég læt þá samt alveg duga ef það eru 400m hlaup eða styttri á æfingu. En ef hlaupavegalengdin er lengri þá dreg ég fram þessa gömlu góðu.

Vafningar. Næst mikilvægast í æfingatöskunni minni eru ÚLNLIÐSVAFNINGARNIR og fimleikaólarnar. Ég nota úlnliðsvafninga í öllum æfingum þar sem unnið er með stöng, því ég er með mjög auma úlnliði og finn fyrir því um leið og einhver þyngd er komin á stöngina. Úlnliðsvafningar fást í öllum þessum helstu íþróttavöruverslunum. Fimleikaólarnar nota ég svo í kipping upphífingum og toes to bar, þar sem mikill núningur kemur á lófana og þeir koma í veg fyrir að maður rifni. Það er til ótrúlega mikið magn af ólum en mér hefur fundist ÞESSAR henta mér best, en þær keypti ég í GÁP. Þær kallast Wodies og eru líka með stuðning fyrir úlnliðinn sem er algjör snilld.

Lyftingabelti er alveg nauðsynlegt í þungum lyftum og dreg ég það fram í hnébeygju, réttstöðulyftu og fleiri æfingum þar sem maður er yfirleitt að vinna með miklar þyngdir. Ég tognaði einu sinni í mjóbaki og er fljót að finna fyrir þreytu þar í mörgum æfingum og finnst mér beltið hjálpa gífurlega mikið. Beltið mitt keypti ég í HREYSTI.

Hnéhlífar geta hjálpað mikið til í þungum beygjum og einnig í æfingum eins og fram- og afturstigi þar sem maður þarf að láta hnéð snerta gólfið með einhverja auka þyngd. Ég er allavega fljót að fá illt í hnéð í slíkum æfingum ef ég er ekki með hlífar á hnjánum. Mínar hnéhlífar keypti ég í SPORTVÖRUM. Athugið að þær eru seldar stakar, þannig að maður þarf að kaupa tvær ef maður vil eiga fyrir báðar fætur.

Sport teip. Ég nota sport teipið kannski ekkert gífurlega mikið en það er mjög gott að hafa það. Ég teipa stundum á mér þumalinn fyrir langt Snatch session og einnig finnst mér gott að nota það til að teipa yfir sár á höndum og fingrum til að sárin opnist ekki á æfingu. Plástrar detta af um leið, en teipið helst á endalaust. Teipið keypti ég í SPORTVÖRUM.

Kalk. Ég nota kalk ef ég er að taka æfingu annarsstaðar en niðrí Crossfit stöð. Maður verður bara að passa sig extra vel að vera ekki sóði. Að mínu mati er kalk ómissandi í upphífingum, toes to bar, ketilbjöllusveiflum og fleiri æfingum þegar maður er farinn að svitna í lófunum. Kalkið keypti ég í SPORTVÖRUM.

Sippuband. Mér finnst nauðsynlegt að eiga sitt eigið sippuband fyrir double unders. Þá getur maður stillt það nákvæmlega eins og maður vill hafa það og þarf aldrei að vera að eiga neitt við það. Ég prófaði fyrst að kaupa mér frekar dýrt sippuband, en mér fannst það ekki henta mér mjög vel svo ég endaði með að kaupa bara frekar ódýrt sippuband í HREYSTI sem mér líkar mjög vel við.

Svo er ég að sjálfsögðu með nauðsynjar í æfingatöskunni, eins og til dæmis vatnsbrúsa, auka hárteygjur og spennur og þess háttar. Það er lítið rennt hólf framan á töskunni sem er algjör snilld fyrir svona smáhluti.

Þetta eru allt vörur sem ég hef safnað að mér síðustu 2 árin síðan ég byrjaði í Crossfit. Ég keypti mér alls ekki allar þessar vörur í einu, og það er að sjálfsögðu ekki nauðsynlegt að eiga allar þessar vörur til að geta stundað Crossfit eða lyftingar. En þegar þetta er aðaláhugamálið manns þá einhvernveginn fer maður að vilja að eignast alla þessa hluti, því þeir geta hjálpað manni að ná meiri árangri.

Einnig langar mig að taka fram að ég hef keypt mér allar þessar vörur sjálf og þessi færsla er ekki unnin í samstarfi.

Takk fyrir að lesa

Þér gæti einnig líkað við