Gott að eiga á meðgöngu

Mig langar að deila með ykkur þeim hlutum sem mér fannst gott að eiga á meðgöngunni til að létta aðeins undir og auka vellíðan mína á þessum tíma þar sem líkaminn er að taka miklum breytingum.

Fyrsta sem mig langar að nefna eru meðgöngubuxurnar frá Emory. Ég keypti mér fyrstu buxurnar þegar ég var komin í kringum 13 vikur á leið en hefði svosem ekkert þurft að kaupa þær svona snemma. Mér finnst betra að geta mátað föt en að panta þau á netinu og ég var akkurat í Reykjavík á þessum tíma og ákvað að prufa þessar buxur. Ég varð heilluð af þeim strax og var fljót að fjárfesta í öðrum eins. Ég hef síðan skipst á að nota þær alla meðgönguna og vil helst ekki vera í neinu öðru! Ástæðan fyrir því að ég er svona hrifin af buxunum er því þær eru svo ótrúlega þægilegar en á sama tíma veita þær mjög góðan stuðning yfir kúluna. Þrátt fyrir að kúlan stækki og stækki þá halda buxurnar sér mjög vel og er ennþá mjög góður stuðningur í þeim. Ég hef bæði notað þær sem hversdagsbuxur og við fínni tilefni.

Þar sem ég er frekar slæm í bakinu ákvað ég að fá mér meðgöngubelti og vona að það myndi hjálpa mér eitthvað. Það kom mér virkilega á óvart hvað svona belti getur gert mikið fyrir mann og er þetta hlutur sem ég hef notað á hverjum degi síðan ég keypti hann til að létta undir. Mér finnst beltið bæði auka stuðninginn við bakið sem og létta undir kúlunni. Beltið er hægt að fá á nokkrum stöðum en ég keypti mitt HÉR

Snúningslak er þriðji hluturinn sem mig langar að nefna en það hefur bætt svefninn minn mikið á þessari meðgöngu. Ég fékk ráðleggingar um að byrja að nota það fyrr en seinna og sé alls ekki eftir því að hafa gert það. Það tók mig smá tíma að læra að nota það og þvældist það bara fyrir mér til að byrja með en um leið og ég komst uppá lagið með að nota það var það algjör snilld! Lakið hentar ekki aðeins á meðgöngu heldur er það kjörið fyrir þá sem eru slæmir í baki eða eiga erfitt með að snúa sér á nóttunni. Snoozle snúningslakið fæst t.d. HÉR 

Síðast en alls ekki síst finnst mér mikilvægt að eiga góðan brjóstagjafapúða til að sofa með. Ég fékk mér svona púða ansi seint og eiginlega sé frekar mikið eftir því þar sem það auðveldaði mikið svefninn hjá mér eftir að ég keypti hann. Ég var alltaf fyrst að brasa með að hafa kodda á milli lappanna en finnst æðislegt að geta knúsað þennan stóra brjóstagjafapúða á nóttunni. Ég keypti mér stærri týpuna af Doomoo púða sem heitir Buddy og finnst hann mjög góður!

Þessi færsla er ekki unnin í samstarfi. 

Þér gæti einnig líkað við