Ég hef nefnt það áður að ég gjörsamlega elska að hjóla, hvort sem það er inni í spinning eða úti í fallegri náttúru.
Ég byrjaði fyrir um fimm árum síðan að mæta í spinning tíma og sá það fljótt að mér fannst mjög skemmtilegt að hjóla við skemmtilega tónlist. Ég var ekki lengi að biðja um hjólaskó í jólagjöf og hafa þeir verið mjög mikið notaðir síðustu ár!
Það var þó ekki fyrr en árið 2016 að ég eignaðist mitt fyrsta götuhjól frá því ég var lítil. Ég og Hörður vorum dugleg að hjóla í Reykjavík á þessum tíma á sumrin og fannst mér gaman að vera búin að finna þetta sameiginlega áhugamál hjá okkur.
Hjólabakterían byrjar af alvöru
Árið 2017 tókum við bæði ákvörðun um að keppa í Wow cyclothon og hjóla hringinn í kringum Ísland. Hvorugt okkar átti racer hjól en við vorum ekki lengi að taka þá ákvörðun tveimur mánuðum fyrir mótið að fjárfesta í sitthvoru hjólinu. Það var ekki nóg að eiga gott hjól heldur þurftum við einnig að kaupa sér sérstakar hjólabuxur með rassapúðum, hjálm, hanska, hjólabol, jakka og fleira.
Síðan hefur ekki verið aftur snúið úr þessu áhugamáli og ég get alveg sagt það að þessi hjól hafa verið virkilega mikið notuð síðan þá.
Hjólað úti á landi
Við hjónin elskum bæði að hjóla úti á landi og erum dugleg að taka hjólin með okkur þegar við ferðumst út á land.
Í fyrra fórum við á Bolungarvík með fjölskyldu Hödda og við tókum hjólin með okkur. Það var svo virkilega gaman að hjóla á götunum með alla þessa fallegu náttúru í kringum okkur!
Við hjóluðum mikið í kringum Bolungarvík og á Ísafirði. Einn daginn ákváðum við að keyra með hjólin í gegnum Vestfjarðargöngin og hjóluðum við þaðan að Þingeyri.
Við vorum ekki að reyna að slá einhver hraðamet í þessari hjólaferð heldur var þetta meira hugsað sem hjólatúr þar sem við vorum líka að skoða náttúruna. Við stoppuðum til dæmis við fallegan læk þar sem Höddi sótti sér vatn í brúsann sinn (sjá myndina fyrir neðan). Þetta voru um 34 kílómetrar að Flateyri og áttum við þá eftir að hjóla alla leiðina til baka.
Á Þingeyri stoppuðum við og fengum okkur góðan hádegismat á yndislegu kaffihúsi.
Við vorum virkilega heppin með veður þar sem það var frekar hlýtt úti þrátt fyrir að það væri smá vindur. Um leið og við vorum komin á Þingeyri byrjaði að hellirigna og enduðum við á því að hringja í bróðir hans Hödda og fá hann til að sækja okkur.
Það gerði söguna bara ennþá skemmtilegri ef eitthvað er!
Hjólaárið 2019
Í síðustu viku tók ég þá ákvörðun að taka þátt í Wow cyclothon árið 2019 með samstarfsfélögum mínum hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins (LSR). Þetta er í annað skiptið sem ég tek þátt og ég get ekki beðið!
Núna hefjast æfingar á fullu og þarf ég að koma mér í hjólagírinn aftur.
Hjólið var tekið út úr geymslunni fyrir tveimur vikum og ég er strax búin að fara í nokkra rólega hjólatúra í Reykjavík og ég get ekki lýst því hvað mér líður vel að vera komin aftur á hjólið. Ég er búin að skrá mig í Hjólað í vinnuna og ætla ég að vera dugleg að hjóla í og úr vinnu í sumar. Síðan er nóg af hjólatúrum og æfingum með liðsfélögum mínum framundan næstu vikurnar þar sem keppnin hefst 25. júní.
Rétt fyrir keppnina fer ég í ferð til Spánar með Hödda og fjölskyldunni hans. Ég er búin að taka þá ákvörðun að leigja mér hjól úti og ég er virkilega spennt fyrir því að prófa að hjóla úti í hitanum!
Ég mæli eindregið með því að taka hjólin með ef þið eruð að fara að ferðast um Ísland því það er svo allt önnur upplifun að hjóla utan Höfuðborgarsvæðisins.
Við fjárfestum í hjólafestingu sem hægt er að setja aftan á bílinn okkar og setja tvö hjól á. Ég mæli með að kaupa góða hjólafestingu og þá er ekkert mál að taka hjólin með í ferðalagið.
Þið getið fylgst með mér á Instagram þar sem ég verð dugleg að sýna frá hjólaæfingunum og þegar ég keppi í Wow cyclothon í júní!
Þangað til næst,
Ása Hulda