Eftir að ég eignaðist minn eigin garð hefur áhugi á allskyns garðyrkju og ræktun sprottið upp. Mér finnst allt tengt ræktun á grænmeti ótrúlega skemmtilegt. Ég hef gaman af því að reyna lifa á sjálfbæran hátt og minnka matarsóun. Öll eigum við að reyna sporna við matarsóun. Mér fannst því tilvalið að setjast niður og skrifa ráðagóðan pistil hvernig við getum átt og nýtt grænmetið og ávextina betur. Sjálf elska ég að lesa svona færslur því maður er alltaf að læra eitthvað nýtt.
Kartöflur
Margir vilja meina að kartöflur geymast best inn í ísskáp en svo er ekki. Kartöflur geymast best á dökkum og þurrum stöðum. Til dæmis inn í skáp. Kartöflur skemmast mun hraðar ef þær eru geymdar inn í ísskáp. Sterkjan sem er í kartöflunum umbreytist hraðar í sykur sem hefur áhrif á bragðið.
Laukur & hvítlaukur
Í raun allir laukar yfir höfðuð þá er ekki gott að geyma þá inn í ísskáp. Þeir eiga heima á þurrum stöðum líkt og kartöflurnar. Góð regla er að geyma lauk og kartöflur ekki saman því laukur gefur frá sér gas sem skemmir kartöflur hratt. Besta leiðin til að geyma laukana er að setja þá í bréfpoka og inn í eldhússkáp.
Tómatar
Best er að geyma tómata í herbergishita og láta þá snúa upp. Gott að láta ekki sólina skína á þá. Bæði endast þeir lengur og þið fáið miklu betra bragð af þeim.
Kryddjurtir
Kryddjurtir sem þið kaupið ferskar í plastbökkum geymast best í vatni eins og blómin og inn í ísskáp. Gott að klippa endana áður en þið setjið í vatn. Ef þið kaupið basil þá mæli ég með að geyma í vatni og í glugganum. Annars mæli ég mest með að rækta kryddjurtir sjálf svo þið eigið alltaf til þannig ferskt heima.
Avakadó
Ég skrifaði eitt sinn færslu um avókadó hvernig væri best að velja þau. Þegar kemur að endingunni þá er mjög mikilvægt að velja rétt. Ef þið verslið inn mat fyrir vikuna þá er gott að kaupa avókadó á mismunandi þroskastigi. Þessi þroskuðu fara síðan inn í ísskáp og óþroskuðu geymast best í herbergishita. Um leið og avókadó verður mjúkt þá á það heima inn í ísskáp.
Aspas
Ef þið kaupið ferskan aspas þá er best að skera ca 2 cm af endunum og setja í vatn og inn í ísskáp
Gulrætur
Gulrætur geymast best inn í ísskáp. Ég lærði skemmtilegt ráð að geyma þær í vatni. Þær eiga endast í allt að fjórar vikur þannig. Sumum finnst gott að skera þær í tvennt og setja í vatn en mér finnst mest að geyma þær heilar.
Sellerí
Það sama og með gulræturnar. Best að geyma í vatni. Sellerí getur geymst í allt að tvær vikur ef þið notið þessa aðferð.
Gúrka
Best er að kaupa gúrku sem er í engu plasti. Oft koma gúrkurnar í plastfilmu. Best er að losa sig við plastið. Plastið myndar raka á gúrkunni sem lætur hana mygla fyrr. Ég sá ráð að best væri að vefja gúrkuna í viskustykki svo hún endist lengur.
Brokkólí
Losið það frá plastinu og setjið stöngulinn ofan í vatn og inn í ísskáp. Geymist lang best þannig
Jarðaber
Hver kannast ekki við að jarðarber skemmast fljótt. Ég hef prufað ótal aðferðir og verð ég að mæla með þessari. Ég tek alltaf jarðarberin úr plast öskjunni. Ég læt þau liggja í vatni með smá eplaediki og skola þau síðan. Ég þerra þau vel og set í box sem er annaðhvort með eldhúspappír eða viskustykki í botni. Passa síðan að loka ekki boxinu alveg. Jarðarberin haldast mun lengur fersk!
Vínber
Þegar ég kaupi vínber þá reyni ég alltaf að kaupa með grænustu stilkunum. Þá eru þau ferskari og endast lengur að mínu mati. Þegar heim er komið myndi ég losa mig við lausu berin og athuga hvort þau séu ekki öll heil. Mjúk og kramin ber geta dreift frá sér myglu. Vínberin koma alltaf núna í poka úr pappír og finnst mér gott að geyma þau í honum.
Appelsínur
Í raun allir sítrusávextir geymast best í kæli. Ef þeir eru geymdir í stofuhita fara þeir að þorna og skemmast fyrr.
Epli
Geymast best inn í ísskáp. Þau haldast safarík í kæli og verða ekki lin. Við stofuhita minnkar safinn í þeim og verða þau fljótt lin.
Bananar
Bananar eiga alltaf heima við stofuhita. Seturðu grænan banana inn í ísskáp þá hættir hann að þroskast. Akkúrat öfugt ef hann fer brúnn inn þá skemmist hann á methraða. Til að lengja líftíma á bönunum er gott að vefja stönglinum inn í matarfilmu eða nota fjölnota býflugnavax
Vona þetta gagnist ykkur
Hef þetta ekki lengra í dag 🖤