Ferðasaga – Cinque terre, Ítalía

Síðasta sumar fórum við mæðgurnar í þriggja vikna roadtrip um Ítalíu. Einn af mínum uppáhaldstöðum í þessari ferð okkar var Cinque terre og langar mig til að segja ykkur aðeins frá þessari paradís. Cinque terre er staðsett á norðvestur Ítalíu, rétt hjá La Spezia og samanstendur af fimm þorpum, eins og nafnið gefur til kynna. Bæirnir eru Monterosso al Mare, Vernazza, Corniglia, Manarola og Riomaggiore. Riomaggiore og Monterosso eru stærstu þorpin, með um 1500 íbúa hvor, þar næst er Vernazza sem er með um 1000 íbúa. Um 350 manns búa svo á Manarola og Corniglia er minnsta þorpið með um 150 íbúa. Corniglia er líka eina þorpið sem er ekki alveg við sjóinn, heldur er það staðsett uppá háum kletti.

Eftir að hafa lesið okkur vel til ákváðum við að panta gistingu í Vernazza og gistum við þar í þrjár nætur. Við leigðum herbergi í gegnum Airbnb sem var í eigu einhverskonar leigumiðlunar þannig að við vorum ekki inní íbúð hjá öðru fólki, heldur var þetta í húsi þar sem annað fólk var að leigja líka sérherbergi og það eina sem var sameiginlegt var stigagangurinn. Herbergið var ótrúlega notalegt og staðsetningin geggjuð, en þetta er náttúrulega lítill bær með einni aðalgötu, svo líklegast er ekki hægt að fá slæma staðsetningu þarna.

Það er ekki hægt að keyra á milli þorpanna þar sem þau eru staðsett uppí klettum við sjóinn, en það eru lestasamgöngur þarna mjög reglulega yfir allan daginn og einnig er hægt að sigla á milli. Það eru líka gönguleiðir á milli þorpanna, mis erfiðar og sumar þeirra er mælt með að fara ekki nema hafa sérstakan búnað. Við keyptum okkur þriggja daga samgöngukort um þorpin, þannig að við mættum bæði nota allar lestarnar á milli sem og gönguleiðirnar. Ég man ekki alveg hvað það kostaði, en það var alls ekki svo dýrt.

Daginn sem við mættum á svæðið eyddum við í Vernazza. Þar er lítil strönd sem hægt er að leggjast í sólbað á og mikið úrval af veitingastöðum. Við löbbuðum mikið um bæinn og tókum endalaust af myndum. Þetta er einn fallegasti staður sem ég hef komið til.

Daginn eftir ákváðum við að ganga til Corniglia. Við lásum okkur til um að það væri skemmtilegasta og ein auðveldasta gönguleiðin á svæðinu. Það var frekar heitt úti þannig að við vorum bara í stuttbuxum og topp, en tókum með okkur kjóla sem við gætum þá farið í utan yfir þegar fjallgöngunni væri lokið. Á miðri leið var hægt að stoppa í lítilli verslun og kaupa sér lemon-slushie sem var svo kærkomið. Þar var líka hægt að setjast aðeins niður með GEGGJAÐ útsýni yfir til Corniglia. Gangan tók um einn og hálfan tíma og var ógleymanleg. Ég mæli svo hiklaust með þessu ef þú ert á leið um þetta svæði. Maður átti erfitt með að labba því útsýnið var svo klikkað alla leiðina.

Frá Corniglia tókum við svo lestarnar yfir til Manarola og Riomaggiore. Við löbbuðum um alla bæina og skoðuðum flest það sem vert var að skoða. Stoppuðum og fengum okkur að borða og svona. Eins falleg og öll þorpin eru, komumst við að því að við höfðum valið besta þorpið til að gista í þar sem hin þrjú þorpin voru ekki með neina strönd, heldur lá fólk í klettunum í sólbaði.

 

Næsta dag fórum við með lest yfir til Monterosso al Mare og ákváðum við að fara í sundfötum og tókum með okkur handklæði, því þar er risastór strönd og ætluðum við að nýta daginn vel í sólbaði. Þarna hittum við fyrstu Íslendingana í allri Ítalíferðinni okkar, á degi 17 eða svo. Af öllum Cinque terre þorpunum myndi ég setja Monterosso í annað sætið, á eftir Vernazza. Það var ótrúlega fallegt þarna, stór göngugata og geggjuð strönd, sem mér finnst greinilega mjög mikilvægt haha.

Á hverjum morgni gekk ég aðeins uppí klettana hjá Vernazza að litlu útskoti með geggjað útsýni yfir þorpið og tók æfingu. Gangan var fín upphitun og svo var ég með æfingateygjur með mér og gerði allskonar æfingar. Þegar ég hugsa til baka um þessar aðstæður þá finnst mér þær draumi líkast. Ég var yfirleitt þarna um 7-8 á morgnanna og þá var enginn á ferð nema fólk sem var í sömu erindagjörðum og ég.

Ég gæti alveg hugsað mér að fara í lengri ferð til Cinque terre í framtíðinni og þá myndi ég aftur vilja gista á Vernazza, en myndi vilja gefa mér betri tíma til að skoða allt svæðið, öll þorpin og prófa að ganga á milli þeirra allra.

Takk fyrir að lesa

Þér gæti einnig líkað við