Fyrsta útilega sumarsins á Úlfljótsvatni

Síðustu helgina í maí ákváðum við að drífa okkur í fyrstu útilegu sumarsins, en þá var Hvítasunnuhelgin svo við náðum þremur nóttum með góðum vinum. Þegar við mættum á föstudagskvöldið, þá rigndi það mikið að við höfum aldrei áður upplifað það að tjalda í svona mikilli rigningu, en það hafðist þrátt fyrir að Viktor Fannar var alltaf að labba í burtu frá okkur. Við innréttuðum svo fortjaldið bara á laugardagsmorgninum þegar allt var orðið þurrt og sólin skein.
Að fara með Viktor Fannar í fyrstu útilegu sumarsins reyndi alveg á en hann var ekki á því að sofna á kvöldin út af því að það var of bjart inn í svefntjaldinu og er óvanur því að sofna ekki í rimlarúminu sínu. Ég var búin að steingleyma þessu með birtuna frá því að Fanndís Embla var lítil en þá fundum við út að setja dökkt lak yfir svefntjaldið að utanverðu til þess að halda birtunni frá og við festum það upp með þvottaklemmum.

Að fara í útilegu við Úlfljótsvatn er uppáskrift á þægilega útilegu að okkar mati. Þar er allt til alls og stutt að sækja í allskonar afþreyingu á svæðið í kring. En við höfum farið í sund á Selfoss, í Slakka eða bíltúr á Geysi til dæmis til þess að brjóta upp daginn.


Tjaldsvæðið skiptist í mörg minni svæði sem er búið að afmarka með gróðri og stígum. Mörg svæðanna eru með rafmagnstengla, svo fólkið dreifist vel um svæðið þannig að allir fá smá pláss fyrir sig, nema auðvitað þegar spáir extra vel og allir mæta.
Á miðju svæðinu er svo þjónustumiðstöð, sturtuhús, klósetthús og stór leikvöllur fyrir krakkana. Sumar helgar hafa verið dagskrápóstar í boði en þá er ýmist hægt að fara á báta, siga, klifra eða jafnvel fara í bogfimi fyrir vægt gjald. Uppáhaldið okkar er að fara saman fjölskyldan út á árabát. Að labba upp á Úlfljótsvatnsfjall er líka skemmtilegt fjölskylduverkefni, sem er ekki of erfitt fyrir krakkana.
Nú er Fanndís Embla að verða 6 ára og er þetta sá staður sem hún hefur oftast farið á, í útilegur og getur hún leikið sér frjáls um svæðið núna.
Upphaflega völdum við að fara á Úlfljótsvatn því við höfðum þekkingu á staðnum og því sem hann hafði upp á að bjóða en Smári vann þarna nokkur sumur þegar hann var yngri.
Í dag höfum við fjölskyldutengsl þarna upp eftir svo það er stór plús að fara í útilegu og hitta fjölskylduna.

Þessi færsla er ekki unnin í samstarfi við staðinn, en við erum tengd honum eins og kemur fram hér að ofan.
Okkur finnst þetta einn af betri stöðum til þess að heimsækja á suðvestur horninu og þess vegna finnst mér um að gera að deila upplýsingunum um staðinn hér, en ég hyggist skrifa um þá marga af þeim stöðum sem við heimsækjum í sumar á ferðalagi okkar um landið.

Njótið íslenska sumarsins!
Þar til næst
-Sandra Birna

Þið finnið mig á instagram undir sandrabirna

Þér gæti einnig líkað við