Fyrstu mánuðirnir í Barcelona

Nú höfum við fjölskyldan búið í Barcelona í rúma fimm mánuði. Við erum að leiga íbúð í Poblenou hverfinu en fyrst þegar við komum vorum við í hverfi sem heitir Gracia. Áður en við fluttum út vorum við búin að gera mikla rannsóknarvinnu um hvar við myndum vilja búa í Barcelona en borgin skiptist upp í nokkur hverfi. Eftir heimsóknina okkar í maí vorum við mjög hrifin af Poblenou en við vorum búin að heyra mjög flotta hluti um Gracia líka. Allt sumarið mitt fór í það að finna leikskóla fyrir Ágústu Erlu. Við vorum að stefna á Poblenou en mjög margir íslendingar mæltu með því hverfi fyrir fjölskyldufólk og þá sérstaklega útaf öllum leikskólunum og skólunum. Ég fann nokkra leikskóla sem mér leist mjög vel á en leikskólarnir hérna eru oftast bara upp í 4 ára. Skólakerfið hérna er aðeins öðruvísi en á Íslandi. Hérna fara flest börn í skóla 3 ára og eru í sama skólanum með sömu krökkunum til 15 eða 16 ára aldurs. Þegar við vorum að skoða þetta þá mældu eiginlega allir með því að senda börnin beint í skólana, þá verða þau á sama staðnum næstu árin og ekkert verið að rugla þau með því að skipta fljótlega um skóla og þá líka krakka, kennara og umhverfi. Í lok júlí og byrjun ágúst þegar ég var að senda á skólana var lítið um svör vegna þess að það er enginn skóli í ágúst, allir í fríi. Eftir miklar vangaveltur ákváðum við að við myndum bara skoða þetta betur og fara í skólana í byrjun september þegar allt myndi opna. Við vorum á báðum áttum með hvar við vildum búa. Okkur fannst Gracia mjög heillandi en það er miklu eldra hverfi en Poblenou. Við enduðum á því að bóka íbúð í mánuð í Gracia. Ef einhverra hluta vegna við vildum skipta um íbúð eða hverfi þá værum við ekki búin að skuldbinda okkur lengur í þeirri íbúð.

Við fluttum út 20.ágúst, á afmælisdeginum hennar Ágústu Erlu. Það er mjög heitt á þessum tíma en þegar við komum voru um 32 gráður – og enginn vindur. Fyrstu dagarnir og vikurnar fóru í það að skoða sig um, vera í sólbaði og njóta. Eftir smá tíma í þessari íbúð þá sáum við að við vildum ekki vera þarna. Íbúðin var mjög ofarlega í Gracia, stutt frá Tibidabo(fyrir þá sem þekkja Barcelona). Það var hrikalega mikið af brekkum þarna í kring þannig að maður naut þess alls ekki að fara út að labba. Margar byggingarnar í kringum okkur voru ekkert sérstakar en það er oft mikill munur finnst mér á hverfunum. Maður getur verið að labba á gullfallegu svæði með flottum byggingum og görðum en svo allt í einu er maður kominn á svæði þar sem eru fullt af risa blokkum og frekar “subbulegir” garðar. Við vorum búin að fara nokkrum sinnum með lestinni á ströndina í Poblenou og vorum mjög heilluð af því svæði. Við vorum búin að skoða önnur hverfi í Gracia og margt mjög flott og skemmtilegt en Poblenou var alveg fyrir okkur. Við ákváðum því að færa okkur í Poblenou, alveg eins og upprunalega planið var. Við fundum íbúð sem var ný uppgerð, á 4 hæð, 70fm, 3 svefnherbergi, 2 baðherbergi, smá svalir og flott sameiginleg verönd á þakinu. Þessi íbúð er einungis til langtímaleigu og gerðum við árs samning. En eftir fyrstu 6 mánuði getum við sagt upp samningnum með mánaðar fyrirvara.

