Það kannast eflaust margir við það að hafa ekki mikinn tíma til að elda sér mat í hádeginu þegar maður er í fæðingarorlofi. Hollt mataræði skiptir mig miklu máli og því reyni ég alltaf að eiga eitthvað til sem ég get búið mér til í hádeginu.
1. Ommeletta með kjúklingaáleggi, grænmeti og fetaosti
Ommeletta hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér enda er hún mjög einföld, holl og góð.
Það sem ég nota:
- 2 egg
- Beikon
- 2 kjúklingaálegg
- Fetaostur
- Grænmeti sem ég á til (oftast sveppir, paprika, tómatur og rauðlaukur)
- Kjöt og grill krydd, smá chili pipar og salt
Aðferð: Byrja á að skera beikon og grænmeti í litla bita og steiki það á pönnu. Á meðan þetta steikist brýt ég eggin í skál og krydda. Ég set kjúklingaáleggið og fetaostinn út í eggjablönduna og helli svo grænmetinu út í þegar það er tilbúið. Steiki svo allt saman á pönnunni þar til eggin verða gullinbrún.
Tími: Um 10-15 mínútur
Ef ég á til avocado þá finnst mér mjög gott að hafa það sem meðlæti og stundum rista ég mér lífskornabrauð eða súrdeigsbrauð til að hafa með
2. Ofnbakaður lax
Það er svo lítið mál að krydda lax og henda honum inn í ofn. Á meðan laxinn eldast getur maður nýtt tímann í eitthvað annað!
Það sem ég nota:
- Lax
- Sætar kartöflur, hrísgrjón eða kínóa
- Sítrónupipar, smá chili pipar og salt
Aðferð: Ég stilli ofninn á 180° og blástur og hef laxinn í 15-20 mín (fer eftir því hversu þykkt flakið er).
Tími: Um 15-20 mín
Það er misjafnt hvaða meðlæti ég hef með en mér finnst best að hafa annað hvort ofnbakaða tómata og fetaost eða guacamole.
3. Boozt
Ég hef lengi verið mjög hrifin af því að búa mér til boozt til að borða í hádeginu en það er hægt að hafa þau svo fjölbreytt. Vinsælustu booztin hjá mér eru tropical boozt (uppskrift hér), grænt boozt eða berjaboozt með súkkulaði próteini
Það sem ég nota:
- Möndlumjólk
- Ávaxtablanda
- Banani
- Stundum whey prótein
Aðferð: Allt sett í blandara og þeytt vel saman. Ef ég nota whey prótein þá passa ég mig að setja það út í þegar allt hitt er vel blandað saman og blanda því svo í smá tíma í viðbót.
Tími: Um 5-10 mínútur
4. Próteinpönnukaka
Próteinpönnukakan hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér ef mig langar í eitthvað sætt en hollt. Ég elska hvað það tekur enga stund að græja mér pönnukökuna en ég bý mér hana oft til þegar ég hef lítinn tíma. Hún er vel seðjandi og ég er frekar lengi södd eftir hana.
Uppskrift hér
Tími: Um 5 mínútur
5. Avocado brauð með eggi
Ég elska samlokurnar á Lemon og Joe and the juice og uppáhalds samlokurnar mínar þar eru með avocado og kjúkling. Mér finnst mjög gott að gera mér heimatilbúna samloku sem svipar til þeirra.
Það sem ég nota:
- Gróft brauð eða súrdeigsbrauð
- Kjúklingaálegg
- Avocado
- Egg
- Tómatur
- Ólífu olía
- Salt og pipar
Aðferð: Pensla ólífu olíu á tvær brauðsneiðar og skelli þeim í samlokugrillið. Á meðan þær grillast steiki ég mér egg og stappa avocado. Þegar brauðið er orðið smá crispy þá tek ég það af, smyr avocado á, set eitt kjúklingaálegg, tómata og egg. Salt og pipar svo eftir smekk!
Tími: Um 10 mínútur
6. Salsa kjúklingur
Þetta er alltaf jafn klassískt og þægilegt að græja ef maður á kjúkling heima.
Það sem ég nota:
- Kjúklingur
- Salsa sósa
- Hrísgrjón
- Paprika, sveppir, rauðlaukur
- Bbq kryddið frá Old el Paso
Aðferð: Ég sker niður grænmetið og kjúklinginn. Ég set kjúklinginn í skál, blanda bbq kryddinu við og hræri vel. Byrja á að steikja grænmetið á pönnu og þegar það er farið að eldast bæti ég kjúklingnum við og steiki þar til hann eldast í gegn. Með þessu er ég oftast með salsa sósu, guacamole og hrísgrjón.
Tími: Um 15 mínútur
Ég er mjög dugleg að deila allskonar hugmyndum og uppskriftum á Instagram hjá mér og setja í Highlights- endilega kíkið þangað ♡