Heimatilbúið barnamauk

Þegar Hugrún var 4 og hálfs mánaða fórum við að prófa að gefa henni fasta fæðu. Hún var farin að sýna mat mjög mikinn áhuga og farin að vakna oftar á nóttunni en hún var vön. Í samráði við ungbarnavernd fórum við því að bæta inn hirsigraut með hörfræ olíu um kvöldmatarleytið. Hún var ekkert smá spennt fyrir matnum og var alltaf mjög dugleg að klára grautinn sem við blönduðum fyrir hana. Við héldum okkur við grautinn í mánuð áður en við fórum að kynna henni fyrir maukuðum mat.

Heimatilbúið mauk

Við hjónin vorum mjög spennt fyrir því að kynna Hugrúnu fyrir öðrum mat því við sáum hvað hún var hrifin af grautnum. Við ákváðum að við myndum mauka sjálf mat fyrir hana og vorum smá týnd með þetta allt saman til að byrja með. Við vorum dugleg að skoða á netinu hvernig væri best að gera þetta ásamt því að við fengum fullt af góðum ráðum frá fjölskyldu og vinum.

Þegar við erum að útbúa mauk þá finnst mér gott að skera niður grænmeti í miklu magni. Ég flysja utan af grænmetinu og skola það vel áður en ég gufusýð það í stórum potti. Við eigum mjög gott sigti sem ég get notað í alla pottana okkar (sama hversu stórir þeir eru). Oftast stilli ég tímann á ca 25-30 mínútur og leyfi grænmetinu að vera vel mjúkt áður en ég mauka það.

Við eigum bæði til matvinnsluvél og blandara sem ég nota til að mauka. Ef ég er að búa til mikið magn finnst mér best að skella þessu öllu í blandarann og bæta vatni út í eftir smekk. Það er hægt að leika sér svolítið með áferðina, setja meira magn af vatni og hafa maukið þynnra eða hafa lítið magn af vatni og hafa það þykkara.

Þegar grænmetið er allt maukað og ég er ánægð með áferðina þá set ég það í frystibox sem við keyptum í Byggt og búið. Ég bíð með að setja fitu (smjör og olíu) út í maukið ef ég ætla að frysta það þar sem fitan getur þránað í frystinum (þetta er eitt af því sem ég hafði ekki hugmynd um til að byrja með!). Ég mauka yfirleitt frekar mikið magn í einu og frysti það svo. Það er svo þægilegt að geta svo bara tekið út tilbúið mauk, hitað það upp og bætt smá smjöri eða olíu við.

Fyrsta smakkið

Þegar Hugrún var 5 og hálfs mánaða ákváðum við að leyfa henni að smakka sætar kartöflur með smjöri. Elsku barnið var svo spennt og umlaði allan tímann meðan hún borðaði matinn. Með tímanum fórum við að gefa henni mauk tvisvar á dag (hádeginu og kvöldin). Í dag erum við farin að gefa henni þrisvar yfir daginn. Við héldum okkur við sætar kartöflur með smjöri eða hörfræ olíu í nokkra daga áður en við fórum að leyfa henni að smakka næsta. Þetta gerðum við með allan mat sem við kynntum fyrir henni en við pössuðum okkur á því að láta hana alltaf smakka nýjan mat í hádeginu. Þetta er gert svo maður sé ekki að skemma nóttina ef maturinn fer ekki vel í þau.

Við leyfðum Hugrúnu að smakka maukaðan mat í þessari röð

  • Sætar kartöflur
  • Rófur
  • Gulrætur
  • Sveskjur
  • Blómkál
  • Avocado
  • Banani
  • Brokkolí
  • Perur og epli
  • Mangó

Það er mjög þægilegt að Hugrún er algjör matargat og virðist elska allan mat! Það eina sem hún var ekki sátt með var avocado þegar hún smakkaði það fyrst. Við leyfðum henni að smakka það eitt og sér svo hún fengi að kynnast bragðinu og svipurinn á barninu var guðdómlegur. Mig grunar að hún hafi ekki verið ánægð með áferðina á því greyið.

Við lentum í því að Hugrún fór aðeins að stíflast og átti erfitt með að kúka þegar hún var að byrja að borða mauk. Við prófuðum að bæta við meiri olíu og gefa henni sveskjumauk og hún varð allt önnur! Eftir það hef ég vanið mig á það að gefa henni sveskjumauk daglega.

Mauk sem Hugrún er mjög hrifin af

Sætar kartöflur, rófur og gulrætur: Þetta er fyrsta grænmetið sem hún smakkaði en hún er alltaf jafn ótrúlega spennt ef hún fær þessa blöndu. Þetta er blanda sem ég á alltaf til fyrir hana inni í frysti. Við þetta blanda ég síðan smjöri eða hörfræ olíu. Ég hef stundum verið að blanda smá sveskjumauki út í þetta og hún er mjög hrifin af því líka

Blómkál og sveskjumauk:Þetta hljómar kannski ekkert frábærlega en þetta er í alvörunni mjög gott. Ég á alltaf til maukað blómkál inni í frysti og sveskjumauk í krukku inni í ísskáp. Út í þetta blanda ég síðan smjöri og hún er alveg hæst ánægð með þetta!

Banani og avocado: Ef þið hafið ekki smakkað þetta combo sjálf þá mæli ég með því, þetta er eins og nammi. Ég skil Hugrúnu mjög vel að vera hrifin af þessari blöndu! Þessu stappa ég bara saman og stundum blanda ég sveskjumauki út í þetta, hún er virkilega spennt fyrir því.

Epli og perur: ég prófaði að mauka einu epli og einni peru saman og setti þetta síðan í krukku sem ég geymdi inni í ísskáp. Ég hef sjaldan séð barnið borða jafn hratt og vera jafn spennta fyrir mat og þegar ég gef henni þetta! Ég hef gefið henni þetta eitt og sér en stundum blanda ég sveskjumaukinu við.

Þegar Hugrún var orðin 6 mánaða fengum við leyfi frá ungbarnavernd að byrja að kynna henni fyrir öllum mat. Það er mjög gaman að kynna henni fyrir nýjum hlutum og hún er búin að fá að smakka allskonar mat núna í dag.

Ég er mjög dugleg að sýna frá maukgerðinni og því sem ég er að leyfa Hugrúnu að smakka á Instagram, ég mæli með að ýta á follow ef þið viljið fylgjast með okkur

Þér gæti einnig líkað við