Útivera er eins stór hluti af okkar fjölskyldulífi og við mögulega komumst upp með, eins og einhverjir hafa tekið eftir. En einhvern veginn á haustin eru samverustundir fjölskyldurnar úti samt ekki nógu margar, þar sem oft er svo erfitt að rífa sig af stað í vindi eða rigningu. En svo kemur snjórinn og þá erum við dugleg að fara að renna og fara á skíði.
Ég setti mér markmið fyrir nóvember að reyna að ná fjölskyldu útiveru alla sunnudaga. Það þarf ekki að vera mikið, hægt að labba niður í bæ og gefa öndunum brauð, fara út á leikvöll eða það sem okkur þykir skemmtilegast, að fara út í náttúruna. Þar kemur Hvaleyrarvatn inn sem einn af okkar uppáhalds stöðum.
Þetta snýst bara um að stoppa og njóta augnabliksins en ekki þjóta í þessu hraða samfélagi sem við búum í.
Við Hvaleyrarvatn er hægt að gera svo margt, allan ársins hring og í öllum veðrum. Á sumrin síðustu ár hefur verið mjög vinsælt að koma þangað og leyfa krökkunum að vaða og leika sér í sandinum sem er öðru megin við vatnið, sumir koma jafnvel hjólandi eða gangandi enda skemmir ekki fyrir hvað veðrið er oft gott þarna. Allan ársins hring er mikið um fólk sem labbar, hjólar eða jafnvel hleypur hringinn í kringum vatnið.
Það sem okkur finnst skemmtilegast er að labba eftir stígunum sem liggja á milli trjánna og gróðursins í skóginum, en trén eru loksins orðin skemmtilega stór svo það myndast gott skjól út frá þeim. Fanndísi Emblu finnst alltaf gaman að fara í ævintýraferð í skóginn og best af öllu að fá að stjórna ferðinni.
Þegar við fórum upp að Hvaleyrarvatni um daginn, þá var búið að vera frost í nokkra daga svo vatnið sjálft var frosið og sló það rækilega í gegn hjá mínu fólki sem og öðrum sem voru á svæðinu á sama tíma. En fyrir þá sem ekki vissu það, þá er vatnið ekki djúpt en alltaf skal hafa varúð á þegar gengið er út á frosið vatn. Við fórum kannski 2 metra út á vatnið en ekki lengra.
Ég ætla að vera dugleg að deila með ykkur skemmtilegum stöðum fyrir fjölskylduna að fara út öll saman og hafa gaman.
Því maður er víst aldrei of gamall til þess að leika sér!
Þið finnið mig á instagram undir sandrabirna –
Þar til næst ♡
-Sandra Birna