Við litla fjölskyldan fluttum á Álftanes fyrir rúmum mánuði. Áður en við fluttum var ég alveg búin að ákveða hvernig ég vildi hafa herbergið hjá Ágústu Erlu minni. Ég var spenntust fyrir því að búa til indjánatjald handa henni. En ég hafði oft séð þannig á Pinterest þegar ég var að leita eftir hugmyndum fyrir barnaherbergi. Ég var að hugsa um að kaupa þannig en fannst það pínu dýrt þannig að ég ákvað að búa það sjálf til. Ég ætla að sýna ykkur aðeins herbergið hennar.
Þegar maður labbar inní herbergið þá er þetta veggurinn á hægri hönd. Ég vildi hafa einn vegg í lit og valdi ég þennan. Hann heitir Rosé og er frá Slippfélaginu. Ég vildi ekki hafa hann baby bleikan heldur mildan föl bleikan og er ég mjög sátt með hann. Doppurnar á veggnum eru límmiðar sem ég keypti á Poster.is. Ég notaði stærstu doppurnar og nokkrar af miðstærðinni. Ég raðaði þeim óreglulega á vegginn. Myndirnar tvær keypti ég á Minimo.is og rammana í IKEA.
Við hliðiná rúminu hennar er ég með hvítan stól en ég nota hann oft á kvöldin þegar ég er að svæfa hana. Myndin á veggnum er frá Sirkusshop.is og er svo ótrúlega falleg! Þetta er páfuglsgíraffi og hann fæst hér ásamt fleiri fallegum myndum. Myndin er íslensk hönnun sem mér þykir mjög skemmtilegt.
Þetta er litla leikhornið hennar Ágústu og finnst okkur voða kósý og hlýlegt að vera þarna. Bleika karfan er úr Hrím og pönduplaggatið er Stafrófspandan frá Ernuland.
Til þess að búa til svona tjald þarf þrjú kústsköft (ég keypti mín í Húsasmiðjunni og kostaði eitt um 700 krónur minnir mig). Einnig þarf efni og band. Efnið keypti ég í IKEA og bandið í Húsasmiðjunni.
Fyrst eru stangirnar bundnar vel saman að ofan. Ég notaði slatta af bandi og herti vel. Næsta skref er svo að vefja efninu í kringum stangirnar. Ég gerði bara lítinn hnút með efninu á toppnum. Ég ætlaði að gera eitthvað svaka flott á toppnum en endaði bara á því að festa gamalt perluhálsfesti utanum endann. Að lokum raðar maður inní tjaldið. Ég keypti púðana og teppið í ILVA.
Hér getiði séð fleiri hugmyndir og leiðbeiningar af barna tjöldum.
Vinstra megin í herberginu er stór fataskápur, IKEA kommóða, IKEA skiptiborð, hilla á vegg sem er líka úr IKEA og lítil tré karfa sem ég læt óhreinan þvott af Ágústu Erlu. Ég keypti hana í Rúmfatalagernum.
Við hliðiná skiptiborðinu, útí glugga er ég með þrjá litla kassa sem ég geymi í saltvatnsdropa, stíla, bossakrem og fleira sem ég þarf stundum að grípa í. Ég get ekki haft þetta á skiptiborðinu því hún tekur alltaf dótið og kastar því útum allt. Ég var með þetta fyrst í hillunni undir skiptiborðinu en mér fannst svo óþægilegt að vera alltaf að beygja mig undir borðið til að ná í eitthvað.
Ég elska að skoða barnaherbergi og fá hugmyndir. Alltaf gaman að fá smá innblástur. Vonandi fannst ykkur gaman að sjá.
xo
Guðrún Birna