Við förum á hverju ári síðustu helgina í júní á Strandir með fjölskyldunni hans Óla. Þau eiga lítil land rétt hjá Hólmavík með litlu húsi sem hefur verið í fjölskyldunni í yfir 100 ár. Þessa helgi safnast margir saman Óla megin og er alltaf jafn gaman að vera þarna og hitta alla. Í fyrsta skipti varð ekkert úr þessari helgi. Tveim dögum fyrir er allt í einu spáð 25 metrum á sekúndu á svæðinu á laugardeginum. Allir hættu við að fara en okkur langaði samt að gera eitthvað annað í staðinn. Við ætluðum með fellihýsið okkar þannig að við hugsuðum að við förum bara hina leiðina í staðinn. Planið var að fara á Kirkjubæjarklaustur með vinum okkar. Svo kemur bara tilkynning á öllum fréttamiðlum að biðja fólk með einhverskonar vagna í eftirdragi að vera ekki að ferðast á föstudeginum og fyrir hádegi á laugardag. Í lok júní… gul og appelsínugul viðvörun. Frábært. Við ákveðum að hætta bara við allt og vera heima, alveg búið að drepa alla stemningu þessar veðurfregnir.
Af því að það var löngu planað að vera í útilegu þessa helgi þá tókum við þá skyndiákvörðun á laugardeginum að fara bara upp í bústað til mömmu og mannsins hennar með hýsið. Við pökkuðum í hvelli, festum hýsið á og brunuðum af stað. Það var æðislegt veður á laugardeginum og var heldur betur notalegt að njóta í sveitinni.
Þetta var fyrsta nóttin hennar Júlíu Huldu í fellihýsinu og svaf hún bara mjög vel í því. Hún var frekar lengi að sofna, enda ótrúlega bjart og skyldi hún ekkert í því að hún ætti að fara sofa. Endaði með því að við svæfðum hana í vagninum og færðum hana svo bara uppí.
Við áttum ótrúlega kósý helgi þó að plan A og B hafi farið úrskeiðis. Næstu helgi erum við svo að fara með stórum vinahóp í útilegu. Ekki alveg komið á hreint hvert við förum enda ræður veðurspáin því.
xo
Guðrún Birna
Instagram –> gudrunbirnagisla