Júlía Hulda okkar verður 9 mánaða þann 7. apríl. Tíminn er búinn að vera ótrúlega fljótur að líða en margt er búið að gerast hjá litlu dúllunni okkar. Fyrstu vikurnar gengu mjög vel og fóru í það að kynnast henni og læra á hennar þarfir og óskir. Nokkrum dögum eftir að hún fæddist kom sumarfrí í leikskólanum þannig að eldri stelpan okkar hún Ágústa Erla var heima í mánuð með okkur. Maðurinn minn tók einn mánuð í fæðingarorlof og var hann dálítið mikið með Ágústu Erlu, vaknaði með henni, fór með hana á sundnámskeið og gerði ýmislegt skemmtilegt með henni. Ég einbeitti mér meira að Júlíu Huldu en hún hékk mikið á brjóstunum á mér fyrstu vikurnar.
Brjóstagjöfin
Júlía Hulda tók strax brjóst uppi á fæðingardeild þegar hún fæddist. Við förum heim daginn eftir fæðingu og fengum heimaþjónustu næstu daga. Á degi tvö heima er hún mjög óróleg um kvöldið og sendi ég ljósmóðurinni skilaboð. Við ræddum málin og hún kemur til okkar daginn eftir. Við sjáum að hún er búin að léttast smá, sem er svosem ekkert óeðlilegt og fylgdumst við auðvitað með því. Tveir dagar líða og hún er að léttast meira. Ljósmóðirin er samt alveg bjartsýn á að hún muni fara þyngjast og leggur til að ég láti hana bara oftar á brjóstið. Þetta er þolinmæðisvinna og stundum tekur bara nokkra daga að fá mjólkina vel af stað. Einnig var ekki að hjálpa að Júlía sofnaði alltaf á brjóstinu, ég þurfti að hafa mikið fyrir því að reyna halda henni vakandi þegar hún drakk.
Mig minnir að það hafi verið á þriðja eða fjórða degi sem að við ljósmóðirin erum að fylgjast með henni drekka að þá sýnist henni hún vera taka brjóstið of grunnt og þar af leiðandi ekki að fá næga mjólk. Það var erfitt að fá hana til að „festa“ sig rétt og langaði mig að fá brjóstagjafaráðgjafa til að hjálpa með þetta. Það var enginn brjóstagjafaráðgjafi laus, flestar voru í fríi og aðrar bókaðar. Það kostar ekkert að fá brjóstagjafaráðgjafa heim fyrstu tvær vikurnar eftir fæðingu og eiga konur rétt á tveim vitjunum. Það eina sem ljósmóðirin mín gat gert var að setja mig á lista og láta mig vita ef eitthvað skyldi losna. Ég hringdi samt í ljósmóðurina sem ég var með í mæðraverndinni á heilsugæslunni en hún tók nokkur brjóstagjafanámskeið. Hún gaf mér nokkur ráð og fóru næstu dagar í heilmikla vinnu við að fá Júlíu Huldu til að taka brjóstið rétt. Þetta tók alveg á og fór hún loksins að þyngjast. Þessi fyrsta vika var alveg smá erfið og hafði maður áhyggjur af því að litla Júlía Hulda væri svöng og liði þar af leiðandi ekki nógu vel útaf því. En ljósmóðirin sem ég fékk í heimaþjónustunni var mjög indæl og bjartsýn að þetta hlyti að fara koma! Hún hjálpaði mér í gegnum þetta. Á þrettánda degi losnaði ráðgjafi og kom hún til okkar í heimsókn. Ég var nú búin að ná þessu eiginlega sjálf en vildi samt til öryggis fá hana til að kíkja á okkur. Eftir þetta allt saman gekk brjóstagjöfin vel og er ég ennþá með Júlíu Huldu á brjósti ásamt því að hún fær að borða mat í dag.
Blessaða kúrfan
Mig langar að gubba þegar ég heyri orðið kúrfa. Það er alltof mikil áhersla lögð á kúrfuna í ungbarnaverndinni á heilsugæslunum að mínu mati. Ég vil samt taka það strax fram að mér finnst allt í lagi að hafa hana og það þarf að halda einhvernveginn utanum þyngd barna. EN það mætti alveg taka fleiri þætti inní og breyta aðeins áherslunum.
