Heima manicure – Gel lökkun með lampa

Það er svo gaman að vera með fínar neglur. Mér finnst ég allavega vera voða fín þegar neglurnar eru flottar. Ég var í mörg ár með acrýl neglur en hætti þegar ég flutti til Barcelona. Eftir nokkra mánuði þar fékk ég leið á því að vera alltaf að naglalakka mig, rekast í eitthvað og naglalakkið eyðileggjast. Ég kíkti inn á snyrtistofu í Barcelona sem var í götunni okkar og mæltu þær með að prófa gel lökkun. Eftir það var ekki aftur snúið. Þetta er eins og að vera með naglalakk, maður finnur ekki fyrir neinum „þyngslum“ og neglurnar eru mjög náttúrulegar.

Þegar við fluttum til Íslands þá ákvað ég að skoða hvort ég gæti ekki bara gert þetta sjálf á mig. Mamma mín var að fara til Bandaríkjanna þannig að ég ákvað að grípa tækifærið og panta mér vörur og senda til hennar þangað. Ég fann allt á Amazon. Ég pantaði lampa og lökk og sendi á mömmu.

Hér er lampinn sem ég keypti og er hann 54w, en ég las að það væri hentugur styrkur fyrir svona lökkun.

Hér er lakkið sem ég keypti. Merkið heitir Gellen og er ég mjög ánægð með það, það kostar ekki mikið en maður fær góð gæði.

Þessir sem ég keypti hjá senda reyndar ekki til Íslands en það er FULLT í boði og hægt að athuga líka til dæmis á Ebay.

Aðferð

Það fyrsta sem ég geri þegar ég ætla að setja á mig svona gel lakk er að pússa neglurnar í það mót sem ég vil hafa og pússa svo ofaná neglurnar með buffer. Ég geri neglurnar ekki alveg „sléttar og mjúkar“ ofaná heldur nota ég bara fyrsta skrefið og kannski númer tvö á svona marghliða naglaþjöl (sjá nagla buffer/þjöl á forsíðumynd). Við viljum hafa yfirborðið smá „gróft“ til að lakkið festist betur. Svo ýti ég naglaböndunum líka upp.

Það fylgja góðar leiðbeiningar með lökkunum. En það fyrsta sem maður gerir er að láta undirlakk og svo inn í lampa. Síðan lætur maður litinn sem maður vill hafa og inn í lampa. Ég set alltaf tvær umferðir af lit til að þekjan sé sem mest en maður lætur hendurnar inn í lampann á milli umferða. Svo er það yfirlakkið og inn í lampa.

Komið!

Mér finnst neglurnar vera duga í alveg þrjár vikur. Ef ég passa þær vel sér ekki á þeim í 10-14 daga. Stundum notar maður neglurnar sem verkfæri (sem maður á ekki að gera þó ég sé sek stundum!) en þá getur lakkið auðvitað skemmst. En ég reyni að gera þetta á sirka þriggja vikna fresti.

Til að taka lakkið af setur maður aseton í litla bómullarhnoðra, álpappír vafinn í kringum nöglina og beðið í sirka tíu mínútur. Þá losnar lakkið af nöglinni og maður getur „skafið“ það af með svona nagla töng eins og þið sjáið á forsíðumyndinni. Hér er gott kennslumyndband sem sýnir þetta skref fyrir skref.

Ég vil taka það fram að ég er ekki naglafræðingur, ég hef bara mjög mikinn áhuga á þessu og finnst gaman að dúlla við svona hluti. Ég ætlaði alltaf í naglafræðinám eftir að ég tók förðunarfræðina en varð svo aldrei úr því. En maður getur lært ansi margt á netinu og er þetta allt sem ég lærði þaðan og við það að prófa mig áfram.

Takk fyrir að lesa

xo
Guðrún Birna

Þér gæti einnig líkað við