Að keppa í fitness

Þeir sem þekktu mig á mínum unglingsárum vita að ég er var mjög feimin og hlédræg þegar ég var yngri. Það kom því mörgum á óvart þegar ég tilkynnti það árið 2016 að ég ætlaði að keppa á mínu fyrsta móti í módel fitness nóvember sama ár. Þetta var risa stórt skref út fyrir þægindarammann en þetta var eitthvað sem mig hafði dreymt um í mörg ár. Aðeins tveimur árum áður steig ég fyrst af hlaupabrettinu og byrjaði að prófa mig áfram að lyfta lóðum, enda hélt ég þá að ég yrði karlmannsleg við það eitt að taka upp lóðið.

Ég hafði samband við Konráð Val Gíslason hjá Iceland Fitness þremur mánuðum fyrir keppni og spurði hvort hann gæti hjálpað mér í þessu ferli. Hann tók vel á móti mér og hjálpaði mér mjög mikið í þessu niðurskurðarferli.

Niðurskurðarferlið

Niðurskurðarferlið er vanalega tólf vikur hjá mér en það er misjafnt eftir þjálfara og formi hversu langt það er. Þá æfði ég að jafnaði tvisvar sinnum á dag, sex daga vikunnar og fékk síðan einn hvíldardag í viku. Ég vaknaði þá klukkan 5 á morgnana og fór á brennsluæfingu og eftir vinnu fór ég á seinni æfingu dagsins sem var þá lyftingaræfing. Þar sem formið er ekki það eina sem skiptir máli á keppnisdag fór ég einnig vikulega á pósunámskeið. Það skiptir miklu máli að hafa góða framkomu og útgeislun á sviði og því er mjög mikilvægt að æfa pósurnar vel fyrir stóra daginn. Þar sem það fór mikill tími í æfingar, vinnu og pósuæfingar þurfti félagslífið því miður að sitja á hakanum og ég viðurkenni að ég hafði ekki mikinn tíma til að sinna fjölskyldu og vinum þó ég vildi það.

Niðurskurðinum fylgdi mjög strangt mataræði en ég fékk alveg nákvæmar upplýsingar um hvað ég ætti að borða á hverjum degi. Þar sem ég er rosalega ströng við sjálfa mig og ákveðin fór ég alltaf 100% eftir öllu sem þjálfarinn minn sagði. Ég vigtaði alltaf matinn og borðaði ekki grammi meira en Konni sagði. Ef ég mátti ekki taka nammidag þá var ekkert svindlað!

Þar sem ég var í fullri vinnu og keppnisundirbúningi þurfti ég að skipuleggja mig rosalega vel. Ég notaði vanalega sunnudagana mína í að undirbúa nesti fyrir vikuna. Þá eldaði ég nóg af kjúkling og sætum kartöflum fyrir alla vikuna og geymdi inni í ísskáp nesti fyrir fyrstu þrjá dagana og rest inni í frysti. Mataræðið samanstendur mest megnis af höfrum, próteini, eggjum, möndlum, kjúklingi, fiski, sætum kartöflum og grænmeti. Það er algengur misskilningur að allir borði lítið þegar þeir eru í niðurskurði. Þegar ég byrjaði minn fyrsta niðurskurð þurfti ég að venja mig við að borða minni skammta í einu en í staðinn var ég borðandi á tveggja tíma fresti yfir daginn.

Annað sem þarf að huga að fyrir mót

Það er ekki einungis formið og pósurnar sem skiptir máli á keppnisdeginum heldur er það heildarútlitið. Huga þarf að bikiníinu tímalega og best er að máta nokkur bikiní til að finna hvað hentar best fyrir mann. Þá þarf að velja það snið sem hentar líkamsvextinum best og þann lit sem tónar vel við hárlit og húð. Ég er til dæmis búin að sjá það að grænt bikiní fer mér mun betur en rautt bikiní. Skartgripir skipta einnig miklu máli en ég hef vanalega verið með fallega eyrnalokka og svo einn hring. Ég passa mig alltaf að hafa ekki of mikið skart svo það dragi ekki of mikla athygli.

Vikuna fyrir keppnisdag kalla ég vanalega „Prinsessuviku“ en þá dekra ég við mig! Vanalega byrja ég á því að fara í vax en það er oft mælt með því að fara í heilvax um viku fyrir keppnisdag svo brúnkan komi sem best út. Ég panta mér síðan tíma í neglur og vel mér einhverjar sem eru ekki of áberandi en samt smá ýktar. Ég panta mér alltaf tíma í brúnkusprautun en þá fer ég í grunnlitinn daginn fyrir mót og svo fæ ég keppnislitinn á mótsdag. Á keppnisdag hef ég vanalega bókað förðun og greiðslu eldsnemma um morguninn. Vanalega er ég að vakna um kl. 5 á keppnisdag svo ég verði tilbúin á réttum tíma án þess að lenda í stressi. Ég mæli mjög mikið með því ef þið eruð í vinnu að reyna að taka frí síðustu daga fyrir mót þar sem það er mikið sem þarf að undirbúa í lokin og orkan er oft ekki mikil síðustu dagana.

