Gönguleiðir í Mosfellsbæ 

Mosfellsbær er ótrúlega skemmtilegur bær sem ég elska að heimsækja til að njóta náttúrunnar. Ég er sjálf ekki Mosfellingur og þekki reyndar held ég engan sem er þaðan eða býr þar. Ekki svo ég viti til að minnsta kosti. En ég bý náttúrulega á Akranesi og keyri því oft þarna í gegn þegar höfuðborgin er heimsótt. Ég elska að stoppa við í Mosó til að fara í göngur. Það eru svo margar gönguleiðir þarna um og í kringum bæinn. Þar eru stikaðar um 90 km af gönguleiðum um fjöllin og bæinn sjálfan. Einnig eru malbikaðir göngustígar út um allt fyrir göngugarpa, hlaupara og hjólreiðafólk. 

Vinsælar gönguleiðir í Mosfellsbæ eru meðal annars Helgafell, Mosfell, Úlfarsfell, Hafravatn, Tungufoss og Grímmannsfell svo einhverjar séu nefndar. 

Ég hef ekki farið á alla þessa staði sjálf, en ég hef nokkrum sinnum farið Úlfarsfellið og prufað þar nokkra mismunandi byrjunarpunkta. Núna síðast fór ég upp hjá Skarhólabraut. Þar eru um 370 viðar tröppur sem þarf að ganga upp fyrst áður en maður kemur á malarstíginn sjálfan. Mér fannst það skemmtileg tilbreyting og tók alveg vel á. Þá leið fór ég bara beint upp og niður á hæsta tind Úlfarsfellsins og töldu það um það bil þrjá kílómetra. Ef ég hefði haft meiri tíma þá hefði ég getað gengið þarna um hinar ýmsu gönguleiðar í kring. Það er svo gaman að standa þarna uppi og sjá allar gönguleiðirnar í kringum sig og hvað er mikið af duglegu fólki að njóta náttúrunnar. Myndirnar í þessari færslu eru teknar á þessu svæði. 

Áður en ég fer af stað í svona göngur finnst mér alltaf gott að skoða á netinu hvar sé best að koma að. Hvar sé best að leggja bílnum. Hvað er gangan löng og þess háttar, svo maður viti aðeins hvað maður er að fara út í. Næst ætla ég að prófa að ganga Mosfell, ég hef aldrei prófað það. 

Hægt er að nálgast útprentuð kort yfir gönguleiðir á Bókasafni Mosfellsbæjar og í Íþróttastöðvunum að Varmá og Lágafelli.  

HÉR er svo kort með ótrúlega mörgum og fallegum gönguleiðum, ásamt hinum ýmsum upplýsingum um bæinn. 

Takk fyrir að lesa

 

 

Þér gæti einnig líkað við