Heimagert grænmetislasagna & foccacia brauð

Mig langaði að prófa elda eitthvað nýtt um daginn. Ég sá svo girnilega uppskrift af grænmetislasagna og foccacia brauði hjá Ljúfmeti og lekkerheit sem mig langar að deila með ykkur. Brauðið heitir reyndar hvítlauksbrauð hjá henni en er alveg eins og foccacia brauð, mjög gott!

Grænmetislasagna
1 laukur
3 gulrætur
1 kúrbítur
200 g sveppir
200 g spergilkál
2-3 hvítlauksrif
1 dós niðursoðnir tómatar, saxaðir
2 litlar dósir tómatmauk
2 tsk oregano
2 tsk basil
2 grænmetisteningar
salt og pipar
1 stór dós kotasæla
2-3 bollar vatn
lasagneplötur
rifinn ostur

Saxið laukinn, skerið kúrbítinn í bita og sneiðið gulræturnar og sveppina. Léttsteikið laukinn, kúrbítinn, gulræturnar og sveppina í ólívuolíu á pönnu og kryddið. Bætið niðursoðnum tómötum, tómatmauki, vatni og teningum á pönnuna og látið sjóða í 30 mínútur. Á meðan er spergilkálið skorið í bita og léttsoðið. Bætið því á pönnuna í lokin.

Smyrjið eldfast mót og setjið grænmetissósu í botninn, þá lasagnaplötur, kotasælu, aftur grænmetissósu og svo koll af kolli. Endið á að strá vel af rifnum osti yfir. Bakið við 180° í um 40 mínútur.

Foccacia brauð/Hvítlauksbrauð

Hvítlauksbrauð

50 gr ger (1 pakki)
5 dl 37° heitt vatn
1 dl ólívuolía
1 msk sykur
2 tsk salt
12-14 dl hveiti

Fylling

1 dl ólívuolía
1/2 bakki af ferskri basiliku (bara blöðin)
2 hvítlauksrif
1/2 sítróna, (bara hýðið)
Maldonsalt
pipar úr kvörn
Hrærið gerinu saman við fingurheitt vatnið og hellið ólívuolíu, sykri og salti saman við. Bætið nánast öllu hveitinu saman við og hnoðið vel saman. Passið að nota ekki of mikið af hveiti svo að brauðið verði ekki þurrt. Látið deigið hefast á hlýjum stað í 45-60 mínútur.

Klæðið ofnskúffu með bökunarpappír og stráið smá hveiti yfir. Setjið deigið á plötuna, dreifið úr því og látið það vera jafn þykkt. Látið deigið hefast aftur í 40 mínútur. Á meðan er fyllingin útbúin og ofninn hitaður í 250°.

Mixið ólívuolíuna og basilikublöðin með töfrasprota þar til úr verður slétt olía. Pressið hvítlaukinn eða hakkið smátt. Skolið sítrónuna vel og fínrífið hýðið. Hrærið öllu saman og smakkið til með maldonsalti og pipar.

Þegar brauðið er búið að hefast eru gerðar litlar holur um allt brauðið með fingrinum. Penslið fyllingunni yfir brauðið og bakið í miðjum ofni þar til það fær fallegan lit, ca 15-20 mínútur. Látið brauðið kólna undir viskastykki.

Mæli með að prófa!

xo
Guðrún Birna

Instagram: gudrunbirnagisla

Þér gæti einnig líkað við