Helgarferð til Prag

Ég skrapp til Prag með vinnunni minni um síðastliðna helgi, í einhverskonar árshátíðarferð. Ég var svo ánægð með að Prag varð fyrir valinu, því ég var þar í skiptinámi árið 2007 og hafði ekki komið þangað síðan. Ég var ótrúlega spennt að koma aftur og sjá hversu mikið ég myndi muna eftir borginni. Það kom svo í ljós að sumt mundi ég mjög vel en öðru var ég búin að gleyma. Það getur víst gerst á 12 árum.

En ég verð bara að segja að Prag er fallegasta borg sem ég hef komið til. Og hún er ekki bara falleg, heldur líka einhvernveginn alveg mögnuð. Hvert sem þú ferð sérðu merkilegar byggingar, tungumálið er skemmtilegt og endalaust hægt að gera, sjá og skoða. Ég var búin að gera dagskrá fyrir ferðina, þar sem við höfðum bara tvo heila daga í rauninni og ég vissi að það yrði tæpur tími miðað við allt sem borgin býður uppá. En við náðum svo að gera allt sem var á dagskránni og gott betur en það. Við sóuðum engum tíma.

Við vorum mætt á hótelið á fimmtudeginum að kvöldi til uppúr klukkan 20 eftir tveggja tíma seinkun á fluginu okkar. Við ákváðum samt að láta kvöldið ekki fara til spillis og fórum beint á lestarstöðina sem var í tveggja mínútna göngufjarlægð frá hótelinu okkar. Við keyptum okkur þriggja daga lestarpassa sem kostaði ekki nema 1700 íslenskar krónur. Svo tókum við lest niðrí gamla bæinn og borðuðum þar á mjög góðum ítölskum veitingastað sem hét Pizza & pasta factory. Svo röltum við um gamla bæinn og fórum að Karlsbrúnni. Það var rigning þetta kvöld, en við létum það nú ekki stoppa okkur samt sem áður, og gerði hún útsýnið yfir brúnna bara enn fallegra.

Við gistum á hóteli í Karlín-hverfinu sem hét Penta Hotel og var geggjað flott hótel. Það var fínt gym sem ég nýtti mér á föstudagsmorgninum, góður morgunmatur og stórt lobby með allskonar afþreyingu og bar. Ég var í einstaklings herbergi sem var mjög nice, það var sjónvarp þar sem ég gat valið um fullt af bíómyndum, það var hægt að panta room-service (ég gat því miður ekki nýtt mér hana því ég stoppaði aldrei nógu lengi við á hótelinu) og staðsetningin var mjög fín, þar sem það voru matvöruverslanir við hliðin á og það voru ekki nema tvær stoppistöðvar með lestinni niður í bæ.

Við vöknuðum snemma á föstudagsmorgninum og tókum lest að Vysehrad hverfinu. Það er þvílíkt fallegt þar og mikið að skoða. Rosalega flott útsýni og mjög gaman að rölta þar um. Við fórum svo að Dancing House til að sjá þar og svo fór ég að fá mér tattoo sem var þar rétt hjá. Ég mætti þangað í hádeginu og var til klukkan 19 um kvöldið. Ég ætla að skrifa aðra færslu um það, svo ég ætla ekki að skrifa meira um það núna. Eftir flúrið hitti ég aftur vini mína og fórum við í verslunarmiðstöð sem heitir Palladium, ég var svolítið svöng og búin á því eftir flúrið, svo ég verslaði ekki mikið. Enda var frekar erfitt að máta föt með umbúðirnar á mér. Þaðan fórum við svo á bar/veitingastað rétt hjá og hittum vin minn Pavel sem býr í Prag og ég kynntist í skiptináminu. Við fengum okkur nokkra drykki saman og kíktum svo á annan stað þar sem var live músík.

Á laugardagsmorgninum voru allir pínu myglaðir, en við vorum samt komin út um tíu leytið og löbbuðum að Prag kastalanum. Þetta var um klukkutíma ganga, en ótrúlega gaman samt að sjá mikið af borginni sem við hefðum ekki séð hefðum við tekið lest. Við stoppuðum til dæmis á þrengstu götunni í heiminum og ég fór á klósett þar sem litríkur fugl var á vakt. En við ákváðum að fara i kastalann á þessum tíma þar sem það er alltaf athöfn í hádeginu þegar eru vaktaskipti hjá vörðunum. Eitt gott ráð sem ég get gefið er að koma ekki að kastalanum um aðal innganginn, þar sem röðin þar var ein sú lengsta sem ég hef séð. Við komum inn um annan inngang sem er á bak við kastalann og greinilega færri vita af, því þar var nánast engin röð. Það var reyndar frekar bratt og kannski ekki auðvelt fyrir alla að komast þá leið, en klárlega þess virði til að sleppa við biðröðina. En svo er athöfnin við aðalinnganginn svo maður getur þá farið þaðan út. Þar fyrir utan eru svo allskonar básar með mat og fleiru og keypti ég mér þar heitt kjúklingaspjót með lauk og papriku, sem var þvílíkt gott svona í kuldanum eftir erfiða og langa göngu. En við héldum svo áfram og löbbuðum alveg niður úr kastalanum yfir Karlsbrúnna og í gegnum allan gamla bæinn og fórum á verslunargötuna að Wenceslas torginu. Þar náði ég að versla eitthvað.

Um kvöldið var svo komið að árshátíð Skagans sem var haldin um borð í bát á siglingu um Vltava ánna. Þetta var þriggja tíma sigling með hlaðborði og drykkjum. Maturinn var mjög sérstakur og stemmningin var einhvernveginn ekki alveg sú besta. Í fullri hreinskilni hefði ég eiginlega frekar viljað sleppa árshátíðinni til að geta skoðað meira af borginni eða jafnvel verið heima á hótelinu og pantað mér room-service 😉

Svo var komið að heimkomu á sunnudeginum og var rúta að koma að sækja okkur um kl 13:45 svo við ákváðum að nýta tímann og skelltum okkur í verslunarmiðstöðina Westfield og dunduðum okkar þar þangað til við þurftum að fara. Þetta er mjög flott verslunarmiðstöð með öllum helstu verslunum og mæli ég hiklaust með að versla þarna.

Í heildina var ferðin ótrúlega vel heppnuð. Eina sem ég myndi setja út á var að hún leið alltof hratt. Ég myndi segja að þrír heilir dagar sé lágmark þegar Prag er heimsótt til að geta skoðað allt án þess að vera að flýta sér. Ég mun klárlega fara aftur til að njóta enn meira!

Takk fyrir að lesa

Þér gæti einnig líkað við