Fjölskyldu útivera í okkar nágrenni

Núna er staðan þannig í samfélaginu að fólk er hvatt til þess að verja páskahátíðinni heima fyrir. Í raun erum við heppnari en margar þjóðir í kringum okkur þar sem mun meiri bönn eru í gildi til þess að ná tökum á Covid-19 en þau sem eru hér á landi.

Ég ætla að deila með ykkur hér nokkrum hugmyndum af útiveru sem hægt er að gera í næsta nágrenni við okkur hérna í Hafnarfirði, flest ætti að vera hægt að gera hvar sem er.
Smá útivera á hverjum degi er að okkar mati nauðsynleg til þess að allt heimilisfólkið haldi geðheilsu, svo framarlega sem enginn er veikur.

Hjóla
Fer eftir getu barns ef það er að hjóla sjálft hversu langt sé farið, en oft er gaman að hjóla á fyrirfram ákveðinn stað, stoppa og taka nestispásu – merkilegt hvað smá nestispása getur gert útiveru extra spennandi fyrir krakka.
Hjólavagnar eða stólar á hjól eru líka snilld fyrir yngri börn.

Fjöruferð
Velja fjöru sem er auðveld yfirferðar fyrir börn, ekki of grýtt.
Um að gera að muna eftir að taka með nokkrar fötur, skóflur og stígvél.

Göngur
Að fara fjölskyldan saman í göngu þarf alls ekki að vera óspennandi og leiðinlegt.
Gangan getur snúist um að finna nýjann leikvöll eða jafnvel fara á sinn uppáhalds leikvöll í næsta nágrenni. Ef finna á nýjann leikvöll er oft nóg að fara yfir í næsta íbúðarhverfi, sem er oft í göngufjarlægð. Göngur geta líka verið uppá næsta bæjarfjall eða ganga niður í bæ að gefa öndunum brauð og jafnvel fá sér kakó eða ís.

Hvaleyrarvatn
Eins og einhverjir hafa eflaust tekið eftir þá er Hvaleyrarvatn einn af okkar uppáhalds náttúruperlum í nágrenni Hafnarfjarðar. Leiðirnar í gegnum skóginn eru endalaust skemmtilegar enda fullt af hugmyndum sem geta komið í skógarferð. Hægt er að fara upp á litla fjallið sem stendur við vatnið til þess að fá frábært útsýni yfir svæðið. Svo er það vatnið sjálft sem býður upp á fullt á tækifærum, mismunandi eftir veðri. Sulla í vatninu í stígvélum eða skauta á frosnu vatninu á góðum vetrardegi klikkar aldrei.

Heiðmörk
Hraunið er spennandi staður fyrir allann aldur. Auðvelt er að nota ímyndunaraflið og sjá fyrir sér allskonar tröll í klettunum. Einnig eru leiðirnar í gegnum skóginn og hellarnir mjög skemmtilegir að okkar mati.

Gönguskíði
Gönguskíði er okkar nýjasta fjölskyldusport, en við létum loksins verða af því að fá okkur brautarskíði í mars. Það sem kom mest á óvart er hvað Fanndísi Emblu finnst þetta skemmtilegt. Viktor Fannar fær að vera í barnaburðapokanum á meðan.

Náttúrubingó
Nú er allskonar bingó að ganga, sem hugmyndir yfir hvað sé hægt að gera í samkomubanni eða sóttkví heima.
Við höfum nokkrum sinnum búið til náttúrubingó, þegar við erum úti í náttúrinni. Þetta eru þá nokkur verkefni sem þarf að leysa til þess að fá BINGO. Þetta getur verið frá 4-12 verkefni eftir aldri og getu. Þessi verkefni geta verið til dæmis að búa til listaverk úr steinum, finna eitthvað gult, rautt, grænt, blátt, brúnt, eða ljúka verkefnum eins og að finna 3 rusl til að henda.

Náttúrulistaverk
Þarf ekki mikið til þess að geta búið til listaverk út í náttúrunni. Gaman er að taka blöð og lím með í ferðina til þess að búa til listaverk strax. Svo er hægt að fullkomna verkið þegar heim er komið með málningu. Betra er að hafa stillt veður þegar náttúrulistaverkin eru gerð, frekar en rigningu og roki.
Mér fannst mjög yfirþyrmandi í upphafi herts samkomubanns að þurfa að vera heima um páskana, lyfturnar í bláfjöllum lokaðar og ætlast til þess að maður haldi sig á sínu svæði.

Við verðum bara að muna að þetta er tímabil. Tímabil sem tekur enda, þó svo við vitum ekki hvenær það verður. Njótum þess tíma sem við fáum með okkar nánustu sem við getum hitt og nýtum tæknina til þess að tala við þá sem við getum ekki hitt.

Njótið um páskana ?
-Sandra Birna

Þið finnið mig á instagram undir sandrabirna

Þér gæti einnig líkað við