Víðsvegar um landið voru bæði göngur og réttir um helgina. Nánast undantekningarlaust höfum við Atli farið í réttir á hverju ári og jafnvel göngur líka. Á laugardaginn voru göngur og réttir í sveitinni hjá tengdapabba og fór Atli í göngur en ég ákvað að vera bara í sveitinni með Tristan og litlu frænku hans Atla. Réttin er beint fyrir ofan sveitabæinn hjá tengdapabba svo ég fór í smá göngutúr með krakkana þegar kindurnar voru að koma niður í rétt en það er alltaf skemmtilegt að horfa á hópinn koma niður. Ég fékk Atla til að taka myndir fyrir mig í göngunum og langar mig að deila þeim með ykkur hér.
Sunnudaginn nýttum við í að fara á Akureyri í verslunarferð. Gerðum stórinnkaup í Bónus, versluðum eitt og annað sem vantaði fyrir heimilið og aðeins af fötum á Tristan en hann er að stækka ansi hratt og er frekar fljótur upp um fatastærðir finnst mér. Við enduðum svo helgina á því að fara út að borða á Greifanum á Akureyri áður en við fórum heim.