20 góð ráð við pökkun & flutninga

Það hefur eflaust ekki farið framhjá neinum að við fjölskyldan erum að flytja. Okkar langþráði draumur um að eignast okkar hús er alveg að verða að veruleika. Við erum yfir okkur spennt og erum við í óða önnum að pakka niður og undirbúa flutninga. Flutningar geta tekið verulega á og finnst mér því mikilvægt að vera vel skipulagður í því ferli svo allt gangi vel. Mig langar að deila með ykkur þeim ráðum sem ég fer mest eftir til að auðvelda flutninga.

 

  1. Fjárfestu í góðum kössum, ekki verra ef þeir eru með höldum. Persónulega finnst mér gott að eiga nokkra glæra kassa til að pakka það mikilvægasta í.
  2. Forðastu að pakka hlutum úr mismunandi herbergjum í sama kassann. Hafðu eitt herbergi í sér kössum.
  3. Pakkaðu dóti sem þú ætlar að nota strax í glæra kassa. Þá veistu strax hvað skal grípa í (lítil raftæki, leirtau, barnaleikföng, snyrtidót).
  4. Byrjaðu á einu herbergi í einu svo þetta verði ekki yfirþyrmandi.
  5. Byrjaðu að pakka sem fyrst og settu þér markmið (einn kassi á dag til dæmis ef þú hefur nægan tíma).
  6. Merktu alla kassa þannig þú vitir í hvaða herbergi þeir eiga fara í. (líka sniðugt að númera kassana eða litamerkja).
  7. Notaðu föt til að vefja inn það sem gæti brotnað (glös, kertastjakar, blómavasar).
  8. Slepptu því að tæma kommóður og settu hluti í þær. Vefðu svo kommóðuna í sellófon svo hún opnist ekki.
  9. Losaðu þig við allt óþarfa. Enginn nennir að flytja óþarfa drasl.
  10. Þegar kemur að því að tæma fataskápana settu þá öll föt sem hanga á herðatrjám í ruslapoka. Þannig er ekkert mál að hengja þau upp á nýja staðnum.
  11. Notaðu stóru fjölnotapokana undir fötin (stóru Ikea pokarnir til dæmis) Ikea selur síðan glæra poka með rennilás sem er tilvalið fyrir fötin.
  12. Þegar kemur að því að skrúfa eitthvað í sundur settu þær skrúfur í sér poka. Skrifaðu svo á miða hvaða skrúfur þetta séu og jafnvel hafa leiðbeiningar ef þess er þörf.
  13. Síðustu dagana fyrir flutninga reyndu að minnka matarinnkaupin og borðaðu það sem er til heima.
  14. Taktu mynd aftan af raftækjum ef þú ert í efa hvernig á að setja þau aftur upp.
  15. Pakkaðu í sér tösku fötum og nauðsynjum fyrir fjölskylduna eins og þið séuð að fara í tveggja vikna frí. Þannig verður minna stress þegar þið mætið á nýja staðinn.
  16. Pakkaðu verkfærunum síðast. Það mun vera eitt af því fyrsta sem þú þarft á að halda á nýja heimilinu. Gott að geta gripið í það fyrst.
  17. Þegar kemur að því að pakka eldhúsinu reyndu að nota pottana og auka boxin þín undir smáhluti eins og krydd og annað.
  18. Sjáðu til þess að allar snyrtivörur séu vel lokaðar (gott að setja sellófan og skrúfa tappann svo á).
  19. Lestu af rafmangs og hitamælinum daginn sem þið afhendið (gott að taka myndir). Hafið það í huga þegar þið tilkynnið ykkar hitaveitu um flutning að taka alltaf niður nafn hjá aðilanum sem þið talið við.
  20. Mundu að breyta lögheimilinu og láta póstinn fá nýja heimilisfangið 👏🏼

 

Eins og ég nefndi hér fyrir ofan þá eru þetta ráð sem ég fer mikið eftir. Ég vona að þau gagnast ykkur eitthvað kæru lesendur 😊

Annars er það helstu í fréttum að við fáum húsið okkar afhent eftir nokkra daga þannig það er stutt í flutninga 🤩 Ég er yfir mig spennt og hlakka ég til að sýna ykkur allar þær framkvæmdir sem eru á næstunni. Ég mun vera virk inná mínum miðli þangað til og sýna frá flutningum og framkvæmdum fyrir áhugasama.

Þangað til næst 🖤

Þér gæti einnig líkað við