Bikarmót 2016

Fyrsti niðurskurðurinn var klárlega sá erfiðasti þar sem ég vissi voðalega lítið hvað ég var búin að koma mér út í. Ég var ekki vön því að vigta matinn minn og borða það sama á hverjum degi. Í lokin minnka skammtarnir og þá fer skapið að verða aðeins verra, greyið Hörður þurfti að finna smá fyrir því.

Ég lenti í öðru sæti í byrjendaflokki á mínu fyrsta móti og var alveg rosalega ánægð með það, enda hafði ég ekki haft neinar væntingar. Eftir mótið í nóvember tók ég mér smá keppnispásu en ég hélt áfram að vera dugleg að mæta í ræktina og borða hollt.

Bikarmót 2017

Ég ákvað síðan ári seinna að keppa aftur, nóvember 2017. Það magnaða við þetta allt er að hver niðurskurður er svo mismunandi þar sem líkaminn bregst ekki alltaf eins við. Í þetta skiptið setti Konni mig á mataræði sem kallast carb cycle. Þá skiptust dagarnir þannig að ég fékk einn dag sem var lágkolvetna, annan sem var miðlungs kolvetni og svo var uppáhalds dagurinn minn, mikil kolvetni. Á þessu mataræði mátti ekki taka neina svindldaga og því voru margar vikur sem ég mátti ekkert nammi.

Þessi niðurskurður tók vel á, þá sérstaklega því ég fór í árshátíðarferð erlendis með vinnunni nokkrum vikum fyrir mót. Þar reyndi mikið á skipulagið en ég var búin að elda mat áður en ég fór út og setja í fullt af nestisboxum fyrir hvern dag þarna úti. Það var ekkert svindlað nema á árshátíðardeginum sjálfum en ég hoppaði hæð mína af gleði þegar Konni sagði að ég mætti fá mér nautasteik og súkkulaðiköku í eftirrétt!

Íslandsmót 2018

Eftir þetta mót þyrsti mig í að keppa aftur og ná að bæta mig ennþá betur. Ég byrjaði undirbúning fyrir páskamótið 2018 í lok janúar það árið. Þessi niðurskurður var klárlega sá allra auðveldasti. Fyrstu mánuðina fékk ég að borða mjög mikinn mat, meira en ég hef nokkru sinni borðað. Þetta var svo mikill matur að ég efaðist um að ég yrði tilbúin þegar kæmi að mótinu. Í lokin varð Konni mun strangari en 2 vikum fyrir mót tók hann út öll kolvetni. Það skilaði sér svo sannarlega því ég lenti í öðru sæti á Íslandsmeistaramótinu, þrátt fyrir að hafa dottið á hausinn og fengið sex spor á ennið rétt áður en ég steig á svið (en það er önnur saga).

Ég ákvað að nýta keppnisformið frá páskamótinu og skella mér með Bergrósu, Grétu og Ingu Hrönn til Osló og keppa þar á Oslo grand prix í apríl 2018. Þar nældi ég mér í einhvers konar magapest og var alls ekki í mínu besta formi á sviði. Ég sé þó alls ekki eftir að hafa prófað að fara út að keppa þar sem þetta er svo rosalega ólíkt því að keppa á Íslandi. Ég mun klárlega prófa það aftur seinna að keppa erlendis.

Fordómar

Þegar ég sagði frá því að ég ætlaði að keppa í módel fitness fann ég fyrir miklum fordómum frá alls konar fólki. Mamma mín og pabbi voru mjög mikið á móti þessu fyrst og þá sérstaklega pabbi. Þegar ég útskýrði þetta meira fyrir þeim og þau sáu allt erfiðið og vinnuna á bakvið þetta þá fóru þau að styðja mig meira. Þau hafa bæði mætt á öll mín mót til að hvetja mig áfram, ásamt systur minni, Hödda og vinkonum mínum.

Ég hef oft fengið að heyra það að maður sé bara að svelta sig og hreyfa sig alltof mikið. Það er ekki alveg satt. Jú vissulega borðar maður minna þegar nálgast keppnina en allan keppnisundirbúninginn er ég að fá næga næringu og líður vel allan tímann. Ég get viðurkennt það að mér líður yfirleitt alltaf best meðan ég er í niðurskurði og er á hreinu mataræði.

