Síðustu helgi þá langaði Fanndísi Emblu mest af öllu að fara í Huppu og fá Drauma shake sem er uppáhalds ísinn hennar þessa dagana. Sökum Covid er yfirleitt ekki í boði að sitja inni til þess að borða ís og við getum ekki leyft Viktori Fannari að borða ís inn í bíl þar sem það fer alltaf allt útum allt hjá honum, enda bara 2 ára. Veðrið var líka ekki að okkar mati nógu gott til þess að vera úti að borða ís.
Við ákváðum því frekar að kaupa inn allt sem er venjulega í hristingnum sem hún vildi og búa til heima útgáfu af honum.
Drauma shake
Vanilluís
Jarðaberjasósa
Heit karamellusósa
Daim kurl
Mjólk
Þeyttur rjómi.
1. Ísnum, jarðaberjasósunni og Daim kurli er sett saman í blandara ásamt slettu af mjólk. Magnið af mjólkinni segir til um þykktina af hristingnum, meiri mjólk gerir þynnri blöndu.
2. Karamellusósan er hituð og glasið skreytt. Smekksatriði er hvort sett er líka í blönduna smá karamella.
3. Allt sett í glas, þeyttur rjómi ofan á og skreytt að vild.
Í rauninni er auðvelt að búa til mjólkurhristing heima með alls konar nammi blöndu.
Smári bjó sér til dæmis til Pipp súkkulaði mjólkurhristing. Í honum var Pipp súkkulaði og súkkulaðisósa út í vanilluís.
Næst mun ég prófa að gera mjólkurhristing úr hafraís eða öðrum mjólkurlausum ís, þar sem Viktor Fannar er með mjólkuróþol og það færi mun betur í hann.
Njótið!