Ég fór til Mallorca í tvær vikur í Júní í bootcamp hjá fyrirtæki sem heitir Ultimate fitness holiday. Ég var búin að skrifa aðeins um æfinga búðirnar áður í þessari færslu HÉR.
En mig langar að deila núna með ykkur smá ferðasögu og myndum úr ferðinni. Ég sýndi reyndar mjög mikið frá ferðinni á Instagram og setti flest allt í highlights þar ef þið viljið sjá meira frá ferðinni. Instagrammið mitt er @rosasoffia.
Ferðalagið byrjaði ekkert sérstaklega vel hjá mér. Ég átti flug út á laugardagsmorgninum 5.júní og ætlaði að gista eina nótt í Palma áður en ég færi til Port de Pollenca, þar sem æfingarbúðirnar eru staðsettar. Ég keypti flugin mín í gegnum fyrirtæki sem heitir esky og get ég því miður alls ekki mælt með því. Þetta er er svona bókunarfyrirtæki, svipað og Kiwi og Booking sem ég hef notað mjög mikið og alltaf haft góða reynslu af. En þarna lenti ég alls ekki í skemmtilegri reynslu. Ég fékk póst tveimur vikum fyrir ferðina að öðru fluginu mínu út væri aflýst. Ekkert meir. Flugin mín út voru tvö, fyrst til Köben og svo þaðan til Palma og voru þau bæði með SAS og heimleiðin eins. Ég tók eftir því að Icelandair var að bjóða upp á flug á nákvæmlega sama tíma og því sem var aflýst, svo ég sendi beiðni á esky um að endurbóka mig í það flug. Ég fæ senda nýja flugáætlun og er beðin um að staðfesta hana, sem ég geri. Þá fæ ég póst um að ég muni fá nýja flugmiða senda innan nokkurra daga. Ekkert gerist. Ég sendi örugglega hundrað pósta áður en ég fór út og heyri aldrei frá neinum til baka. Svo þegar ég fer út á flugvöll þann 5.júní þá er mér tilkynnt að ég sé ekki bókuð í þetta flug. Mig grunaði það svo sem, þar sem ég hafði ekki fengið neitt sent. Þannig að ég var með öll tölvupósta samskipti útprentuð og gat sýnt fram á að ég hefði staðfest þessa ferðaáætlun og þess háttar. Ég komst í flugið á endanum og verð ég bara að hrósa starfsfólkinu á flugvellinum fyrir að aðstoða mig í þessum leiðinlegu aðstæðum. Þar er mér svo tilkynnt að það sé líka búið að aflýsa öðru fluginu mínu á leiðinni heim, svo ég muni þurfa að hafa samband við esky aftur til að láta endurbóka mig í nýtt flug á leiðinni heim líka. Þvílíku gleðifréttirnar sem það voru. Ég hringdi nokkrum sinnum í þau á meðan ég var úti og sendi tölvupósta til að endurbóka í nýtt flug. Allt kom fyrir ekki, þegar ég fer á flugvöllinn úti til að fara heim, þá er mér tilkynnt að ég hafi verið endur bókuð í rangt flug. Ég var sem sagt endurbókuð aftur í sama flugið, því sem hafði verið aflýst. En aftur bjargaði starfsfólkið á flugvellinum mér alveg og þetta hafðist allt á endanum og ég komst heim á réttum tíma. En ég mæli ekki með því að ferðast undir þessum kringumstæðum. Héðan í frá mun ég eingöngu versla við flugfélögin sjálf. Þetta var algjör martröð.
En förum þá yfir í aðeins skemmtilegri sálma. Ég gisti fyrstu nóttina á hóteli miðsvæðis í Palma og hafði þar um sólarhring til að skoða mig um. Ég hafði farið til Mallorca þrisvar sinnum áður, en aldrei stoppað neitt í Palma. Ég labbaði ótrúlega mikið um, borðaði McDonalds, skellti mér í ræktina og á sunnudeginum tók ég svo rútu yfir til Port de Pollenca í æfingarbúðirnar. Búðirnar eru staðsettar í villu rétt fyrir utan bæinn og fengum við öll okkar eigin hjól til afnota. Ég kom mér fyrir í herberginu mínu og svo þegar allir voru komnir á svæðið var hjólað í bæinn og farið út að borða.
