Fyrsti þriðjungurinn

Nú er ég gengin 14 vikur og er fyrsta þriðjungnum því formlega lokið. Það er frekar magnað að hugsa til þess að um það bil þriðjungi meðgöngunnar sé lokið þar sem þessi tími hefur liðið frekar hratt.

Ég fjallaði aðeins um það í fyrri færslu að ég byrjaði mjög fljótlega að finna fyrir ógleði og þreytu. Einnig fór ég mjög fljótlega að finna fyrir eymslum í brjóstum sem ég hafði ekki fundið fyrir áður. Þessi einkenni, ásamt því að finna fyrir minna þoli í ræktinni voru þau einkenni sem fengu mig til að íhuga það hvort ég væri orðin ófrísk.

Helstu einkennin fyrstu vikurnar

Ógleðin hófst snemma, eða þegar ég var komin um þrjár vikur á leið. Hún var ekkert svo slæm til að byrja með og minnti hún á þá ógleði sem ég hafði verið að finna mánuðina sem ég var að taka Letrozole og Chlomifen. Vikurnar liðu og ógleðin fór alltaf að versna og versna. Ég fór að hætta að geta borðað ýmsan mat sem ég elskaði áður þar sem ég hafði ekki lengur lyst á að borða hann og varð matseðillinn frekar einhæfur á tímabili. Dagarnir voru mis slæmir en vanalega var ógleðin þannig að hún hrjáði mig frá því ég vaknaði um morguninn og þangað til ég fór að sofa á kvöldin. Suma daga var ógleðin það slæm að ég komst ekki fram úr rúminu af vanlíðan. Ég var þakklát fyrir það að ná að þrjóskast til að borða þrátt fyrir ógleðina og ná að halda öllum mat niðri en mér leið virkilega illa fyrstu vikurnar.

Ásamt því að vera með mjög mikla ógleði allan daginn þá fann ég líka fyrir rosalegri þreytu. Ég fann að ég hafði þörf á mun meiri svefn en áður en það er líka eðlilegt þegar það er manneskja að vaxa inni í manni! Ég var dugleg að hlusta á líkamann og hvíla mig þegar ég fann fyrir þreytu. Ég náði að æfa um þrisvar til fimm sinnum í viku fyrstu vikurnar og fannst það hjálpa mér alveg rosalega, sérstaklega þegar ógleðin var sem mest!

Sex vikur liðnar

Þegar ég var komin um sex vikur á leið fór ég að finna fyrir miklum verkjum í leginu og síðan tók ég eftir því að það byrjaði að koma blóð. Við urðum auðvitað mjög hrædd þar sem eitt þekktasta einkennið við fósturlát eru blæðingar og verkir. Ég heyrði strax í ljósmóður sem sagði mér að þetta þyrfti alls ekki að þýða neitt slæmt þar sem ég var ennþá með öll óléttu einkennin sem ég hafði verið með áður. Ég fór eftir ráðleggingum ljósmóðurinnar og hvíldi mig heima næsta dag og reyndi að róa taugarnar aðeins en ég viðurkenni að það var erfitt að halda ró minni þar sem það hélt áfram að blæða í nokkra daga í viðbót hjá mér. Ég viðurkenni að ég held við höfum aldrei verið jafn hrædd. Ég varð rosalega viðkvæm og grét stanslaust því ég hélt að þetta væri bara búið. Ég fékk svo tíma hjá Arnari, lækninum mínum, fljótlega og hann ómskoðaði mig. Það gladdi okkur mjög að heyra að fóstrið var í góðu lagi, það hafði bara fest sig neðarlega í leginu og var að þrýsta á æðar þar, þess vegna var að blæða. Hættan var þó ekki alveg úti og vildi hann því fylgjast vel með mér næstu vikurnar.

Ég fór einnig að finna fyrir miklum svima fljótlega á meðgöngunni og fékk ég mikla svimatilfinningu nánast í hvert skipti sem ég stóð upp eftir að hafa setið eða legið í einhvern tíma. Ég þurfti oft að leggjast niður þar sem það munaði litlu að það liði yfir mig. Eitt skiptið náði ég hins vegar ekki að leggjast niður nógu fljótt og lenti ég þá í því að ég vaknaði á gólfinu eftir að það hafði liðið yfir mig. Ég lenti sem betur fer ekki illa og fann ég ekki fyrir fallinu. Ég fór reglulega að mæla blóðþrýsting sem kom alltaf mjög vel út hjá mér. Einnig fór ég í blóðprufu til að mæla járnið hjá mér og það var allt í góðu líka. Eina skýringin sem gat verið á þessu var að blóðmagnið er meira hjá manni þegar maður er ófrískur og blóðflæðið fer í miklu magni til legsins.

Eftir að blæðingarnar hættu og Arnar var búinn að staðfesta að hættan væri úti þá róuðumst við mjög mikið. Ógleðin hélt áfram hjá mér og þreytan sömuleiðis. Ég viðurkenni að ég held ég hafi verið með ógleði alla daga í fyrsta þriðjungnum og taldi ég niður dagana í að annar þriðjungurinn hæfist, þar sem ég hef heyrt að ógleðin verði oft skárri þá. Ég prófaði öll trixin í bókinni til að reyna að komast í gegnum daginn, drakk engifer drykki, borðaði engifer brjóstsykur, borðaði á tveggja tíma fresti yfir daginn og reyndi að hvíla mig eins og ég gat. Það var bara ekkert sem virkaði því miður!

11 vikur liðnar og allt fer að birta til

Þegar ég var komin um 11 vikur fór þetta að vera aðeins bærilegra hjá mér. Ég fór að geta borðað aftur svipaðan mat og ég borðaði áður fyrr og gat borðað meira af hollum og góðum mat. Ógleðin hélt áfram en hún hætti að angra mig eins mikið og hún gerði í byrjun. Einnig fór ég að finna fyrir meiri orku og fór að geta æft oftar í viku.

Ég er mjög þakklát fyrir það að ég hef getað æft mjög reglulega alla meðgönguna og borðað hollt mest allan tímann. Ég hef verið mjög heilsuhraust fyrir utan ógleðina og svimann og er ég mjög þakklát fyrir að þetta hafi ekki verið verra. Þrátt fyrir að hafa verið með mikla ógleði og vanlíðan fyrstu vikurnar þá er ég svo óendanlega þakklát fyrir að vera ófrísk. Ég elska að sjá líkamann breytast og sjá kúluna stækka með hverjum deginum sem líður og held ég hafi aldrei verið jafn hamingjusöm og einmitt núna!
Á myndinni hér að neðan er ég komin 14 vikur á leið og það er byrjuð að myndast lítil og krúttleg kúla.

Nú er ég spennt fyrir næsta þriðjungi þar sem ég hef heyrt að hann sé oft töluvert þægilegri en sá fyrsti!
Ef ykkur langar að fylgjast með meðgöngunni og hreiðurgerðinni hjá okkur hjónunum þá mæli ég með að fylgjast með mér á Instagram.

 

 

Þér gæti einnig líkað við