Það er svo skrítið að hugsa til baka þegar Ágústa Erla fæddist. Það er svo stutt síðan en samt svo ótrúlega mikið búið að gerast á einu ári. Við Óli vorum að tala um fyrstu dagana sem við vorum heima með Ágústu. Þetta var svo skrýtið eitthvað, allt í einu er maður kominn með litla mannveru sem maður elskar útaf lífinu og maður þarf að hugsa um og kynnast. Okkur fannst mjög mikilvægt að fá að vera í næði fyrstu dagana. Það eru auðvitað margir sem vilja koma í heimsókn að sjá nýja fjölskyldumeðliminn og er það besta mál. En eins og hjá okkur þá þurftum við að gefa Ágústu Erlu ábót á þriggja tíma fresti vegna þess að hún léttist svo mikið eftir fæðingu. Þannig að fyrstu dagarnir hjá okkur voru þannig að það var bara sofið í þrjá tíma í einu. Ef að einhver vildi koma í heimsókn og við ekki alveg í standi til þess, þá sögðum við bara eins og er, að við værum ekki búin að sofa neitt og hvort þau vildu ekki bara koma seinna. Fólk má ekki taka þessu persónulega. Ég veit um suma sem móðgast mikið en maður verður bara að virða þetta. Það er stórt mál að eignast barn og verða foreldrarnir alveg að ráða sjálfir hvernig þeir vilja hafa hlutina.
Ágústa Erla 12 daga gömul
Mynd: Eiríkur Ingi
Fyrstu dagarnir heima með lítið barn eru svo mikilvægir. Þetta er svo yndislegur tími. Það skiptir ekki máli þó það sé allt í drasli. Það skiptir ekki máli þó maður láti ekki í þvottavélina nokkra daga í röð. Það er allt í lagi að fara í matvörubúðina klukkan 3 um nóttina. Það eina sem skiptir máli er að njóta tímans með litla nýja barninu sínu.
xo
Guðrún Birna