Helgarferð til Parísar

Ég skellti mér í helgarferð til Parísar um daginn, eða nánar tiltekið frá laugardegi til þriðjudags. Ég flaug ein út og hitti dóttur mína svo í París. Hún býr sem sagt út í Mílanó og flaug þaðan, þar af leiðandi á öðrum tíma og lenti á öðrum flugvelli en ég. Flugið hennar kostaði ekki nema um 7.000 íslenskar krónur og tók rúman klukkutíma. Smá lúxus að vera að ferðast svona innan meginlands Evrópu, en ekki frá Íslandi. 

Það er ótrúlegur munur á að ferðast núna og á covid tímunum. Ég þurfti reyndar að vera með grímu í fluginu á leiðinni út, en ég þurfti ekkert að standa í röð og sýna einhver vottorð eða neitt slíkt. Ég flaug með Play air og tékkaði mig inn online sólahring fyrir flug og þar sem ég var bara með flugfreyjutösku fór ég bara beint í security-check. Þar var engin röð því þetta var fyrsta flug dagsins. Einnig var frekar fámennt í vélinni þannig að ég fékk heila sætaröð út af fyrir mig og vélin var lent á áfangastað 45 mínútum fyrir áætlaðan tíma. Þetta var án alls vafa eitt þægilegasta ferðalag sem ég hef farið í. 

En að París! Við leigðum okkur pínulitla stúdíó íbúð í Montmartre hverfinu, sem er ótrúlega fallegt hverfi í París. Það er allt í brekkum og tröppum, sem ég reyndar vissi ekki af fyrr en við vorum komnar á svæðið. En staðsetningin er frábær og algjörlega þess virði.

Laugardagurinn 

Ég var komin um 13 leytið að Airbnb íbúðinni okkar og þá var Elín mín mætt á svæðið. Við vorum búnar að panta okkur miða í Louvre safnið kl. 15, en þar sem við vorum svona snemma á ferðinni og soldið svangar eftir ferðalagið þá ákváðum við að rölta að “Sacre Coeur” basilikunni sem var rétt um 400 metra frá íbúðinni okkar. Þar fyrir utan fengum við okkur Nutella vöfflur áður en við lögðum svo af stað með metro í átt að Louvre. Við gengum aðeins um svæðið, enda nóg að skoða og vorum við með skip the line miða þannig að það var ekkert stress. Ég mæli hiklaust með því að kaupa alltaf skip the line miða áður en maður fer á svona fræga ferðamannastaði, því annars getur maður lent í mjög löngum biðröðum, sem engum finnst skemmtilegt. Við Elín fórum áður til Parísar árið 2008, og þá skoðuðum við bæði Louvre og Eiffelturninn. Okkur langaði samt að fara á þessa staði aftur, enda komin 14 ár síðan og svona stórkostlega hluti sér maður aldrei nógu oft. Louvre safnið stóð alveg fyrir sínu, þó að Mona Lisa sé sennilega eitt af minnstu málverkunum þarna inni, þá er samt gaman að sjá hana. Við tókum svo röltið frá Louvre að Notre dame svæðinu, en fyrir þá sem ekki vita þá er lokað í Notre dame eins og er, en það er að sjálfsögðu hægt að dást að henni utan frá og allt umhverfið þarna í kring er svo fallegt að það er alveg þess virði. Svo æðislegt að labba meðfram Seine ánni og fylgjast með öllu listafólkinu. Við ákváðum svo að reyna að vera mættar fyrir utan Eiffelturninn fyrir kl. 21 þegar væri byrjað að dimma, því turninn glitrar á heilu tímunum alltaf eftir myrkur í nokkrar mínútur. Það var æði að sjá það og við tókum ekki nema svona skrilljón myndir. 

