Nú þegar er farið að styttast heldur betur í litla krílið langaði mig að sýna ykkur heimferðarsettið sem ég prjónaði. En mér finnst svo ofboðslega fallegt að sjá lítil börn í prjónuðum flíkum svo mér fannst ekki koma annað til greina en að prjóna heimferðasett.
Ég byrjaði að prjóna settið haustið 2019 þegar ég varð fyrst ólétt en eftir að hafa misst fóstrið fór settið ofan í skúffu og ég kláraði það ekki. Ég vildi ekki gefa neinum settið heldur geyma það ef ég skyldi verða aftur ólétt. Loksins tók ég það upp úr skúffunni fyrir um viku síðan og hélt áfram með það, en ég átti eftir að fela endana á settinu auk þess sem ég átti eftir að prjóna húfu.
Uppskriftin er úr pjónablaðinu „Prjóna Jóna – prjónar ungbarnasett og fleira“ og heitir settið Þyrnir. Garnið sem ég notaði er Drops Baby Merino og er alveg einstaklega mjúkt. Þar sem ég vissi ekki kynið á barninu valdi ég að prjóna úr hvítu og lillafjólubláu garni sem mér fanst passa vel fyrir bæði kynin (það var einstaklega erfitt að taka myndir af þessum fjólubláa lit, han er meira fjólublár en á myndunum). Litirnir sem ég notaði heita Rjómahvítur (nr. 02) og Ljóslillablár (nr. 37). Ég er ekki ennþá búin að velja mér uppskrift af húfu en þarf klárlega að fara að drífa í því svo allt settið verði tilbúið þegar krílið mætir á svæðið.