Okkur líður mjög vel í þessari íbúð. Við erum í 5 mínútur að labba á Römblu Poblenou(ekki aðal Ramblan heldur í okkar hverfi), 5 mínútur að labba í matvöruverslunina Mercadona, 3 mínútur að labba í ræktina, 12 mínútur að labba í Glóries mollið og 15 mínútur að labba á ströndina. Það er allt í göngufæri sem við þurfum á að halda.

Þegar við vorum búin að festa íbúðina í Poblenou þá fór ég strax í það að finna skóla fyrir Ágústu Erlu. Til þess að hún fengi skólavist verður hún að vera skráð í hverfi en hérna úti kallast það empadronamiento (empadro). Við fórum þá í það að skrá okkur. Nokkrar vikur fóru í það að flakka á milli staða. Ég las á netinu hvernig þetta ferli virkaði en allstaðar sem við fórum talaði enginn ensku og alltaf var mér bent á að fara á netið og panta tíma. Þetta er eiginlega mjög löng saga en ég ætla reyna hafa hana eins stutta og ég get.

Við fórum í eitthvað ráðuneyti en var vísað út því við vorum ekki með bókaðan tíma, við gátum ekki bókað tíma á staðnum heldur þurfti að gera það á netinu, enginn gat hjálpað okkur á næsta stað því enginn talaði ensku og svona gekk þetta. Ég var búin að þýða þessa blessuðu heimasíðu þar sem að maður gat bókað tíma en loksins þegar mér tókst að komast á réttan stað þá þurfti ég NIE(spænska kennitölu) til að bóka tímann. Ég fór niður í bæ í eitthvað svona skóla ráðuneyti, ætlaði að reyna fá hjálp hjá þeim með að skrá Ágústu Erlu í skólann. Þegar ég mætti einn morguninn var röð út úr húsinu sem náð langt að næsta horni. Ég beið heillengi með hinum útlendingunum, eða meirihlutinn voru útlendingar. Þegar loksins kom að mér er mér vísað út því ég var ekki skráð í hverfi (empadro…) Konan sem ég talaði við og gat rétt svo sagt mér á “ensku” sagði að þegar ég væri búin að skrá okkur þá gæti hún hjálpað að finna skóla sem væri næst okkur og með laust pláss. Eftir að hafa reynt sjálf að skrá okkur í hverfið leituðum við hjálpar.

Það var fyrirtæki í gegnum skólann hans Óla sem bauð sig fram við að hjálpa erlendum námsmönnum með svona mál. Hvort sem það var að fá Empardro, NIE, spænskan bankareikning eða það sem þig vantaði hjálp með. Óli sendir á fyrirtækið og þau ætla að hjálpa okkur með þetta ss skráninguna í hverfið og NIE. Óli sendir þeim allar upplýsingar sem þurfti, afrit af vegabréfum og afrit af leigusamning. Eftir smá tíma og nokkra tölvupósta segja þau að þetta muni kosta 100 evrur fyrir Óla en svo spyrja þau hvort hann vilji fá verð í þetta fyrir mig og ÁE. Hann segir að sjálfsögðu já og spyr hvort það væri ekki hægt að gera Empadro-ið sem fyrst svo að dóttir okkar komist í skóla en það liggi ekki á NIE. Nokkrir dagar líða og ekkert svar. Óli sendir þeim aftur tölvupóst en ekkert gerist. Vá hvað þetta var pirrandi. Ég var orðin svo þreytt á þessu öllu. Allir voru búnir að segja að það væri ekkert mál að fá þetta Empadro en það var svo sannarlega ekki okkar upplifun. Á þessum tímapunkti var kominn október, seint í október.

