Hugmyndir af afþreyingu með barn á höfuðborgarsvæðinu.

Núna er sumarfríinu að ljúka og flestir leikskólar farnir af stað. Þetta þýðir það að foreldrar sem eru heima með börnunum sínum hafa ekki lengur þann möguleika að skreppa út á næsta leikskóla með börnin til að leika. Af minni reynslu eru fullt af leikvöllum hér og þar á höfuðborgarsvæðinu, en misgóðir. Hlynur er enn ekki farinn að labba alveg, og skríður mest og er alltaf að troða öllum steinum sem hann finnur upp í sig. Þar af leiðandi finnst mér rosalega leiðinlegt hvað flestir leikvellir eru enn með grjóti og möl. Þeir nýju eru oft með svona gúmmímottum sem mér finnst mun betri fyrir skríðandi barnið mitt.

Það er þó hægt að gera margt annað skemmtilegt með börnunum og ætla ég að koma með lista af hugmyndum sem hægt er að skoða og gera á höfuðborgarsvæðinu.

Kastalakaffi er kaffihús með góðu leiksvæði fyrir börnin sem staðsett er í húsi Hjálpræðishersins á Suðurlandsbraut 72. Kaffihúsið eru nokkur svæði og eitt svæði er stórt herbergi með fullt af allskonar dóti, lágum sófa sem börnin geta auðveldlega prílað á og svo stólum og borðum fyrir foreldrana. Það er gott verð á kaffihúsinu og þau eru alltaf með skvísur til sölu sem mér finnst frábært. Ekki skemmir heldur fyrir hvað starfsfólkið er frábært.

Kaffihúsið hjá Spilavinum sem staðsett er í kjallara verslunarinnar. Það er lítið og krúttlegt og frábær aðstaða fyrir börn að dunda sér meðan foreldrarnir fá sér kræsingar og jafnvel spila saman.

Bókasöfn geta verið mjög skemmtilegur staður að fara með lítil forvitin kríli. Þau þurfa heldur ekki að vera svo gömul til að hafa gaman af því að skoða bækur og því tilvalið að fara með lítil kríli og skoða. Hér set ég inn tengil af bókasöfnum Reykjavíkur, en hvert bæjarfélag hafa flest líka bókasöfn.

Sýningin Chromo Sapiens sem staðsett er í Höfuðstöðinni. Þetta er skemmtileg upplifun fyrir bæði foreldra og börnin. Sýningin er ekkert rosa stór og hægt er að fara oftar en einu sinni í gegn. Hún er full af litagleði og gaman fyrir börn að skoða og njóta smá að vera. Mæli með að vera ekkert of vel klæddur, því það eru ljós inni sem halda góðum hita á sýningunni. Sýningin er staðsett einmitt við hliðin á kaffihúsi í Höfuðstöðinni og því kjörið að fá sér smá veitingar og skoða sýninguna aftur. Einnig eru þau með smá pall fyrir utan og grasblett sem hægt er að njóta í þegar vel viðrar.

Leiksvæðið á 1. hæð í Kringlunni. Það er lokað svæði með allskonar skemmtilegu dóti og litríkt og skemmtilegt. Það er kjörið tækifæri ef maður þarf eitthvað að útrétta að mæta aðeins fyrir opnun, gefa barninu smá útrás, útrétta smá og fara aftur á leiksvæðið.

Leiksvæðið á Rútstúni fyrir neðan Sundlaugina í Kópavogi. Þetta er skemmtilegur leikvöllur sem lítil, jafnvel bara skríðandi, kríli geta unað sér vel og flakkað á milli og skoðað.

Fjölskyldustundir hjá Memmm_play. Þetta eru hittingar sem eru 2x í viku, eða voru það amk. seinasta haust og vor, þar sem er öllum opið að koma. Svæðið er stútfullt af allskonar skemmtilegu dóti og þær reyna að hafa það mjög eflandi og skemmtilegt. Það er alltaf kaffi á könnunni í boði fyrir foreldrana og góð aðstaða til að gefa börnum að borða/drekka og skipta á til staðar. Mæli með að fylgja þeim á Instagram til að fá sem nýjustu upplýsingarnar, en þau eru í fríi til 17. ágúst.

Í lokin vil ég benda foreldrum á Foreldrabíó hjá Smárabíói. Þetta hentar líklegast best þeim sem eru með nýbökuð kríli sem sofa bara og drekka. Það er lækkað hljóð á sýningunni og aðeins bjartara í salnum svo foreldrar geti sinnt krílunum sínum. Ég náði því miður ekki að notfæra mér þetta, en langaði alltaf að fara.

Takk fyrir lesninguna!

Freydís

 

 

Þér gæti einnig líkað við