Heimferðarsett #2

Ég var að leggja lokahönd á heimferðarsettið fyrir væntanlegt kríli og langaði að sýna ykkur það. Í þetta skiptið ákvað ég að prjóna heilgalla fyrir krílið en ekki buxur og peysu eins og ég gerði upprunalega fyrir Tristan. Ég gleymdi alltaf að segja ykkur frá því að á loka metrunum á síðustu meðgöngu  þá hraðprjónaði ég nýtt heimferðarsett fyrir Tristan. Átæðan var sú að hormónaflækjan sem ég var gat ekki hugsað mér að fara með barnið heim í fjólubláu setti. Svo margir höfðu sagt við mig að þetta væri blátt en við vissum ekki kynið á barninu svo ég gat ekki hugsað mér að ef það kæmi stelpa að hún færi heim í bláu setti (sem mér sjálfri fannst samt bara vera fljólublátt). Ég endaði á að hraðprjóna peysu, samfellu, sokka, vettlinga og húfu eftir annarri uppskrift og í öðrum lit.

Í þetta skiptið ákvað ég strax að velja brúnan lit sem myndi pottþétt passa vel fyrir bæði stelpu og strák því aftur, þá vitum við ekki kynið. Mér fannst mjög erfitt að velja hvaða galla mig langaði til að prjóna því það er til svo mikið af fallegum heilgöllum á lítil börn. Ég endaði á að prjóna Eucalyptus kosedress eftir Perlemors en uppskriftin er á norsku

Húfan sem ég gerði er úr sömu línu og gallinn og heitir Eucalyptus lue 

Sokkarnir eru Mini jord tøfler eftir Jord Clothing og er uppskriftin líka á norsku

Vettlingana skáldaði ég bara upp úr sjálfri mér en aldrei að vita nema ég skrifi kannski uppskrift af þeim einn daginn.

Settið er allt prjónað úr Lille lerke frá Dale garn

Teppið er Mini Augustins no 1 eftir Augustins. Ég keypti mér uppskriftina á norsku en það er hægt að fá hana á fleiri tungumálum. Teppið er prjónaði í hring og var þetta í fyrsta skipti sem ég prjóna svoleiðis teppi. Mjög skemmtilegt og öðruvísi. Ég notaði Heavy merino frá Knitting for Olive í teppið.

Ef ég er að kaupa mér uppskriftir á öðru tungumáli en íslensku þá vel ég yfirleitt að kaupa þær á norsku ef það er í boði. Ég held ég hafi aldrei prjónað eftir enskri uppskrift.

Litirnir í settinu eru ekki að skila sér almennilega á myndum finnst mér. Húfan, vettlingarnir og sokkarnir eru til að mynda mun hvítari en á myndunum virðist það allt vera frekar gult.

Ég er mjög ánægð með útkomuna og hlakka til að klæða lítið kríli í þessar flíkur eftir bara nokkrar vikur!

Þér gæti einnig líkað við