Ég skellti mér í helgarferð um miðjan september til Mílanó á Ítalíu. Ástæðan fyrir þessu ferðalagi var aðallega að hitta dóttur mína sem er núna búsett úti í Mílanó. Hún er að hefja nám í tísku markaðssetningu í háskóla sem heitir IED í október, en ákvað að fara út í ágúst til þess að læra ítölskuna fyrst. Þannig að hún skráði sig í ítölskunám í einhverjar 8 vikur. Þó að háskólanámið sem hún er að fara í sé kennt á ensku, þá vildi hún samt læra ítölskuna líka. Akkúrat þessa helgi var hún að flytja á milli íbúða og því ákváðum við að það væri sniðugt að ég kæmi til hennar þessa helgi, svo ég gæti aðstoðað hana við flutninginn. Svo langaði okkur líka bara að hittast, við erum ekki vanar að vera svona lengi í burtu frá hvor annarri. Þetta eru sko mikil viðbrigði fyrir mann, erfitt að venjast.
Við vildum nýta tækifærið og túristast aðeins í borginni, fyrst ég var að koma hvort sem er, enda er Mílanó ótrúlega falleg og skemmtileg borg. Veðurspáin var ekki sú besta, en það var spáð grenjandi rigningu alla helgina. Sem betur fer rættist ekki úr spánni og það rigndi bara örlítið á laugardagskvöldinu og svo smá á sunnudeginum, kannski samtals í klukkutíma.
Það var soldið mikið vesen að ferðast á þeim tíma sem ég fór, mikið um skriffinsku sem fylgdi ferðalaginu, mikið af covid testum og allskonar skemmtilegheitum, sem ég mæli nú ekkert sérstaklega með að fólk sé að standa í fyrir svona stuttar helgarferðir. Alltof mikið stress og vesen. En ég lét það ekki stoppa mig í þetta skiptið, þar sem ferðin hafði sérstakan tilgang hjá mér.
Föstudagur:
Ég flaug út eldsnemma á föstudagsmorgni. Var mætt á völlinn upp úr kl 4 um nóttina til að tékka mig inn. Ég flaug með Play til London, og svo þaðan með Ryanair til Mílan. Við tékk-inn í London fékk ég þær fregnir að covid testið mitt sem ég hafði farið í heima á miðvikudeginum væri of gamalt, svo ég þurfti að fara í annað test á vellinum. Ég millilenti í þrjá klukkutíma svo ég hafði sem betur fer alveg nægan tíma, því það var nánast engin röð í testið og starfsfólkið var mjög hjálpsamt með allt saman. Svo bættist við 1,5 tíma seinkun og þegar ég lenti í Mílan tók við 1,5 tíma bið í passport control. Ég hef aldrei lent í öðru eins. Ég var ekki komin út af flugvellinum fyrr en kl var að nálgast 7 um kvöldið, á ítölskum tíma. Þannig að ég var búin að vera að ferðast í einhverja 10 tíma. Þá átti ég eftir að taka klukkutíma rútu inn í borgina og þar tók hún Elín mín á móti mér. Það var svo yndislegt að hitta hana aftur! Við fórum að airbnb íbúðinni minni til að ég gæti tékkað mig inn og skilað af mér dótinu mínu. Ég pantaði litla stúdíóíbúð í “the fashion district” sem var í 5 mínútna göngufjarlægð frá miðbænum og “Duomo”. Við röltum svo niður í bæ og fórum út að borða og fengum okkur drykk.
Laugardagur:
Ég byrjaði daginn á að fara út að hlaupa. Ég elska að finna mér stóra almenningsgarða erlendis og fara að hlaupa. Það er svo frelsandi eitthvað. Ég fann einn mjög stóran og hljóp einhverja tæpa 5 km. Svo fór ég til baka í íbúðina til að fara í sturtu og þaðan fór ég svo heim til Elínar til að aðstoða hana við að flytja allt dótið sitt á milli íbúða. En hún var með tvær stórar ferðatöskur, bakpoka, skólatösku og matarpoka, svo þetta var soldið mikið fyrir eina manneskju að ferja. Þegar þessu var aflokið fórum við með lest á svæði sem kallast “Garibaldi” og skoðuðum okkur þar um. Svo fórum við niðri í miðbæinn í hádegismat og búðarrölt, þar sem við vorum fram eftir kvöldi. Enda nóg að búðum og stöðum til að skoða.
Sunnudagur:
Á sunnudeginum sváfum við soldið lengur, alveg til hádegis. Það var rigning úti, og því var maður ekkert ógurlega spenntur fyrir því að fara út. En við byrjuðum á því að fara niðrí bæ til að borða morgun/hádegismat á Five guys, og svo fórum við og ætluðum að skoða Da Vinci “Last supper” málverkið. En það var allt uppselt í það, svo við fórum bara að rölta um svæðið og skoðuðum til dæmis Castello Sforzesco og Park Sempione sem er mjög stór og fallegur almenningsgarður, þar sem við settumst niður og fengum okkur drykki og ávexti. Um kvöldið fórum við svo í all you can eat buffet og kokteil á Naviglio svæðinu, sem er ótrúlega skemmtilegt svæði til að fara á kvöldin og borða. Margir staðir þarna eru að bjóða upp á svona hlaðborð og kokteil á 10-15 evrur.
Mánudagur:
Á mánudeginum þurfti ég aftur að vakna um miðja nótt til að ferðast heim. Ég var mætt á völlinn kl 4 til að taka covid test fyrir heimferðina, en það var hvergi hægt að fá test inní borginni svona um helgar, það voru allir staðir lokaðir og enga aðstoð hægt að fá. Sem betur fer gekk heimferðin mikið betur en ferðin út, og var ég lent heima í kringum 14 leytið á íslenskum tíma.
Mílanó er ótrúlega flott borg sem býður uppá marga möguleika og vel hægt að fara þangað aftur og aftur. Þetta var mitt annað skipti að heimsækja borgina og ég er mjög spennt að fara þangað aftur.
Takk fyrir að lesa