Við fjölskyldan eyddum helginni í Skaftártungu með pabba og konunni hans, Öldu, systkinum og stjúpsystkinum. Við systkinin eigum samtals sex börn, fimm þeirra undir þriggja ára, þannig að það var mikið stuð um helgina. Pabbi og Alda leigðu nokkra bústaði fyrir okkur öll í Giljalandi hjá hjónunum sem eiga og reka Giljagisting. Ótrúlega krúttlegir og heimilislegir bústaðir í frábæru umhverfi.
Á laugardeginum kíktum við í réttirnar í sveitinni. Við vorum mjög heppin með veður þennan dag, krakkarnir léku sér úti allan daginn og við tókum göngutúr um hverfið. Venjulega bjóða fjallkóngurinn Sigfús og konan hans Lilja vinum og vandamönnum í fjárhúsið um kvöldið í hangikjöt og heimabakaðar flatkökur en vegna Covid var þetta aðeins öðruvísi í ár. Við fengum því hangikjöt og með því til að taka heim í okkar hús og borðuðum við fjölskyldan saman í einum bústaðnum. Þetta eru bestu hangikjötin, beint frá býli!
Á sunnudeginum áður en við lögðum af stað heim buðu pabbi og Alda upp á grafna gæs. Þvílíkur veislumatur þessa helgina.
xo
Guðrún Birna