Ferðast innanlands með lítið barn

Þar sem fjölskyldur okkar Þorfinns búa á víð og dreif um landið þurfum við svolítið að ferðast til þess að geta knúsað okkar nánasta fólk. Það sem mig hafði ekki grunað var að þurfa að undirbúa mig sérstaklega fyrir þessar ferðir eftir að Hlynur fæddist. Ég hafði vissulega gert ráð fyrir að það þyrfti að stoppa til að borða og hreyfa sig aðeins. Hlynur er þó mjög mótfallinn því að sitja í bíl. Það eitt að fara til dagmömmunnar, í sund eða í heimsókn getur verið alveg skelfilegt fyrir minn mann. 

Við höfum farið nokkrum sinnum út á land í bíl með drenginn, til Vestmannaeyja og Akureyrar og hefur það tekið svolítið á þolinmæði litla mannsins. Hér eru nokkur ráð sem mér finnst hafa hjálpað okkur aðeins á leiðinni:

 

  • Hlusta á eitthvað sem hann hefur gaman af, t.d. Skoppu og Skrítlu. 
  • Ferðast þegar hann sefur. Við keyrðum t.d. frá Akureyri og lögðum af stað um 19:00 svo hann sofnaði fljótlega og svaf alveg í 2-3 tíma. Væri einnig hentugt að taka inn daglúrinn hans. 
  • Þegar hann er vakandi að stoppa reglulega, skipta á, leyfa honum að vera smá “frjáls”, setjast við borð og borða rólega, vera úti ef það viðrar til þess og fleira.
  • Vera með eitthvað létt dót til að skoða. Vil alls ekki hafa eitthvað þungt eða hart, því það getur verið svo hættulegt ef við skyldum lenda í slysi, því þyngdin margfaldast svo mikið við árekstur.
  • Meta hvort það er betra eða verra að sitja aftur í hjá barninu, ef það er möguleiki. Hlynur er oft meira órólegur ef við sitjum aftur í en stundum ekki, svo við þurfum algjörlega að meta aðstæður hverju sinni.
  • Spjaldtölva með barnaefni. Við fengum lánaða spjaldtölvu til að hafa með þegar við fórum á Akureyri og það bjargaði ferðinni. Hlynur vildi ekkert sofa á leiðinni norður og við vorum búin að reyna ALLT hér að ofan, en hann var brjálaður. Þá gafst ég upp og kveikti á spjaldtölvunni og hann var mun sáttari. Næsta mál á dagskrá er örugglega að splæsa í fartölvu og hólf fyrir hana til að hengja á sætið svo hún sé örugg fyrir framan hann.

Þetta er svona það helsta sem hjálpar okkur, og svo er mikilvægt að vera sjálf bara frekar róleg og yfirveguð. Það tekur rosalega á að vera með órólegt barn í bíl lengi og því finnst mér gott að geta haft eitthvað plan um hvað við gerum til þess að halda honum góðum á meðan við ferðumst. 

Ég vona að þetta muni hjálpa einhverjum.

Takk fyrir lesninguna!

Freydís

Þér gæti einnig líkað við