Fjölskylduferð til Kanarí

Við fjölskyldan tókum þá skyndiákvörðun að skella okkur til Kanarí í 2 vikur ásamt vinapari okkar og barni. Hoppuðum á ágætis tilboð hjá Vita og leigðum okkur hús í gegnum Airbnb.
Húsið sem við vorum í var á mjög góðri staðsetningu, 3 herbergi, loftkæling, net og lokaður garður. Fullkomin blanda!
Flugið var 6 tímar, og myndi ég alls ekki leggja í lengra flug fyrir einn óþolinmóðann 2ja ára og annan 32.

Á Kanarí er mikið hugsað til barnanna, öll salerni sem var farið á innihélt skiptiborð á báðum kynja klósettunum, sem er lang oftast bara á kvennaklósettinu hér heima.
Um alla eyjuna er fullt af allskonar flottum almenningsgörðum með nýjum eða nýlegum leiktækjum fyrir þau yngstu.

Holiday World garðurinn sló alveg í gegn, en við fórum þangað 3 sinnum, það kostar ekkert í garðinn, aðeins í þau tæki sem hver og einn vill fara í.
Á annarri hæðinni er svo lokað svæði fyrir þau yngstu til að leika sér og gat Baltasar hlupið þar um endalaust.

Aqualand kom líka á óvart, það var svo gaman þarna að við fórum þangað tvisvar. Keyptum miða í garðinn og þegar þú ert að fara úr garðinum er hægt að kaupa annað skipti á 10 evrur fyrir fullorðna, frítt fyrir börn. vaðlaugin fyrir þau yngstu var rosalega flott og fórum við ekkert annað í garðinum, þar sem Baltasar er enn svo ungur, en á meðan þá svaf Benjamín í vagninum í skugganum.

     

Palmitos park var hrikalega flottur, og meira að segja óþolinmóðu feðgar nenntu að sitja og horfa á höfrunga gera kúnstir, ótrúlegt hvað það er hægt að þjálfa þessi dýr mikið.
En sýningin var um 20 mínútur og var það flottur tími fyrir þann stutta.
Það er líka páfagauka sýning og ránfugla sýning.
Að keyra að garðinum líður manni pínu eins og maður sé að fara einhverja vitleysu, en maður skilur staðsetninguna mjög vel þegar þangað er komið.
Athugið, að það er bara skiptiaðstaða hjá veitingastaðnum.

Við fórum líka til Puorto Rico sem er lítill bær rétt fyrir utan Maspalomas, um korter keyrsla. Okkur fannst sú strönd meira heillandi en þessi stóra, mun meira kósý.
Ég er ekki beint þessi strandar týpa, sandur í öllu alveg vikuna á eftir, en engu að síður var gaman að leyfa Baltasar að fá að upplifa þetta.
Hann var alls ekki hrifinn af sjónum, en það var ekkert sem pabba knús gat ekki lagað.

Við kíktum líka aðeins til Las Palmas sem er höfuðborgin, og tók það bara rétt rúmlega hálftíma að keyra þangað.
En það var nú stutt stopp, fengum nokkra rigningadropa á okkur og flúðum.

Stærsta verslunarmiðstöðin á eyjunni heitir El Mirador, þar er að finna þessar vinsælu verslanir sem Íslendingar sækjast mikið í, Primark, H&M, Footlocker, Zara og fleira.
Þarna inni má líka finna framúrskarandi afþreyingu fyrir börn. Hoppukastalar, bílar til að leika í, kastali með 2 rennubrautum í og fleira. Það kostar í hoppukastalana og rafmagnstækin.
Þarna inni var fínt að vera þegar maður vildi fá smá pásu frá sólinni eftir strandardaginn mikla og mikill bruni að hrjá mann.

Í Puorto Rico er einnig að finna skemmtigarð fyrir örlítið eldri börn að mér fannst, hann heitir Angry bird activity park. Ég skoðaði hann á netinu og fannst vera lítið um fyrir 2ja ára aldurinn, svo að við ákváðum því að sleppa því að fara í hann. En hann lúkkar mjög vel fyrir börn 4-10 ára myndi ég giska. Og er nóg um að vera fyrir eldri börn, sem við ákváðum að ekki vera eyða peningum í því að við vissum að Baltasar myndi ekki njóta sín í því.

Við leigðum okkur lítinn polo til að keyra um eyjuna og kostuðu 12 dagar okkur um 30 þúsund með tryggingu.

En Kanarí er klárlega staður sem ég myndi mæla með fyrir fjölskylduferð.

Góður matur á mjög góðu verði. Ódýr bílaleigubíll, bensín, fatnaður og mikil sól og hiti. Ekki hægt að biðja um mikið meira held ég.

En hann Daníel tók ferðina alla upp og er hægt að horfa á það allt saman á YouTube síðunni hans fyrir áhugasama.

Þangað til næst,

Aníta Rún.
Instagram: anitarg

Þér gæti einnig líkað við