Um síðustu helgi fórum við Atli í smá foreldrafrí til Vilníus í Litháen með vinafólki okkar. Við flugum út á miðvikudagskvöldi og lentum um hálf 2 um nóttina og komum svo heim á sunnudagskvöldið þannig við höfðum 3 mjög góða daga.Við vorum búin að tala um það ansi lengi að fara út saman og létum loksins verða að því. Þegar við fórum að skoða ferðir langaði okkur að reyna að hafa ferðina í ódýrari kantinum þar sem við erum ennþá að taka húsið okkar í gegn og fylgir því mikill kostnaður. Okkur langaði heldur ekki að fara á þessa týpísku ferðamannastaði þar sem allt er fullt af íslendingum og var þetta því fullkomin staður. Það voru nokkrir hlutir sem við höfðum í huga þegar við vorum að velja okkur áfangastað.
- Ódýrt flug
- Ódýr gisting
- Jólamarkaður
- Góðar verslunarmiðstöðvar
Hótelið sem við vorum á heitir Congress Avenue Hotel. Hótelið var mjög gott, fín herbergi, góður morgunmatur og staðsetningin var fullkomin! Beint á móti hótelinu var lítil verslunarmiðstöð sem hægt var að eyða slatta af peningum, sem var mjög hentugt því svo var bara hægt að rölta yfir götuna til að losa sig við pokana uppá herbergi.
Með smá rölti í kringum hótelið var hægt að finna fullt af veitingastöðum. Við klikkuðum reyndar á því að vera búin að panta borð og á föstudagskvöldinu fórum við inn á nokkra staði sem voru alveg fullir og þurftum að fara eitthvað annað. En enduðum reyndar í staðin á geggjuðum stað sem heitir Talutti Bakes ‘n’ Shakes, ég mæli heils hugar með honum! Maturinn var ótrúlega góður og á mjög sanngjörnu verði.
Við nýttum fyrstu 2 dagana aðallega í að versla en við vorum ákveðin í því að reyna að saxa vel á jólagjafalistann þarna úti sem tókst vel. Við fórum í nokkur moll þarna úti
- G9 – Sem var beint á móti hótelinu
- Vilnius Outlet – Outlet moll með mjög fínum verslunum
- Akropolis Vilnius – Mjög stórt moll! Í miðjunni á því er skautasvell
- CUP – Lítið moll sem var ekkert rosalega varið í miðað við hin mollin sem við vorum búin að fara í. Ég fann reynar litla prjónabúð í því.
Laugardaginn nýttum við í að labba um og skoða borgina. Fórum á mjög skemmtilegt safn sem heitir Vilnius Museum of Illusions og var með allskonar sjónhverfingum. Það var alveg magnað að sjá hvað er hægt að gera!
Fyrst til að byrja með notuðum við leigubíla til að komast á milli staða sem var bara frekar dýrt. Okkur var bent á að nota app sem heitir Bolt í staðin og munaði ótrúlega miklu á verðinu. Maður velur bara í appinu hvert maður vill fara og getur þá valið hvernig bíl maður vill fá og fær strax uppgefið verðið. Mjög þæginlegt og einfalt í notkun!
Jólamarkaðurinn var líka mjög nálægt hótelinu. Markaðnum var skipt upp í 2 svæði, annað þeirra var bara ská á móti hótelinu og hitt svæðið var í sirka 400m fjarlægð svo það var mjög þæginlegt að rölta þangað. Hann byrjaði einmitt þessa helgi sem við vorum úti og vorum við mjög spennt að skoða hann. Þegar við röltum í bæinn á laugardeginum og sáum öll húsin sem voru á markaðnum vorum við fyrir smá vonbrigðum því við bjuggumst við fleiri básum. En um kvöldið þegar búið var að opna allt að þá var þetta mjög fínt. Það var góð blanda af básum með veitingum og jólavöru sem gaman var að skoða og komu nokkrir hlutir heim með okkur. Það sem okkur fannst samt magnaðast var að sjá stemninguna og allt fólkið sem var mætt í bæinn til að sjá þegar kveikt var á jólatrénu og hlusta á tónlist sem var á torginu. Þetta var smá eins og þeirra menningarnótt!
Vilnius kom virkilega á óvart og væri ég alveg til í að fara aftur þangað. Ég færi samt kannski eitthvað annað ef ég væri að leita af stórum jólamarkaði. Þetta var í fyrsta skipti sem ég fer á jólamarkað erlendis og held ég að það hafi verið gott að byrja bara á litlum markaði. Þá ætti að vera einfaldara að toppa hann með næstu jólaferð