Skólinn sem við vorum búin að finna fyrir ÁE var rétt hjá íbúðinni okkar ca. 7 mínútna labb. Við fengum viðtal við skólastjórann sem gaf okkur rosa flotta kynningu af skólanum og öllu því sem þau eru að gera. Hann labbaði með okkur og sýndi okkur bygginguna og kynnti okkur fyrir kennurunum sem eru með yngstu krakkana. Yndislegt fólkið sem var þarna og allir svo hjálpsamir. Skólastjórinn sagði okkur að ef við myndum redda Emparoinu þá myndu þau sjá um það fyrir okkur að skrá hana í skólann. Ferlið er venjulega þannig að ég hefði þurft að fara aftur í skóla ráðuneytið með Empadroið og fylla út umsókn hjá þeim og biðja um vist í þessum ákveðna skóla. En sem betur fer ætluðu þau að gera það allt fyrir okkur. Við segjum þeim að það sé fyrirtæki að hjálpa okkur með Empadroið(á þessum tímapunkti voru þau að svara tölvupóstunum) og við myndum koma um leið og það væri komið.

Ekkert svar kom frá þessu fyrirtæki sem ætlaði að hjálpa okkur. Ég var alveg komin með ógeð af þessu og vissi ekki hvert ég ætti að snúa mér. Ég fer þá niðrí skóla, ætlaði að fá að tala við ritara skólastjórans og fá ráðleggingu. Þegar ég mæti er ritarinn og skólastjórinn farin. Ég fer í móttökuna og segi konunni sögu mína, hún hringir símtal og eftir smástund kemur kennari niður stigann sem talar mjög góða ensku. Hún var þýsk en kenndi ensku í skólanum. Við ræðum saman og hún fer svo að tala við annan kennara sem var þarna á svæðinu, hann skrifar eitthvað niður á blað og svo koma þau að tala við mig. Kennarinn var búinn að skrifa niður nákvæmlega hvert ég gæti farið til að panta tíma og hvar viðtalið myndi svo vera. Ég fékk mjög góðar upplýsingar og voru allir svo hjálpsamir. Þau redduðu okkur alveg! Ég fer strax daginn eftir á þennan stað sem þau bentu á en þar gat maður pantað tíma í viðtal í svona “hraðbanka” tæki. Allt var að sjálfsögðu á spænsku þannig að öryggisvörðurinn á svæðinu hjálpaði mér með þessa græju og ég náði að bóka tíma í viðtal, fyrsti lausi tími var eftir þrjár vikur. Ekkert við því að gera nema bíða.

Loksins kom að tímanum okkar en það sem þarf að hafa með sér eru vegabréf, fæðingarvottorð barns, langtíma leigusamning og kvittun fyrir greiðslu á leigu.

Við vorum með allt með okkur en þau vildu ekki taka við leigusamningnum því það stóð “subcontract” á samningnum en leigumiðlunin sem við erum að leiga íbúðina í gegnum á ekki húsið og íbúðirnar – við erum semsagt að leiga af þriðja aðila og þau vildu ekki taka því. Ef ég skyldi hann rétt þá tenigst það eitthvað íbúðum sem eru á rbnb og fleiri skammtímaleigum. Ekki nóg með það þá vildu þau heldur ekki fæðingarvottorð dóttur okkar, þau sögðu að það væri ekki upprunalegt og að við þyrftum að fara til heimalands okkar að ná í það. Við reyndum að útskýra fyrir manninum að maður fengi ekki formlegt vottorð við fæðingu barns heldur væri allt rafrænt og maður þyrfti að prenta sjálfur út. Hann var ekki alveg að skilja þetta og ég sagði honum að það eina sem maður fengi væri lítið blað með fæðingarupplýsingum um barnið og hver tók á móti því og það væri ekki þannig merkilegt(ss ekki formlegt fancy vottorð) þá segir hann alvarlega “here it is very important”. Mig langaði að fara gráta haha – hann var ekki að fatta þetta. Eftir smá útskýringar og eftir að Óli lét hann aðeins heyra það kurteisislega, að það að segja okkur að fara til Íslands til að fá eitthvað blað sem væri ekki til væri bara ekki að fara gerast – þá allt í einu sagði hann að við gætum farið í íslenska sendiráðið og látið stimpla á blaðið hennar. Þá var það komið á hreint.

