Heilsan eftir Covid smit

Það er góð, og vonandi gild ástæða fyrir því að ég er búin að blogga lítið. Það er einfaldlega það að ég man ekki neitt stundinni lengur. Í ágúst síðastliðinn fengum við fjölskyldan Covid, og já í fyrsta skipti. Síðan þá hefur staðan á heimilinu verið frekar skrautleg.

Eftir Covid fékk ég algjöran þokuheila. Já ég ætla að nota orðið þokuheili. Ég mundi ekkert stundinni lengur og átti bara rosalega erfitt með mig. Það tók á að vera í vinnu, það tók á að halda samræðum án þess að detta út. Til að bæta gráu ofan á svart er ég vissulega með ADHD líka og ekki á réttum lyfjum svo ég var alveg úti að aka. Þetta hafði rosaleg áhrif á mig, og gerir enn, en þetta er allt að lagast.

Ég fór til heimilislæknis og talaði um þetta við hann. Hann sagði mér að þetta væri alveg eðlilegt í einhvern tíma og þetta væru þekkt einkenni eftir Covid. Þetta er þekkt aukaverkun eftir smit. Þetta getur þó verið mjög erfitt á köflum.

Ekki nóg með að vera ekki með á nótunum eftir Covid, heldur hef ég nælt mér í ALLAR pestar. Síðan í ágúst hef ég kannski náð heilli viku ekki veik, ef það er svo gott. Sem betur fer eru strákarnir ekki jafn slæmir og ég, en þó hafa veikindi verið óvenju mikil hjá okkur upp á síðkastið.

Þetta er vonandi bara tímabundið ástand sem fer að lagast. Þið sem eruð í sama pakka, þið eigið alla mína samúð. Þetta er erfitt og hreint út sagt smá óþolandi. Þetta er allt á uppleið núna og er heilinn amk. orðinn aðeins viðtækilegri. Ætla því að fara að vera duglegri að blogga og vera virkari að blogga og á instagram.

Takk fyrir lesninguna!

Freydís

Þér gæti einnig líkað við