Helgarferð til Berlínar

Við Óli og Ágústa Erla fórum til Berlínar þar síðustu helgi. Við hittum þar mömmu og manninn hennar, systkini mín og maka þeirra og auðvitað guðdóttur mína. Við flugum á fimmtudegi frá Barcelona og var flugið um tveir tímar. Við gistum á Radisson Blu á Karl Loebknecht Strasse og var það ekkert smá flott hótel með topp þjónustu. Fiskabúrið í lobby-inu var þó toppurinn hjá Ágústu Erlu en ég hef aldrei séð svona stórt og flott fiskabúr.

Á fimmtudeginum tókum við lestina í verslunarmiðstöðina KaDeWe en þar er að finna mikið af merkjavörubúðum eins og Louis Vuitton, Prada, Tiffany & Co., Tommy Hilfiger, Gucci, Lacoste og margar fleiri.

Á föstudeginum kíktum við á Alexanderplatz, settumst þar niður í sólinni og fengum okkur smá hressingu. Við fórum líka í smá búðarráp en í Galeria Kaufhof er til dæmis Topshop og Topman og í húsinu við hliðiná er Primark. Við vorum mjög heppin með veður, á fimmtudeginum ringdi mikið en alla hina dagana var sól og blíða.

Laugardagurinn fór í að labba um allt og skoða og slaka á. Við kíktum á Checkpoint Charlie en í kalda stríðinu var það frægasta hliðið milli austurs og vesturs eftir að múrinn fór upp. Seinni partinn settumst við niður á stað sem heitir Italofritzen en pizzurnar þar eru mjööög góðar. Hótelið okkar var við ána Spree og ef maður labbaði meðfram ánni í nokkrar mínútur þá endaði maður á pizzastaðnum.

Sunnudagurinn var túrista dagur hjá okkur. Við byrjuðum að labba frá hótelinu yfir brúna og þar í gegnum krúttlegan flóamarkað. Ég keypti mjög sæta húfu á Ágústu Erlu þar úr lífrænum bómul en það var margt sniðugt hægt að fá þarna. Ferðinni var síðan haldið að Brandenburg hliðinu. Við löbbuðum slatta og stoppuðum á hinum ýmsu stöðum, maðurinn hennar mömmu er mikill áhugamaður um seinni heimsstyrjöldinni og var mikið um sögustundir, mjög fróðlegt og skemmtilegt. Hann var líka búinn að prenta út myndir af ýmsum byggingum til að sýna okkur hvernig þær urðu eftir stríðið. Skemmdirnar voru svakalegar. Ótrúlegt að sjá þetta svona hlið við hlið – get samt ekki ímyndað mér hvernig þetta var allt saman. Margar byggingar voru bara rifnar niður en sumar lagaðar og ef maður skoðaði vandlega sá maður hvar var búið að fylla inn í byssukúlu holur.

Við kíktum líka á minnisvarða sovíetmanna, minnisvarðann sem var reistur fyrir gyðingana sem fórust í helförinni og svo sáum við hvar bunker-inn hans Hitlers var. Leið okkar lá svo á safnið „Topographie des Terrors“ eða Topography of Terror. Safnið er inni og úti og er frítt fyrir alla.

DDR safnið á að vera mjög flott safn og var það við hliðiná hótelinu okkar, við höfðum samt ekki tíma til að fara í það í þetta skiptið. Mall of Berlin er risa verslunarmiðstöð og örugglega gaman að versla þar en við fórum ekki í það.

Þetta var helgin okkar í grófum dráttum og áttum við yndislega stund saman. Berlín er mjög skemmtileg borg sem ég mæli mikið með að skella sér til!

xo
Guðrún Birna

Instagram: gudrunbirnagisla

Þér gæti einnig líkað við