Ég talaði aðeins um þetta á Instagram fyrir nokkrum mánuðum eða þegar Júlía Hulda var 4 mánaða og jesús hvað ég fékk mikil viðbrögð og svipaðar reynslusögur og ég gekk í gegnum. Þegar við fórum í 3 mánaða skoðun þá kemur í ljós að Júlía Hulda er ekki að þyngjast nóg samkvæmt kúrfunni og er smá undir. Þetta kom mér svosem ekki mikið á óvart en eldri stelpan mín var líka svona. Hún var alltaf undir kúrfu en hún var bara nett og fín en samsvaraði sér alltaf vel. Hjúkrunarfræðingurinn í ungbarnaverndinni spyr hvort ég vilji ekki bóka í auka vigtun 4 mánaða til að fylgjast betur með og mælir hún með því. Ég hafði nú ekki neinar áhyggjur en segi já við skoðuninni. Þegar við mætum í 4 mánaða skoðunina tekur annar hjúkrunarfræðingur á móti okkur. Hún spyr hvernig Júlía Hulda er að sofa á nóttunni og ég svara að hún sofi bara ágætlega, hefur verið að sofa í 5 tíma sirka, vaknar og drekkur og sofnar svo aftur, vaknar svo kannski 3 tímum seinna og drekkur og sofnar aftur. Ég segi svo að mér finnist samt undanfarnar nætur hafa verið aðeins öðruvísi, eins og svefnmynstrið sé að breytast og að Júlía Hulda væri að sofa lausar og spyr ég hvort þetta sé ekki bara „4 month sleep regression“ að byrja – þá segir hún strax „er hún ekki bara svöng“. Ég vissi nú ekki alveg hvernig ég átti að svara þessu – mér brá bara.
Við vigtum hana og er hún búin að vera þyngjast en er ekki að rétta sig af í kúrfunni. Hún leggur til að ég fari að gefa henni ábót í pela. Ég segi þá að mér finnist hún bara ekki vera svöng, hún er alltaf vær og glöð, sefur á daginn (þó hún taki þessa klassísku 40 mín lúra) og þegar hún er búin að drekka er hún sæl. Þá bendir hún á skjáinn og segir „sjáðu hún þarf ábót“.
Ég með kökkinn í hálsinum spurði bara ok hvað leggur þú til og hún sagði að ég þyrfti að gefa henni pela og ætti að gefa henni seinni partinn. Ég spurði hvort ég ætti ekki að prófa að pumpa mig fyrst en þá sagði hún orðrétt: „ég efast um að þú getur pumpað þig þar sem að stelpan þín er ekki að fá nóg af mjólk hjá þér“ Um að gera brjóta mig meira niður! Hún hefði alveg getað sagt eitthvað meira uppbyggilegra en þetta. Svo sagði hún að stelpan mín myndi drekka pelann ef hún væri svöng, börn gera það og að ég ætti að blanda vel í pelann, ef hún drekkur 20-30 ml er hún ekki svöng en ef hún drekkur 60 ml eða meira þá er hún bara mjög svöng og er ekki að fá nóg. Svo gaf hún í skyn að hún myndi drekka allt. Ég prófaði 4 daga í röð eftir brjóstagjöf seinnipartinn en hún vildi alls ekki sjá þetta, tók 1 sopa og gretti sig og varð bara pirruð.
Ég nefndi við hjúkrunarfræðinginn að ég hefði verið með meðgöngusykursýki og spurði hvort að stelpan mín væri ekki bara að finna “sína” kúrfu enda fæddist hún stór og líklegast stærri en ef ég hefði ekki verið með sykursýkina. Þá hreytti hún útúr ser: öll börn finna sína kúrfu! Það var sama hvað ég sagði, hún skaut allt niður og talaði niður til mín. Ég er 29 ára að verða 30 á þessu ári, ég á 5 ára gamla stelpu fyrir en hún talaði við mig eins og ég væri 12 ára og vissi ekkert.
Ég tel mig frekar sterka manneskju og þoli ég ýmislegt en þarna labbaði ég út niðurbrotin og smá niðurlægð… má segja það? Hjúkkan tók ekkert til greina það sem ég sagði, að stelpunni minni liði vel og væri mjög þroskuð og dugleg. Við foreldrarnir erum bæði pen og er eldri stelpan okkar það líka. Hún horfði bara á blessuðu kúrfuna og gaf til kynna að ég væri ekki nóg og að barnið væri svangt.
