Flutningarnir okkar

Við fjölskyldan erum búin að flytja út úr litlu fallegu íbúðinni okkar því við erum búin að kaupa nýja stærri, með fleiri svefnherbergjum sem við erum að fá afhenta á morgun. Þar þarf samt ýmislegt að gera áður en við munum flytja inn eins og að mála, skipta um gólfefni og kaupa fataskápa.


Gamla íbúðin er á Bjarkavöllum en þar erum við búin að búa síðan 2014. Hún er vel skipulögð 70 fm íbúð þar sem eru 2 svefnherbergi. Síðasta árið, eftir að Viktor Fannar fæddist þá fundum við með tímanum þörfina að fara í stærri íbúð sem væri með herbergi líka fyrir hann og allt sem honum fylgir. En líka vildi ég fá geymslu, þvottahús innan íbúðar og fara í minna fjölbýli. Einnig spilaði inn í að velja hverfi eftir því hvar við værum til í að búa almennt þar sem Fanndís Embla byrjar í grunnskóla eftir 1 ár. En hún er komin í leikskóla í nýja hverfinu til þess að kynnast krökkunum og umhverfinu öllu. Orð fá því ekki lýst hvað við erum sátt með leikskólann.


Ég ætla að leyfa ykkur að fylgjast með þessu verkefni sem við erum að fara í, þar sem gamla íbúðin var ný þegar við keyptum hana, svo við völdum ekkert sjálf nema liti á veggina.
En við erum að vonast eftir því að þetta verkefni taki okkur ekki mikið meira en 2-3 vikur – en sjáum til hvort það gangi eftir.

Þið finnið mig á instagram undir sandrabirna – þar sem ég mun sýna frá þessum daglegu framkvæmdum næstu vikurnar.

Þar til næst ♡
-Sandra Birna

Þér gæti einnig líkað við