Við redduðum stimplinum hjá íslenska sendiráðinu og fórum í heimsókn til leigumiðlunarinnar. Maðurinn hjá leigumiðluninni hafði aldrei heyrt þetta og sagðist aldrei hafa lent í því að fólk sem var að leiga hjá þeim hafi lent í þessu. Hann prentaði út öll blöð sem tengdust samningnum okkar. Við förum aftur með öll gögnin okkar nokkrum dögum seinna en þau vildu ekki ennþá taka við samningnum frá leigumiðluninni. Við reyndum að útskýra fyrir þeim að íbúðin okkar (ásamt einni annarri í húsinu okkar) væru í langtímaleigu og að leigumiðlunin væri með leyfi fyrir öllu. En allar aðrar íbúðir í húsinu eru í skammtímaleigu. Við vorum heillengi að tala við þau en þau vísuðu okkur út. Óli fór daginn eftir aftur í leigumiðlunina og í þetta skiptið talaði hann við forstjórann, hann var miður sín yfir þessu öllu og sagðist aldrei hafa lent í þessu. Hann prentaði út samningana sína við eigendur hússins en þar var sundurliðun á öllu saman. Óli var samt ekki að taka neina sénsa aftur og bað hann forstjórann um að skrifa honum tölvupóst sem hann gæti sýnt skrifstofunni ef þau myndu neita aftur pappírunum. Það var lítið mál. Nokkrum dögum seinna þegar við vorum að fara í þriðja eða fjórða skiptið þá ætluðu þau að neita aftur pappírunum.

Óli sýnir þeim þá tölvupóstinn með útskýringunum á húsinu, konan sem var að afgreiða okkur fer á bakvið en kemur stuttu seinna og segir að þetta væri allt komið. Við kvittuðum undir eitthvað blað og fengum Empadro-ið. Eftir allt þetta vesen og allan þennan tíma tók svona þrjár mínútur og gera þessa pappíra og við gátum farið.
Daginn eftir fer ég með Empadro-ið í skólann hennar Ágústu Erlu og hún byrjaði næsta dag, 22. nóvember. Fyrstu dagarnir voru hrikalega erfiðir. Ég fékk að vera aðeins með henni fyrstu tvo dagana en eftir það þá átti ég bara að skilja hana eftir. Ágústa Erla var ekki sátt með það og hef ég aldrei séð hana öskra og gráta svona sárt. Hún var búin að vera heima með okkur í þrjá mánuði, rútínan hennar var að vera með okkur allan daginn að leika, mála, út að labba, út í búð… allt með okkur og þá sérstaklega mér því Óli var stundum í skólanum. Þarna átti hún allt í einu að vera í skóla þar sem hún þekkti engan, nýtt umhverfi, nýtt tungumál og ég mátti ekki vera með henni í smá aðlögun. Tveir klukkutímar í tvo daga finnst mér ekki vera aðlögun. Yfirkennarinn var ekki alveg að fatta að hún þyrfti smá tíma, aðstæðurnar væru bara þannig. Ég ræddi betur við hann og ég fékk að fylgja Ágústu Erlu upp í stofuna hennar og vera með í morgunstundinni næstu þrjá daga. Eftir það þurftum við að kveðja hana í anddyrinu. En hérna fylgir maður börnunum sínum að anddyrinu og taka kennararnir á móti börnunum þar og fylgja þeim svo öllum að sínum stofum. Þetta var mjög erfitt í svona þrjá daga, Ágústa Erla fór strax að gráta þegar hún kom að skólanum. En svo var það bara búið. Á viku tvö þá kvaddi hún okkur bara og labbaði inn. Maður sá samt á henni að þetta var erfitt, stundum snéri hún aftur við og kyssti mann aftur bless og sagði “svo kemuru að sækja mig á eftir”. Mjög krúttlegt. Þegar þriðja vikan gekk í garð var mikill munur á henni, hún vaknaði spennt og þegar við komum í skólann þá liggur við hljóp hún inn.

