Fimmvörðuhálsinn

Ég gekk Fimmvörðuhálsinn um verslunarmannahelgina með Svenna, kærastanum mínum. Við vorum búin að skipuleggja þessa ferð soldið fyrir tímann, þannig að við vorum mjög vel undirbúin. Við gistum í sumarbústað, sem er staðsettur rúmum klukkutíma frá Skógum, bæði fyrir og eftir gönguna, til að þurfa ekki að keyra mjög langt. Við lögðum svo bílnum okkar hjá Skógum og gengum þaðan yfir í Þórsmörk. Tókum svo rútu frá Þórsmörk yfir í Skóga aftur að göngu lokinni og pöntuðum við rútuna HÉR. Við lögðum af stað í gönguna upp úr 9 um morguninn og rútan fór frá Þórsmörk um 20:30 og við tímasettum þetta alveg fullkomlega, þar sem við vorum komin það tímanlega upp í Þórsmörk, að við biðum ekki nema um rúman hálftíma eftir rútunni. 

Við fengum allskonar veður á leiðinni. Til að byrja með var sól og blíða og við þurftum hreinlega að fækka fötum. Svo fór vindurinn að aukast og við bættum á okkur einu lagi. Svo um miðja göngu, eða í kringum Baldvinsskálann, kom grenjandi rigning og þá bættum við á okkur þriðja laginu (regnfötum) og settum regnplast yfir bakpokana okkar. Einnig kom haglél og snjókoma á tímabili. Það kom sér mjög vel þarna að vera vel undirbúin og vera með allt til alls í bakpokunum okkar. Okkur skorti ekkert alla gönguna. Við vorum bæði með dagpoka og það sem við pökkuðum niður var: 

  • Regnföt
  • Regnplast yfir bakpokana
  • Ál sessur 
  • Auka vettlinga
  • Auka sokka
  • Auka húfu og buff
  • Auka peysu
  • (Auka skó)
  • Vaðskó
  • Göngustafi
  • Nóg af vatni
  • Nóg af orkuríku nesti
  • GPS tæki og áttaviti
  • Höfuðljós
  • Hælsærisplástrar
  • Göngusólgleraugu
  • Hleðslubankar fyrir síma
  • Pappír 

En við vorum klædd í ullarföt, skeljakka, regnföt, húfu, vettlinga, hlýja sokka, buff og vorum með skóhlífar á skónnum okkar svo ekki kæmist sandur, steinar eða snjór innanundir skónna hjá okkur. Við notuðum göngusólgleraugun nánast allan tímann, enda hentuðu þau mjög vel, hvort sem er til að skýla okkur fyrir sólinni eða haglélinu. Göngustafina byrjuðum við að nota eftir Baldvinsskála, þá var komið mikið rok og gangan fór að vera töluvert meira krefjandi. Mér var orðið smá kalt á fingrunum á þeim tímapunkti og Svenni hafði keypt eitthvað hita duft sem bjargaði mér alveg. Þetta er einhverskonar duft í litlum pokum sem þú nuddar saman og þá myndast hiti, sem dugar svo alveg í 8 tíma. Þetta var ég bara með inn í vettlingunum mínum það sem eftir var göngunnar, og þetta var algjör lifesaver. Þetta fæst í flestum útivistar verslunum, ég mæli hiklaust með þessu fyrir lengri göngur. Það var búið að segja okkur að það megi búast við öllu á Fimmvörðuhálsinum, og það var alveg klárlega þannig. 

Gangan sjálf var bæði geggjuð og á sama tíma mjög ógnvekjandi fyrir mig. Ég er rosalega loft- og lífhrædd manneskja og á þremur tímapunktum í göngunni þá grét ég bókstaflega úr hræðslu. Fljótlega eftir Baldvinsskála kom mjög brött brekka sem við þurftum að fara upp og mér leið eins og ég kæmist bara ekki upp hana og myndi detta aftur fyrir mig, því hún var svo rosalega brött. Svenni stóð fyrir aftan mig og ýtti mér nánast upp á meðan ég grét hahah. Frekar fyndið að hugsa um það svona eftir á, en var alls ekki fyndið rétt á meðan. Svo kom Heljarkamburinn, sem var eiginlega hræðilegasti parturinn fyrir mig, en kannski líka því hann var soldið langur, að minnsta kosti í mínum huga. En þetta eru klettar sem þarf að fara niður fyrst og svo ganga við hlið klettana og halda í keðjur. Sillan sem gengið er á, er mjög mjó. Keðjan hafði losnað frá á nokkrum stöðum, svo ég gat alls ekki treyst henni fullkomlega. En þarna kom Svenni aftur mér til bjargar og hvatti mig áfram á meðan ég ofandaði og grét til skiptis. Síðasti parturinn sem mér fannst erfiður var svo nánast alveg í lokin, en það er svokallaður Kattarhryggur. Þetta er mjög stuttur kafli, en þetta er mjög mjór stígur/klettur sem þarf að ganga yfir og er alveg bratt niður báðum megin við. Ég byrjaði á að labba yfir mjög hægt og fara aðeins út til hliðar, en endaði svo á að skríða yfir á fjórum fótum. Mér leið rosalega vel eftir á að hafa getað klárað þessa göngu og komist yfir þessa erfiðu parta. En ég var búin að kvíða þessu soldið lengi, því ég var auðvitað búin að kynna mér gönguna svo ég vissi að hún væri vel krefjandi fyrir lofthrædda. Ég hef heyrt að margir fari þessa göngu aftur og aftur, en ég er ekki alveg viss um að ég myndi treysta mér í þessa göngu aftur, að minnsta kosti ekki á næstunni. 

En á milli þessara ógnvekjandi kafla í göngunni, þá var hún meiriháttar. Landslagið svo fallegt og stórbrotið. Megnið af göngunni var bara þægileg ganga, ekkert of mikið upp á við í einu eða neitt þannig. Ég get ekki einu sinni lýst því almennilega í orðum hversu mögnuð þessa ganga er, svo ég læt myndirnar bara tala fyrir mig. Ég held að þetta sé ganga sem ALLIR verða að prófa að minnsta kosti einu sinni. 

Takk fyrir að lesa 

Þér gæti einnig líkað við