Hjólaaðstaðan mín

Ég hef sagt frá því áður að ég var svo heppin að fá hjólatrainer frá karlinum mínum í jólagjöf. Við vissum það ekki þá að þessi trainer myndi nýtast mér alveg rosalega vel á þessu ári en það má segja að hann hafi gefið mér hann á alveg hárréttum tíma.

Ég hef lengi elskað hjólreiðar og hef ég bæði verið dugleg að mæta í spinning /CBC tíma og hjólað úti í mörg ár. Ég er með það mikinn áhuga á hjólreiðum að ég hef tekið tvisvar þátt í Wow Cyclothon þar sem ég hjólaði hringinn í kringum Ísland með liðsfélögum mínum (2017 og 2019) og tekið þátt í Kia silfurhringnum árið 2019 þar sem ég vann minn aldursflokk!

Hjólið mitt

Rétt áður en ég keppti í Kia silfurhringnum náði ég að sannfæra Hödda um að nú væri kominn tími á að kaupa betra hjól fyrir mig en ég var með hálfgerðan byrjanda racer sem ég keypti fyrir Wow Cyclothon 2017 sem hafði verið virkilega mikið notaður. Við fórum í Tri og ég valdi mér gullfallegan full carbon racer frá Cube, með diskabremsum og Ultegra gírum. Ég get alveg sagt ykkur það að það var þvílíkur munur að hjóla á þessu hjóli og fyrra hjólinu mínu og heillaðist ég um leið og ég prófaði það. Ég náði að hjóla nokkrum sinnum á því úti áður en það fékk að fara í geymslu yfir veturinn.

Hjólatrainer

Eftir að ég varð ólétt þá átti ég erfiðara með að mæta í CBC tíma þar sem ég fann að þolið var orðið mun minna og mér fannst erfittt að halda í við aðra. Ég var því mjög ánægð þegar ég fékk trainer frá Hödda í jólagjöf því þá gat ég hjólað heima eftir því prógrami sem hentaði mér betur. Þessi jólagjöf kom á svo góðum tíma því bæði var ég ólétt og svo kom Covid sem varð til þess að ég hætti að mæta í ræktina því ég vildi ekki taka neina áhættu með smit. Ég var því mjög dugleg að hjóla heima alla meðgönguna og hjólaði alveg þangað til það voru 4 dagar í settan dag! Trainerinn sem Höddi gaf mér heitir Tacx Neo 2T Smart og ég er alveg ástfangin af honum! Ég hafði áður prófað hjólatrainer sem ég var ekki ánægð með og virkaði ekki alveg nógu vel. Þessi trainer virkar þannig að við tókum afturhjólið af hjólinu mínu og festum hjólið síðan á trainerinn.

Hjólaforrit

Trainerinn er bæði með bluetooth og ANT+ og er því auðvelt að tengja trainerinn við síma, tölvu eða Ipad. Ég keypti mér áskrift að forriti sem heitir Zwift þar sem ég get valið mér allskonar hjólaprógröm til að hjóla eftir en einnig er hægt að velja hjólaleiðir t.d. í London. Í forritinu getur maður hjólað með öðrum sem eru einnig skráðir inn í forritið og eru að hjóla sömu leið, það finnst mér gera þetta allt svo mikið raunverulegra. Ef þú velur ákveðna hjólaleið til að hjóla eftir þá breytir trainerinn mótstöðunni þegar þú ert að fara upp brekku, niður brekku o.s.frv. og þarftu þá að hækka og lækka í gírunum eins og þú sért að hjóla úti. Ég er oft með forritið í gangi í Ipad sem ég er með fastan á stýrinu á hjólinu og á meðan get ég verið að horfa á þátt í sjónvarpinu eða hlustað á gott podcast. Höddi keypti síðan mjög fína Ipad festingu á Aliexpress sem er auðvelt að festa Ipadinn í.

Aukabúnaður

Ég nota alltaf sérstaka hjólaskó þegar ég hjóla en þá er ég föst við pedalann. Þessa skó get ég notað í CBC, spinning og þegar ég er úti að hjóla. Ég hef átt þessa skó í 5 ár og notað þá virkilega mikið, viðurkenni að það er kominn tími á að kaupa mér nýja! Ef ég ætla að taka hjólaæfingu (ekki bara upphitun fyrir lyftingaræfingu) þá hjóla ég alltaf í sérstökum buxum sem eru með púða á rassinum. Þær eru alls ekki smart en ég mæli svo mikið með svona buxum til að verða ekki aumur í rassinum.

Ef þið viljið fylgjast með mér þá er ég mjög virk á Instagram og deili þar allskonar peppi tengdu mataræði, hreyfingu og fleiru ásamt því að deila frá daglegu lífi með litlu stelpunni minni og manninum mínum

Ása Hulda

Þér gæti einnig líkað við