Kennararnir og krakkarnir eru svo yndislegir þarna. Alltaf þegar hún kemur þá hrópa þau á katalónsku “bon dia Ágústa!” eða “góðan daginn Ágústa!” Allir veifandi og brosandi.

Maður vissi þá að henni liði vel þarna en hún myndi aldrei hlaupa inn nema henni myndi langa að fara.

En þessir fyrstu dagar voru hrikalega erfiðir, ekki bara fyrir stelpuna mína heldur fyrir okkur líka og þá sérstaklega mig. En á þriðja degi þá brotnaði ég bara niður. Ég hágrét og sá eftir þessu öllu. Það var svo stutt í jólafríið okkar til Íslands og var ég að hugsa hvort það væri betra að láta hana byrja eftir jólin. Ekki láta hana byrja í skólanum og loksins þegar allt væri að ganga upp og rútínan væri að komast í lag að fara í þriggja vikna frí til Íslands. Ég var svo stressuð að við þyrftum að byrja uppá byrjun eftir fríið. En við héldum okkar striki, börn þurfa að fara í skóla og stundum getur verið erfitt. Við sáum þarna hvað Ágústa Erla er sterk og dugleg stelpa, hún var mjög fljót að aðlagast. Hún var líka búin að vera alltof lengi hjá okkur, maður fann hvað hún þurfti að komast í skóla og vera með öðrum krökkum. Við vorum reyndar með hana á dansnámskeiði á þriðjudögum en þar sá maður hvað henni fannst gaman að vera með öðrum krökkum og er það líka nauðsynlegt.

Í jólafríinu vorum við dugleg að tala um skólann við Ágústu Erlu og stuttu áður en við fórum heim þá sögðum við við hana að hún þyrfti svo að fara í skólann aftur þegar við kæmum heim. Hún sagðist vera spennt að byrja aftur og þegar kom að því að fara í skólann þá var það ekkert mál. Þegar við kvöddum hana fyrir utan skólann þá kyssti hún okkur bless og labbaði inn. Eins og ekkert væri – litla hetjan mín.

Skólakerfið er ekki eins og á Íslandi og eru Katalónar ekki á sama stað þegar kemur að aðlögun til dæmis. Ágústa Erla byrjaði náttúrulega mjög seint á önninni en það er meiri aðlögun í byrjun annar. Ég hélt kannski að við fengjum meiri aðlögun útaf okkar aðstæðum en þau voru ekki alveg á sömu blaðsíðu með það. Þau komu aðeins til móts við okkur en ég hefði viljað meiri aðlögun. Allt endaði samt vel og kemur stelpan mín mér sífellt á óvart.

Þrátt fyrir smá vesen með skráningu og formleg atriði voru fyrstu mànuðirnir alveg dásamlegir. Við fengum fullt af góðu fólki í heimsóknir, fjölskyldu og vini. Systir mín og kærastinn hennar komu í mánuð með yndislegu dóttur sína Emblu Líf og áttum við yndislegan tíma saman. Við Óli nýttum þá daga sem við vorum með gesti í date kvöld, golf og bíó. Veðrið hérna er náttúrulega alveg geggjað – alltaf hægt að fara út og gera eitthvað.

Dagarnir hérna eru mjög ljúfir og líður okkur vel. Ágústa Erla er í skólanum frá 9-13 og eftir það erum við að stússast saman. Við erum dugleg að labba útum allt og skoða, förum mikið í ræktina og er ég á fullu núna að plana brúðkaupið okkar sem verður hérna í Barcelona í júní.

En þetta er orðið alveg nógu langt hjá mér, segjum þetta gott í bili.

xo
Guðrún Birna

Instagram: gudrunbirnagisla

Þér gæti einnig líkað við