Margir halda að maður eyðileggi brennsluna á þessu og þetta fari illa með mann. Ég er ekki sammála þessu en þetta getur verið mjög mismunandi milli einstaklinga og því mikilvægt að hlusta á þjálfarann. Það sem er óhollast í þessu ferli er vatnslosunin sem er tíu dögum fyrir keppnisdag. Þá þarf að auka vatnsdrykkjuna um 300 ml á dag. Daginn fyrir mótið má aðeins drekka 1 líter af vatni og á keppnisdag má ekki drekka neitt vatn.

Skrefin eftir keppni

Þegar ég fór út í þetta gerði ég mér fulla grein fyrir því að keppnisformið er ekki form sem er heilbrigt að viðhalda. Það er í lagi að vera í góðu formi og heilbrigður en formið sem maður er í á sviði er ekki eitthvað sem maður viðheldur. Eftir hvert mót fór ég á svokallað „reverse dieting“ en þá hækka ég smám saman hitaeiningarnar hjá mér svo brennslan geti tekið við sér eftir mótið. Þá hækka ég t.d. um 100 kaloríur í hverri viku og minnka brennsluæfingarnar smám saman þangað til ég er komin í eðlilega brennslu. Þetta er atriði sem margir klikka á eftir mót. Margir hætta á mataræðinu sem þeir voru á í keppnisundirbúningnum og borða allt sem þau vilja eftir mótið. Vanalega tek ég mér tvo daga sem eru frjálsir en síðan byrja á á þessu „reverse diet“. Það er mikilvægt að vera með þjálfara sem hjálpar manni líka þegar mótið er búið þar sem þetta getur oft verið erfiðari tími en niðurskurðurinn sjálfur.

Það er mjög mikilvægt að líta á þetta sem lífsstíl og halda áfram að hreyfa sig og borða hollt þó maður sé ekki í keppnisundirbúningi. Það er ekki heilbrigt að taka 12 vikna keppnisundirbúninga og missa svo algjörlega tökin eftir það. Best er að halda góðu jafnvægi bæði í mataræði og æfingum. Þegar ég er ekki í keppnisundirbúningi held ég áfram að vera dugleg að hreyfa mig. Ég byrja oftast daginn á morgunbrennslu áður en ég fer í vinnu og eftir vinnu tek ég lyftingaræfingu eða fer í Crossfit. Ég er vanalega að æfa um 11 sinnum eða oftar í viku en þar er vegna þess að ég elska það, ekki vegna þess að ég þarf þess. Ég fylgist alltaf með því hvað ég borða og ég borða mjög hollt sex daga vikunnar. Ég vigta alltaf matinn minn og skrái niður í MyFitnessPal en þar get ég fylgst með því að ég sé að borða nóg yfir daginn. Á sunnudögum elda ég hádegismatinn minn fyrir vikuna en ég er búin að venja mig á að taka alltaf nesti með mér í vinnuna, þannig held ég mataræðinu mínu alltaf góðu.

Það sem ég hef lært á þessum tíma

Það er ýmislegt sem ég hef lært eftir að ég hóf keppnisundirbúning í fyrsta skipti. Ég komst að því að ég er með mjög mikinn aga og mér finnst gaman að takast á við nýjar og erfiðar áskoranir.
Ég lærði að stíga út fyrir þægindaramann og gera eitthvað sem ég bjóst aldrei við að ég myndi þora að gera. Áður en ég keppti í fyrsta skipti vildi ég almennt ekki láta mikið fyrir mér fara. Ég átti erfitt með að standa fyrir framan hóp og halda ræður eða kynningar og var mjög feimin. Fitness ferlið hefur gefið mér svo miklu meira sjálfstraust en ég hef nokkru sinni verið með og ég hef náð að brjóta þessa skel sem ég var með utan á mér öll þessi ár.

Í þessu ferli kynnist maður mikið af fólki sem hefur sömu áhugamál og það hjálpar manni mikið í niðurskurðarferlinu. Það að geta talað við fólk sem gengur í gegnum samskonar áskoranir í keppnisundirbúningi hjálpar rosalega. Það kom mér á óvart hversu nánir einstaklingar í fitness heiminum eru, það eru allir svo tilbúnir að hjálpa hvor öðrum.
Einnig lærði ég á mataræði og skammtastærðir. Ég lærði það að mér líður best þegar ég lifi heilbrigðum lífsstíl þar sem ég borða hollt og æfi daglega. Æfingar eru ekki lengur kvöð heldur þykir mér alltaf rosalega gaman að mæta á æfingar og ég á mjög erfitt með að sleppa því að mæta á æfingar í dag.

Segjum þetta gott af fitness umræðu í bili
Endilega fylgist með mér á Instagram síðunni minni.
Þar er ég mjög dugleg að setja inn hollar uppskriftir, æfingar og hvatningu!

Þér gæti einnig líkað við