Fjallgöngur fyrir byrjendur

Um helgina lauk ég fjallgöngunámskeiði fyrir byrjendur sem ég sótti hjá AF STAÐ. Ég ákvað að skrá mig á byrjendanámskeið hjá þeim, þó ég hafi nú alveg farið í nokkrar fjallgöngur áður, af því að mig langaði til að læra meira um búnað, göngutækni, læra nýjar gönguleiðir og til þess að vinna aðeins í lofthræðslunni minni, sem stoppar mig ansi oft af í fjallgöngum. 

Við fórum upp á nokkur fell og fjöll á námskeiðinu, meðal annars Úlfarsfell, Mosfell, Helgafell, Kerhólakamb og Móskarðshnjúka. Síðasta daginn tókum við svo göngu um Seltún í Krýsuvík. Fyrstu þrjár göngurnar fengum við grenjandi rigningu og síðustu tvær fengum við brjálað rok og snjó/hálku og myrkur. Svo þetta var ansi krefjandi og maður lærði mjög mikið á því að fara í göngur í svona allskonar veðrum og vindum. Ég þurfti að fara mikið út fyrir þægindarammann minn á tíðum og sigrast á sjálfri mér, sem gerir manni ekkert nema gott, þó það sé kannski rosalega erfitt rétt á meðan. En því oftar sem maður gerir það, ögrar sjálfum sér svona, þá kemur að því að maður vinnur á hræðslunni og á endanum kemst maður jafnvel yfir hana. Ég mæli svo ótrúlega mikið með að fara á svona námskeið, gönguhóp eða skipulagðar gönguferðir með leiðsögu fólki þegar maður er að fara af stað í svona fjallgöngum, maður lærir svo mikið af því. Þá þarf maður líka ekki að finna gönguleiðirnar sjálfur plús auka öryggið sem fylgir því að vera í hóp. Það eru til ótrúlega margir hópar hér á Íslandi sem eru að bjóða uppá göngur allan ársins hring, svo það ætti enginn að vera í vandræðum með að finna slíkt. Ég hef einungis prófað Af stað, en get alveg hiklaust mælt með þeim. Ég á klárlega eftir að fara í fleiri göngur með þeim í framtíðinni. 

Mig langar líka að benda ykkur á heimasíðuna þeirra, en þar eru þau með mjög margar góðar leiðarlýsingar á allskonar fjöllum sem hægt er að fara á, svona fyrir þá sem treysta sér til að fara sjálfir. Þar er svo líka hægt að finna allskonar fróðleik um búnað og græjur fyrir göngur sem er sniðugt að kynna sér.

Takk fyrir að lesa 

 

Þér gæti einnig líkað við