Sunnudagurinn

Ég vaknaði kl 8 til að fara út að hlaupa. Eins og ég sagði áðan þá var hverfið okkar allt í tröppum og brekkum, þannig að hlaupin voru extra erfið. Enda fæturnir líka þreyttir eftir alla gönguna daginn áður. En mér finnst bara svo gaman að hlaupa í útlöndum í góðu veðri svo ég læt það nú ekki stoppa mig. Við ákváðum að byrja þennan dag á því að kíkja á Sigurbogann (Arc de triomphe). En það var víst einhver sérstakur dagur akkúrat þarna og því var lokað fyrir hádegi og hver einasti lögreglubíll í París var þarna og voru búnir að umkringja svæðið. En við sáum hann allavega úr fjarska og ákváðum bara að ganga að Eiffelturninum, þó það væri ágætlega löng leið, enda var hún mjög falleg og mikið af búðum og allskonar að sjá og skoða á leiðinni. Það var svo geggjað veður að við keyptum okkur smá að borða og settumst í Trocadero garðinn, sem er á móti Eiffelturninum, og borðuðum þar á meðan við hvíldum þreytta fætur og nutum sólarinnar. Við áttum miða til að fara upp í Eiffelturninn kl. 15:30 með guide, en miðarnir voru þannig að við þyrftum að ganga upp fyrstu tvær hæðirnar og fara svo með lyftu upp á efstu hæð. Guidinn okkar var ung stelpa sem var ótrúlega hress og sagði okkur margar skemmtilegar staðreyndir um turninn og byggingu hans. Það eru ekki nema 705 tröppur upp á aðra hæð, en það var samt ótrúlega gaman að fara þetta svona. Um kvöldið fórum við svo út að borða á litlum ítölskum veitingastað í hverfinu okkar. Staðurinn heitir “Al Caratello” og var maturinn þar með þeim betri sem ég hef fengið. 

Mánudagurinn

Ég vaknaði aftur kl 8 til að skella mér í útihlaup, sem voru eiginlega aðeins auðveldari en daginn áður, því nú vissi ég aðeins betur hvar stigarnir voru staðsettir og reyndi að forðast þá og hlaupa göturnar endilangar í staðinn fyrir upp og niður. Það var samt alveg nóg að brekkum, ekki misskilja. Þegar Elín var vöknuð röltuðum við aðeins um hverfið okkar og skoðuðum inn í “Sacre Coeur” basilikuna. Svo áttum við pantað borð kl. 12 á veitingastaðnum “Pink Mamma” sem er einn sá vinsælasti um þessar mundir, og það sást á röðinni fyrir utan staðinn. Við vorum mjög fegnar að hafa pantað borð, annars hefðum við líklegast þurft að bíða ansi lengi. Maturinn á Pink mamma var fínn, en staðurinn er svo fallegur að það er alveg þess virði að fara þangað bara fyrir það! Við röltum svo enn meira um Montmartre hverfið og sáum meðal annars Moulin Rouge, “Ástar Vegginn” og La Maison Rose, sem er vinsæll tökustaður í Emily in Paris þáttunum. Við fórum svo að Óperuhúsinu því við áttum miða til að skoða þar inni. En við vorum eiginlega fyrir smá vonbrigðum þar. Þetta var jú alveg fallegt og allt það, en samt einhvern veginn ekkert stórkostlegt miðað við margt sem við vorum búnar að sjá. Ég myndi allavega ekki setja það ofarlega á forgangslistann ef þú ert að fara til Parísar. Rétt hjá óperuhúsinu er svo verslunarmiðstöð sem heitir Galeries Lafayette og er með nánast allar merkjavörur sem þú getur hugsað þér. Þetta er engin venjuleg verslunarmiðstöð, því hún er í stórkostlegu húsi og uppi á útsýnispallinum er magnað útsýni yfir París. 

Á þriðjudeginum var svo komið að heimferð. Ferðalagið heim gekk eins og í sögu og fékk ég aftur heila sætaröð út af fyrir mig í vélinni. Ef þið hafið ekki ferðast með Play air, þá verð ég bara að mæla með. Þetta er í annað skipti sem ég fer með þeim og ég hef ekkert nema gott um þau að segja. Fékk flugið mitt til Parísar á 35.000 kr. Við þurfum að versla við þessi lággjaldaflugfélög til að halda þessu verðlagi niðri. Tek það samt fram að þetta er ekki auglýsing eða spons á einn eða neinn hátt, ég bara vil að við gerum allt sem við getum til að minnka einokun og okur á þessum markaði, því það er svo gaman að geta ferðast ódýrara. 

Takk fyrir að lesa 

 

Þér gæti einnig líkað við