Ef ég hefði minnsta grun um að barnið mitt væri svangt eða ekki að fá nóg myndi ég stökkva til og gera allt sem ég gæti til að laga það. Ég fór úr því að vera niðurbrotin yfir í að vera reið þegar ég hugsaði meira um þetta og sá ég eftir mikla umhugsun hvað allt var rangt við þessa „skoðun“ sem við fórum í. Sem betur fer lenti ég ekki aftur á þessum hjúkrunarfræðing. En í næstu skoðunum var Júlía Hulda mín búin að þyngjast vel EN samt ekki nóg samkvæmt þessari kúrfu. Ég tók það samt ekki inn á mig enda þekki ég barnið mitt vel. Hún er enn í dag undir kúrfu og verður örugglega alltaf eins og systir sín. Það þýðir samt ekki að hún sé svöng. Hún fær að borða 3x-4x á dag núna og gengur ágætlega að prófa nýjan mat.
Ég fékk svo mikið af sambærilegum sögum í gegnum Instagram. Segir mér það allt sem segja þarf.
Svefninn
Þegar Júlía Hulda var um það bil 3 og hálfs mánaða fór svefninn hennar að breytast. Hún varð svefnstyggari og fór að vakna oftar á nóttunni. Við tengdum þetta við þetta týpíska „4 month sleep regression“ og sögðum við við okkur að við þyrftum bara að vera þolinmóð og að þetta tímabil tæki enda. Vikur urðu að mánuðum og ekkert lagaðist. Í desember vorum við alveg að bugast. Júlía var búin að vera vakna á 30 min – klukkutíma fresti í margar vikur og ekkert sem við gerðum virtist laga þetta. Um miðjan desember hafði ég samband við svefnráðgjafa. Það var nokkra vikna bið í viðtalstíma þannig að ég bókaði í staðinn símatíma og beið ég spennt eftir símtali.
Í byrjun janúar tók maðurinn minn það að sér að svæfa stelpuna okkar. Hún var að sofna á brjóstinu hjá mér alltaf fyrir nóttina og vildum við venja hana af því. Við vorum byrjuð á því áður en svefnráðgjafinn hringdi í okkur og gerðum við þetta með ráðum úr bókinni Draumalandið. Ég heyrði í mörgum öðrum mömmum sem voru í sömu stöðu og við, að barnið sofni á brjósti og voru búin að venja barnið af því. Flestar sögðu að þetta tæki nokkra daga, 4-7 daga var algengast. Tvær vikur liðu og var Júlía Hulda alltaf jafn brjáluð að fara sofa og var ennþá að vakna svona ört á nóttunni. Þá heyrðum við í svefnráðgjafanum og hún sagði að þetta gæti tekið mislangan tíma hjá fólki og að við mættum bara ekki gefast upp. Við fengum fullt af ráðleggingum og vorum við mjög bjartsýn á að þetta myndi allt verða betra. Við þyrftum bara að kenna stelpunni okkar þessa sjálfsefjun sem er svo mikilvæg og ná flest börn því með tímanum.
Fleiri vikur liðu og var Júlía alltaf jafn brjáluð og ósátt að fara sofa og var alltaf að vakna á nóttunni. Þetta var ekki að ganga svona. Aðal vandamálið var, fyrir utan hvað hún var alltaf jafn brjáluð að fara sofa, að þegar hún loksins sofnaði þá vaknaði hún alltaf eftir 1-2 mínútur, hrökk upp og vakti sjálfa sig. Þannig gekk það alltaf í nokkur skipti áður en hún sofnaði alveg. Svo eftir sirka klukkutíma eftir að hún sofnaði alveg vaknaði hún. Hún átti semsagt mjög erfitt með að festa svefn og svo var hún alltaf að vakna þegar hún var að fara yfir í grunna svefninn. Maður hefði haldið að elsku barnið væri búið að venjast því að sofna sjálft eftir svona langan tíma en alltaf var hún jafn ósátt. Hún var aldrei ein, pabbi hennar var alltaf hjá henni og fórum við eftir öllum ráðum frá svefnráðgjafa og skrefum úr Draumalandinu.
