Fyrstu mánuðir Hugrúnar Leu

Hér er ég mætt aftur eftir alltof langa pásu! Í síðustu færslu sagði ég ykkur frá fæðingarsögunni minni en nú eru að verða komnir þrír mánuðir síðan dóttir okkar fæddist og hefur lífið breyst töluvert síðan þá.

Nafnaveisla 15. ágúst

Settur dagur var 18. júlí og systir mín var með settan dag 22. júlí. Báðar vorum við óléttar af okkar fyrsta barni og báðar gengum við með stelpu sem gerði þetta allt svo skemmtilegt! Þegar við vorum óléttar ákváðum við að deila upphafsstöfunum hjá stelpunum okkar því við vildum vera vissar um að við værum ekki að skíra þær sama nafninu. Ég byrjaði á að deila með henni að upphafsstafirnir væru HLH og hún sendi til baka að þeir væru ALD hjá þeim.

„Ætli þær séu með sama millinafnið?“

Við hugsuðum báðar það sama, vá hvað það væri fyndið ef miðjunafnið væri það sama! Við ákváðum þá að deila hversu margir stafir væru í millinafninu og báðar vorum við með 3 stafi. Þá var ekki annað í stöðunni en að deila millinafninu til að athuga hvort það væri sama nafnið og kom þá í ljós að við höfðum valið sama millinafn! Við vorum öll sammála því að það væri skemmtilegast að þær fengju báðar að halda millinafninu sem við vorum búin að ákveða og það yrði bara skemmtilegt að þær fengju að deila því.

Planið var alltaf að skíra stelpurnar okkar saman heima hjá mömmu og pabba en þar sem Covid 19 var ennþá á fullu skriði þá ákváðum við að hafa sitthvora nafnaveisluna svo við gætum deilt með öðrum hvað hún ætti að heita. Hörður ákvað að búa til smá myndagátu fyrir nafnið hennar og leyfðum við nánustu ættingjum að reyna að giska á það hvað hún héti.

Það voru ekki margir sem náðu að giska á rétt nafn enda reyndi Hörður að gera þetta eins erfitt og hann gat! Áður en við tilkynntum nafnið opinberlega setti ég sömu myndir í story á Instagram og leyfði fylgjendum mínum að giska. Það komu allskonar gisk en nokkrar voru með rétt nafn! Nafnið á litlu prinsessunni okkar er Hugrún Lea en við skírðum hana út í bláinn. Við vorum komin með nafnið þegar ég var komin um 20 vikur á leið og vorum við bæði mjög sammála þegar hún fæddist að þetta væri nafnið hennar.

Fyrstu þrír mánuðirnir

Þessir þrír mánuðir hafa verið alveg yndislegir en á sama tíma aðeins öðruvísi en maður var búinn að sjá fyrir sér. Það hefur allt gengið mjög vel með Hugrúnu Leu og hún er yndisleg í alla staði. Á sama tíma er það frekar sérstakt að eignast sitt fyrsta barn á þessum skrítnu tímum og þurfa að halda sig svona mikið einangruðum heima vegna Covid.

Þrátt fyrir hræðslu vegna Covid tókum við þá ákvörðun þegar hún var tveggja vikna að fara með tengdó í bústað upp í Dýrafjörð (tók aðeins 7 og hálfan tíma fyrir okkur að keyra) og gekk það mjög vel. Við tókum síðan skyndiákvörðun þegar Hugrún var sjö vikna að kíkja tvö með hana í bústað yfir helgi í Þjórsárdal og var það líka alveg æðislegt. Það var svo gott að komast í annað umhverfi og geta slakað á saman.

Ég og Höddi höfum verið dugleg að fara út með Hugrúnu í göngutúra og fórum reglulega í frisbí golf (folf) með hana í vagninum í sumar sem mér fannst alveg æðislegt.

Þegar Hugrún var orðin sex vikna ákvað ég að skrá mig í mömmu Worldfit hjá World Class og skella mér með hana á æfingu þrisvar í viku. Það gerði alveg helling fyrir mig að komast smá út úr húsi og komast aftur í smá rútínu þar sem ég var vön mikilli hreyfingu áður. Þetta hætti hins vegar þegar seinni bylgjan af Covid skall yfir en eftir það hef ég einblínt á heimaæfingar. Við höfum þurft að halda heimsóknum í algjöru lágmarki vegna hræðslu um smit og höfum ekki verið að fara mikið með hana heldur. Ég viðurkenni að ég var ekki alveg búin að sjá orlofið fyrir mér svona en maður reynir að gera það besta úr aðstæðunum.

Það hefur verið virkilega gaman að sjá Hugrúnu vaxa og þroskast með hverjum deginum og persónulega finnst mér tíminn líða alltof hratt! Hún er farin að hjala og brosa á fullu og er svo dugleg að halda haus.
Við foreldrarnir erum svo hamingjusöm í þessu nýja hlutverki og spennt fyrir komandi árum sem fjölskylda.

Ég vona innilega að aðstæður fari að breytast svo hægt sé að fara að kíkja í heimsóknir til ættingja og vina, þá yrði lífið fullkomið!
Hugrún er enn óskírð vegna ástandsins og vonast ég til þess að geta haldið skírnina sem fyrst.

Ef þið viljið fylgjast með okkur þá er ég dugleg að deila frá daglegu lífi hjá okkur, æfingum og hollu mataræði á Instagram <3

Þér gæti einnig líkað við