Ég skrifaði færslu um daginn þar sem ég kom með nokkur góð ráð sem er gott að hafa í huga þegar skólinn byrjar aftur (linkur hér). Í færslunni nefndi ég að ég væri mjög dugleg að glósa og að ég glósaði í lang flestum fögunum sem ég er í. Ég fékk nokkrar beiðnir um að gera færslu um hvernig ég fer að því að glósa og hvaða ráð ég væri með fyrir ykkur.
Ég er á fyrsta ári mínu í M.Acc. (master í reikningsskil og endurskoðun) í Háskóla Íslands og hef ég því eytt mörgum árum af lífi mínu í skóla. Þegar ég var í Verzló þá komst ég að því að það hentaði mér mjög vel að glósa sjálf og nota síðan glósurnar þegar ég færi í próf. Ég hélt áfram þessari venju þegar ég fór í háskóla og vil ég meina að þetta hafi hjálpað mér alveg rosalega í náminu.
Af hverju að glósa sjálfur?
- Þá ertu með öll aðalatriðin skrifuð niður hjá þér
- Tekur styttri tíma að fara yfir efnið þegar þú ferð í próf
- Auðvelt að leita að hugtökum eða reglum í glósunum þegar þú gerir verkefni
- Þú manst hlutina oft betur eftir að þú ert búinn að skrifa þá hjá þér
Hvað er gott að hafa í huga þegar þú glósar?
- Finndu þér stað þar sem þú nærð góðri einbeitingu. Persónulega finnst mér best að læra heima hjá mér, þar er ég með herbergi og borðtölvu sem ég get notað og ég get lokað að mér ef ég þarf meira næði. Ef þetta er ekki möguleiki er gott að fara á bókasöfn eða nýta aðstöðu í skólanum
- Gefðu þér tíma í hverri viku til að glósa ákveðið marga kafla. Mér finnst gott að horfa á kennsluáætlunina og glósa þá kafla sem fjallað er um þá vikuna. Ég skrifa það svo niður í dagbókina hvað ég ætla að reyna að glósa mikið í hverri viku. Ég hef lært það með tímanum að mér þykir oftast best að glósa þegar kennarinn er búinn að fjalla um kaflann í tíma, þá veit ég hver aðalatriði kaflans eru.
- Hugaðu að mataræðinu. Vertu með vatn og nesti við hliðina á þér þannig þú þurfir ekki stanslaust að vera að standa upp.
- Settu þér markmið – Hversu mikið þú ætlar að glósa á hverjum degi eða hversu langan tíma þú ætlar að nota í að læra
- Skrá aðeins niður það mikilvægasta. Persónulega finnst mér best að lesa hvern undirkafla fyrir sig og skrifa niður öll þau atriði sem mér finnst mikilvæg. Ég passa mig að taka bara það helsta og skrifa niður (þetta lærist með tímanum)
- Ákveða hvernig þú vilt glósa. Ég skrifa allar mínar glósur í tölvu því mér finnst þægilegt að geta leitað að ákveðnum orðum í glósunum mínum og fundið ákveðin hugtök eða dæmi. Sumum finnst gott að handskrifa glósurnar og litaskreyta.
- Taktu þér pásur og farðu á æfingu. Það hressir mann svo rosalega og gefur manni meiri orku í að halda áfram
- Ekki sleppa því að læra alla önnina og byrja síðan að glósa allar bækur rétt fyrir lokaprófin. Það er alltof mikil vinna að fara yfir allt námsefnið rétt fyrir próf. Persónulega finnst mér best að glósa alltaf jafnt og þétt og þá er vinnan þegar kemur að prófinu svo miklu minni.
Vonandi hjálpar þetta einhverjum,
Glósuperrinn kveður að sinni,
Ása Hulda