Eftir rúman mánuð af þessu rugli og nokkrum svefnlausum mánuðum þar á undan í þokkabót þá pantaði ég tíma hjá Gesti Pálssyni barnalækni. Hann sendi stelpuna okkar í ofnæmispróf á húð, bara til að útiloka að eitthvað væri að hrjá hana. Ekkert kom út úr því og ákváðum við í samráði við hann að prófa Phenergan. Mörg börn sem eiga erfitt með svefn fara á Vallergan en mælti hann með þessu fyrir hana. Phenergan er semsagt ofnæmislyf sem hefur róandi áhrif. Alveg skaðlaust og hefur lengi verið notað til að hjálpa litlum börnum að sofa. Hún fór á lítinn skammt og gáfum við henni 1x fyrir nóttina. JIMINN hvað þetta var mikill munur! Hún var ekki að vekja sig endalaust heldur sofnaði bara strax og svaf í marga klukkutíma án þess að vakna. Eins og læknirinn sagði að þá þurfa sum börn bara smá aðstoð við að sofa og læra að sofa. Þetta er ekki svefnmeðal heldur róar þetta bara og hjálpar að slaka á. Ég var ekki að trúa hvað þetta gekk vel, þvílík himnasending. Hún hætti líka að vera brjáluð þegar Óli lagði hana í rúmið sitt. Þau spjölluðu bara aðeins saman og hann söng smá fyrir hana og hún sofnaði og svaf alla nóttina! Á þriðju nóttu vaknaði hún eftir 5 klukkutíma og var dáltið lengi að sofna aftur. Ég spurði Gest útí það og sagði hann að þau mega fá annan skammt um nóttina en það þurfa bara að líða 4 klukkutímar frá því að hún fékk fyrsta skammtinn. Við þurftum svo ekki að gera það. Þetta var bara eitt skipti og svaf hún alltaf til sirka 7 á morgnanna frá því að hún sofnaði um 8 leytið um kvöldið.
Í byrjun mars er Júlía Hulda búin að vera á Phenergan í sirka 3 vikur og áttum við að fara trappa skammtinn niður hægt og rólega. Flaskan er að klárast hjá okkur þannig að við fáum annan lyfseðil fyrir nýju glasi. Þegar við förum í apótekið kemur í ljós að það er ekki til. Ég hringi í öll apótek en enginn á glas fyrir okkur. Ég hringi í Gest og kannar hann málið. Phenergan er ekki til á landinu, ekkert til á lager og kemur ekki sending fyrr en í apríl! Það er ekkert annað sambærilegt í boði, Vallergan er hætt í sölu og lyfið sem kom í staðinn fyrir það er mikið sterkara. Okkur líst ekkert á að setja hana á það, þannig að það eina í stöðunni var að gefa henni ekki neitt. Þvílíkt ástand, ekki bara fyrir okkur heldur alla aðra líka sem treysta á að fá þessi lyf.
Við vorum pínu stressuð fyrir kvöldinu, allt í einu ekkert lyf, við vissum ekki í hvora áttina þetta myndi fara. En Júlía kom okkur mjög mikið á óvart, hún var sallaróleg þegar hún fór upp í rúm og var í 10 mínútur að sofna. Hún svaf alla nóttina! Það sem hún er dugleg. Næstu kvöld og nætur gengu eins og í sögu. En eins og alltaf þá geta komið bakslög. Hún hefur alveg vaknað á nóttunni og nokkrum dögum eftir að ekkert lyf var í boði fór hún að fá tennur í efri góm. Þannig að þetta er búin að ganga upp og niður undanfarið en í heildina litið er búið að ganga mjög vel.
Af því að við náðum ekki að trappa lyfið niður og þurftum að hætta á einni nóttu þá var þetta ansi mikil óvissa en þetta er allt annað líf miðað við hvernig hún var í mánuðina á undan og sjáum við hvað þetta hjálpaði henni mikið.
Burt séð frá nokkrum svefnlausum mánuðum (og algjörri bugun á tímum) þá hefur þessi tími verið dásamlegur. Júlía Hulda er ótrúlega brosmild og góð. Þær systur ná svo vel saman þrátt fyrir 5 ára aldursmun, maður sér hvað þær eru tengdar og er Ágústa Erla mjög þolinmóð og skilningsrík gagnvart henni.
xo
Instagram –> gudrunbirnagisla