Á mánudögum hefst svo alltaf ný vika í æfingarbúðunum. Það er hægt að velja um að dvelja þar allt frá einni viku og upp í átta vikur að mig minnir. Lang flestir velja eina viku, en ég var þarna í tvær vikur. Hver dagur byrjar á Jóga uppi á þakinu á villunni. Eftir það er hálftíma pása þar sem við gátum fengið okkur ávexti, kaffi eða orkudrykki og svo var fyrsta æfing dagsins eftir það. Það eru tveir þjálfarar sem sjá um æfingarnar, þær Maria og Karlotta. Gaman að segja frá því að Karlotta er íslensk stelpa, svo það var skemmtilegt surprise fyrir mig að vera ekki eini Íslendingurinn á svæðinu. Æfingarnar voru hver annarri skemmtilegri, það var unnið soldið með Crossfit, fitnessbox, High intensity æfingar og fleira í þeim dúr. Persónulega hentuðu æfingarnar mér mjög vel, voru passlega krefjandi og alls ekkert ósvipaðar því sem ég er vön.
Eftir fyrstu æfingu dagsins var svo morgunmatur. Jógakennarinn okkar hún Claire sá einnig um allar máltíðirnar okkar og lagði mikið upp úr því að allur maturinn væri næringarríkur og það væri eitthvað fyrir alla. Til dæmis á öðrum deginum var hún með túnfisk í hádegismatinn, en ég get bara ekki borðað túnfisk fyrir mitt litla líf. Svo hún gerði samloku fyrir mig og eftir það gerði hún alltaf sér kjúkling fyrir mig þegar það var túnfiskur á boðstólnum.
Á mánudögum er svo alltaf kennsla í SUP, eða stand up paddle. Hinum megin við götuna frá villunni er strönd og var farið þangað með brettin. Svo restina af tímanum okkar þá höfðum við fullan aðgang að brettunum og gátum farið á þeim eins oft og okkur langaði, eins lengi og við færum ekki ein. Nokkur okkar fórum saman einn morguninn eldsnemma í sólarupprásinni og það var geggjað! Þvílík upplifun, svo fallegt og friðsælt.
Um miðjan daginn, eða kl 14, var svo alltaf hádegismatur. En á milli matartíma og eftir hádegismatinn höfðum við frjálsan tíma og gátum þá alltaf legið í sólbaði, lagt okkur, hjólað í bæinn, farið á ströndina eða gert hvað sem okkur langaði að gera. Æfingarnar voru að sjálfsögðu heldur ekki skylda og það var vel hægt að sleppa æfingu ef svo lá við hjá manni. En flestir voru nú komnir þarna til að æfa svo það var alls ekki algengt að fólk væri að sleppa æfingum.
Seinniparts æfingin var svo misjöfn eftir vikudögum. Á mánudögum og föstudögum var farið í fjallgöngu, á miðvikudögum var blak og leikir á ströndinni og á þriðjudögum og fimmtudögum voru styrktaræfingar. Þannig að það var mikil fjölbreytni í æfingunum og maður fékk aldrei leið á neinu sem við vorum að gera.
Helgarnar og kvöldin voru svo bara alveg frjáls tími. Við fórum út að borða öll saman á hverju kvöldi, bæði í Port de Pollenca og Alcudia. Fyrsta laugardaginn fórum við öll saman í siglingu á Karamane bát og það var ótrúlega gaman. Svo á fyrsta sunnudeginum fóru ansi margir heim til sín og við hin sem vorum eftir fórum til Alcudia og tókum strandar dag þar. Ég hefði aldrei trúað því hvað það var erfitt að kveðja fólkið sem fór heim á sunnudeginum, fólk sem ég var bara búin að þekkja í eina viku. Mér fannst ekki alveg jafn erfitt að kveðja svo þegar ég fór heim, bæði því ég hafði ekki tengst fólkinu í seinni vikunni jafn vel og líka því þá var það ég sjálf sem var að fara, það var allt öðruvísi einhvern veginn.
Ég gisti svo eina nótt í Palma frá sunnudegi til mánudags, en þá valdi ég mér hótel við ströndina einungis kílómeter frá flugvellinum. Hótelið var ekkert smá flott með bæði sundlaugagarð og sundlaug uppi á þaki með sólbekkjum. Ég lá auðvitað í sólbaði þar og labbaði um ströndina og skoðaði í strand búðirnar síðasta daginn minn. Það var fullkominn endir á fullkominni ferð, fyrir utan ferðalagið sjálft auðvitað.
Á næsta ári langar mig svo að fara í æfingarbúðirnar þeirra á Balí og er stefnan klárlega sett þangað. Svo bjóða þau einnig upp á Sri Lanka og Thailand. Þetta er allt saman á dagskránni minni. Svo skemmtileg leið til að ferðast, ég gæti bara ekki mælt meira með.
Takk fyrir að lesa.