Ég hafði strax skoðun á því hvernig gestabók ég vildi hafa í brúðkaupinu og sem betur fer var Smári sammála mér. Ég hef farið í nokkur brúðkaup þar sem það er Polaroid gestabók þar sem fólk tekur mynd af sér, límir í bókina og skrifar kveðju til brúðhjónanna. Þessa gestabók er svo hægt að opna á brúðkaupsafmælum þegar verið er að rifja upp stóra daginn.
Ég keypti bókina á etsy.com, en ég var að leita eftir bók sem væri harðspjalda, með alveg hvítum blaðsíðum, í lit sem ég vildi og með áletrun. Bókin er með áletrun að framan og á kilinum en það var í raun hægt að láta standa hvað sem er, svo lengi sem það væri ekki of langt. Við völdum að láta standa á henni að framan nöfnin okkar og dagsetningu, en bara dagsetninguna 22.02.2020 á kilinum þar sem okkur fannst það skemmtilegra að sjá, ef hún fer einhvern tíma í bókahillu -það sem maður pælir í stundum.
Þessi bók kom frá Bandaríkjunum og tók hún tæpan mánuð að koma til Íslands. Samtals kostaði hún um 15.000 krónur með gjöldunum hérna heima þegar ég keypti hana. Bókina má finna hér
Við fengum mjög góða þjónustu frá þessum seljanda. Hann sendi okkur strax daginn eftir pdf með tölvupósti af því hvernig bókin myndi líta út, miðað við hvað beðið var um. Þennan tölvupóst höfðum við svo nokkra daga til þess að svara, svona ef eitthvað hefði verið rangt.
Ég er mikið búin að velta því fyrir mér hvernig polaroid myndir ég vilji hafa í bókinni. Er búin að lesa allskyns greinar þar sem fólk hefur gert þetta sama. Niðurstaðan var yfirleitt sú að hafa myndirnar ferkantaðar, þar sem þá geta nokkrir verið saman á einni mynd.
Þá komu helst til greina tvær gerðir af myndavélum, en það voru þær Polaroid Originals OneStep 2 og Fujifilm Instax Square SQ6. Sú síðari varð fyrir valinu hjá okkur, þar sem filmurnar eru mun ódýrari þó svo að myndavélin sjálf hafi kostað meira. En við erum að áætla 4 pakka sem eru þá samtals 80 myndir.
Auðvitað verður maður samt að prófa það sem maður kaupir sér nýtt, svo við fullorðna fólkið og 5 ára prinsessan tókum öll mynd áðan. Ég sé alveg fyrir mér að geta tekið myndir á vélina á merkisdögum í framtíðinni, allavega er það skemmtilegt nýtt markmið sem ég hef sett mér fyrir 2020.
*Þessi færsla er ekki kostuð eða unnin í neinu samstarfi*
Þeir sem vilja fylgjast með brúðkaups undirbúningnum, mæli ég með því að fylgja mér á instagram undir sandrabirna
Þar til næst ?
-Sandra Birna