Grindarverkir og fótapirringur á meðgöngu – Hvað er til ráða?

Færslan er ekki kostuð eða unnin í samstarfi.

Á síðustu meðgöngu fékk ég mikla grindargliðnun og verki með því. Núna komu verkirnir fyrr og finn ég að ég versna með hverri vikunni. Ég reyni að passa mig eins og ég get, beyti mér rétt og forðast að gera hluti sem hafa slæm áhrif á grindina.

Það er ýmislegt hægt að gera til að hjálpa að draga úr einkennum og fyrirbyggja frekari einkenni:

Nota snúningslak. Það var algjör bjargvættur minn á síðustu meðgöngu og núna. Ég vakna í hvert einasta skipti sem ég sný mér á nóttunni vegna verkja en lakið hjálpar mikið til við verkið. Þetta er svona ferhyrndur hólkur með sleipu efni að innan, þannig að það hreyfist með manni þegar maður hreyfir sig eða snýr sér. Mæli 100% með. Ég keypti Snoozle lak hjá Tvö Líf en lökin fást líka hjá Eirberg, Lyfju og Móðurást til dæmis.

Stuðningspúði/brjóstagjafapúði á milli lappanna. Ég er að nota gamla stuðningspúðann minn á nóttunni. Ég keypti Doomoo púða á síðustu meðgöngu og hann var aftur tekinn upp þegar ég var komin um 18 vikur á leið núna. Skiptir miklu máli að passa að mjaðmirnar séu beinar og getur púði milli lappanna hjálpað til með það. Minn púði er orðinn heldur linur og mætti fylla á hann en mér finnst voða gott að setja „lina“ endann undir bumbuna og hinn endann milli lappanna.

Passa að stíga jafnt í báðar fætur. þegar þú stendur, ekki láta þungann liggja á öðrum fæti. Einnig er gott að vera meðvitaður um hvernig maður fer inn og út úr bíl, stendur upp úr rúminu og fleira. Passa að hafa sem minnst álag á grindina. Eins þegar maður situr, að sitja beinn og ekki krossleggja fætur!

Sumum konum finnst gott að nota stuðningsbelti. Ég keypti mér þannig um daginn í Tvö Líf. Ég nota það þegar ég er að fara stússast eitthvað og ég veit að ég á eftir að labba slatta, þá finnst mér voða gott að hafa það. Bæði styður það undir bumbuna og hringinn í kringum mjaðmirnar. Mér finnst ekki þægilegt að nota það í vinnunni því ég sit slatta þar en ef ég er á ferðinni er það snilld.

Ég var mikið í sundi á síðustu meðgöngu. Ég átti stelpuna mína 20. ágúst þannig að allt sumarið var ég dugleg að fara í sund. Maður finnur lítið sem enga verki í sundi eða baði. Ég fór oft í viku og fannst það hrikalega gott útaf grindargliðnuninni. Það er einmitt mælt líka með meðgöngusundi fyrir þær sem eru í þessari stöðu.

Svo auðvitað mæli ég með því ef að verkirnir eru óbærilegir að leita frekari aðstoðar eins og til dæmis hjá sjúkraþjálfara eða kírópraktor.

Af hverju koma þessir verkir? Hér er útskýring frá doktor.is:

Á meðgöngu myndast hormón í fylgjunni sem hefur það hlutverk að búa líkamann undir fæðingu barnsins. Þetta hormón kallast Relaxín og hefur þau áhrif að mjúkvefir líkamans verða teygjanlegri og mýkri en vanalega. Allir liðir líkamans verða lausari í sér, vöðvar slakari og húðin mýkri. Meira að segja liðir sem venjulega eru lítið hreyfanlegir, eins og spjaldhryggurinn og lífbeinið, verða mjúkir og lausir í sér og nuddast því saman við hreyfingu. Þetta er orsök þess að margar konur finna fyrir verkjum í mjaðmagrindinni á meðgöngu. Verkirnir eru yfirleitt mest áberandi í lífbeininu og spjaldhryggnum. Þeir versna ef konan setur skekkju á mjaðmagrindina eins og t.d. við að snúa sér í rúminu, skúra gólf eða ganga upp stiga. Oft leiða verkirnir niður í rasskinnar, yfir mjaðmirnar og út í nárana. Í flestum tilvikum eru verkirnir vægir og unnt að halda þeim niðri með réttri líkamsbeitingu og hvíld. En einstaka kona fær það mikla verki að þeir hindra eðlilega hreyfingu og trufla verulega hennar daglegu störf. Þá er talað um að kona sé með grindarlos.

Svo er það fótapirringurinn sem er að hrjá svo margar óléttar konur.

Samkvæmt doktor.is hefur ekki fundist nein afgerandi skýring á orsökum fótapirrings en kenningar eru um að hann geti orsakast af járnskorti, magnesíumskorti, hormónaáhrifum eða auknum æðaþrýstingi.

Það hjálpar mörgum konum að taka inn magnesium en það er hægt að fá það til dæmis í töfluformi og í freyðitöflum. Magnesium Slökun er líka vinsælt og fæ ég mér stundum einn bolla á kvöldin áður en ég fer að sofa. Það fæst í apótekum og er í duft formi og nokkrar bragðtegundir í boði. Mér finnst það ekki alltaf duga til en það hjálpar klárlega.

Magnesium sprey eru líka til en þá spreyjar maður beint á fæturnar og nuddar inn í húðina. Mér finnst þau virka best á fótapirringinn. Ég keypti í apóteki sprey frá Better You en það fæst líka í Heilsuhúsinu.

Einnig sá ég í bumbuhópnum mínum að sumar nota piparmyntu fótaspreyið frá Body Shop. Ef að pirringurinn er mjög mikill getur kalt fótabað fyrir svefninn hjálpað.

Allt eru þetta ráðleggingar sem ég hef fengið frá mínum ljósmæðrum. Ég mæli auðvitað með því að hver og ein ræði líka við sína ljósmóður til að sjá hvað hentar best.

Vonandi hjálpar þetta einhverjum þarna úti.

xo
Guðrún Birna

Þér gæti einnig líkað við